136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:29]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Forseti. Er það víst að hv. þm. Pétur Blöndal hafi verið að biðja um ræðu en ekki andsvar? Nú er mikill losaragangur í hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu. Þeir fara ekki eftir þeirri röð sem þeir eru skráðir í á mælendaskrá heldur tala svona nánast hver um annan þveran. Sumir tala oft á dag. Til dæmis hóf hv. þm. Kjartan Ólafsson umræður í dag ef ég man rétt og er núna að tala í annað eða þriðja sinn, mér er það ekki alveg ljóst. Hv. þm. Illugi Gunnarsson var á mælendaskránni þrisvar eða fjórum sinnum sama daginn held ég og þó það væru margir á milli, eitt kvöldið.

Hér kom fyrir um daginn að bíða þurfti eftir þingmanni sem var á mælendaskrá, (Forseti hringir.) ég held í þrjár eða fjórar mínútur af því hann var að tala í símann við einhvern þegar að honum kom á mælendaskránni. Forseti (Forseti hringir.) leyfði það og menn sátu hér á þinginu og biðu eftir þessum tiltekna þingmanni sem var að tala í símann. Sjónvarpsáhorfendur (Forseti hringir.) héldu að það væri komin stillimynd. Þarf ekki (Forseti hringir.) að taka sig á í fundarstjórninni, forseti (Forseti hringir.) sæll?