136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[17:41]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég sá fyrir nokkrum árum bíómynd sem mig minnir að hafi heitið Groundhog Day. Hún var þannig að viðkomandi — (Gripið fram í: Mjög góð mynd.) mjög góð mynd — upplifði alltaf sama daginn aftur og aftur. Nú er ég að fara hér í umræðu um fundarstjórn forseta (Gripið fram í.) þar sem krafan er nú sett fram um að flutningsmenn séu á staðnum. Ég leit á mælendaskrá áðan og sá að hv. þm. Jón Magnússon hyggst flytja sína sjöttu ræðu við 2. umr. og ætlar greinilega að koma á framfæri spurningum sem ekki hafa komið fram áður. Ég útiloka það ekki, langt frá því.

Vegna þess að umræðan er að fara hér fram í tíunda, tólfta eða fimmtánda sinn vildi ég bara nefna að málið er á forræði þingsins og hér eru tveir fulltrúar úr sérnefnd um stjórnarskrármál sem hlýða á málflutning og taka við röksemdum. Ég tel, virðulegi forseti, yfirdrifið að við séum hér á staðnum. (Forseti hringir.) Ég veit enn fremur að einhverjir flutningsmenn eru í húsinu og það er alls ekkert ólíklegt að þeir muni reyna að mæta þegar (Forseti hringir.) eldmessan verður flutt.