136. löggjafarþing — 130. fundur,  8. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[18:53]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef skoðað þetta mál nákvæmlega, fylgst með öllum þeim umræðum sem hér eru uppi, nákvæmlega öllum, og auðvitað sætt mig við þann lýðræðislega rétt þingmanna Sjálfstæðisflokksins að flytja ræður, sömu ræðurnar aftur og aftur. Ég tel þessar tillögur skynsamlegar og tímabærar en það er líka skynsemi í því hjá öllu vel meinandi fólki að leiða deilur til lykta og því ljá þingmenn Sjálfstæðisflokksins ekki máls á.

Hvar eru tillögur þeirra til að leiða þetta mál til lykta? Þær hafa hvergi komið fram og ég verð að segja það, hv. þm. Birgir Ármannsson, að þó að ég sé eldri en þú að árum og efalaust orðinn gleymnari, man ég þokkalega eftir umræðum í nefndinni þar sem ég varpaði fram sjónarmiðum til sátta. Ég heyrði örlítið hljóð í hv. þingmanni inni á nefndarfundum að hann gæti fallist á 2. gr. en orðalagið væri ekki nógu gott, það þyrfti að breyta því. Við breyttum því en meiri hluti sjálfstæðismanna í nefndinni vildi ekki ræða það. Þeir héngu eins og hundar á formroðinu allan tímann og í þessum löngu umræðum með öllum þessum ræðum hanga þeir enn þá á formroðinu. Ég er þannig gerður maður að ég vil leiða þessi mál til lykta og mér finnst þessi umræða hv. þingmanna sjálfstæðismanna, sem ég vil ekki að þeir sleppi því þeir hafa málfrelsi, allt í lagi, en mér finnst hún þó vera tímasóun og tilgangslaus. Það er allt í lagi, ég get hlustað á þetta lengi enn þá, ég hef hlustað á allar ræðurnar, nánast allar, það eru kannski fjórar eða fimm undanskildar, en ég veit ekki hvernig þjóðinni líður að hlusta á þetta allt saman, að halda að þjóðin þurfi (Forseti hringir.) 45, 50, 60 ræður sem eru allar nánast eins.