136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:16]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Það er rétt að halda umræðum áfram, þ.e. 2. umr. um breytingar á stjórnarskipunarlögum. Ég tók eftir því, virðulegi forseti, að hæstv. forseti Alþingis lýsti því yfir að hann byggist við því að þingi lyki nú á fimmtudaginn, ef ég skildi það rétt. Ég þakka því fyrir að við fáum tíma til að ræða þetta mál áfram, þetta mikilvæga mál um breytingar á stjórnarskipunarlögunum og stjórnarskránni.

Ég skildi hæstv. forseta líka þannig að hann teldi að afgreiða ætti hin brýnustu mál en ég tel að þetta mál sé nú ekki með þeim brýnustu þegar litið er til þeirra viðfangsefna sem bíða Alþingis og þeirra málefna sem þjóðin stendur frammi fyrir. Í raun ítreka ég þau sjónarmið sem ég hef látið í ljós á undanförnum vikum að það sé með eindæmum að hæstv. forseti þingsins skuli ekki leita samkomulags um dagskrána þannig að hægt sé að raða henni upp og taka til meðferðar þau mál sem eru brýnust þegar litið er til hagsmuna heimila og fyrirtækja. Ég tel að það mál sem við ræðum nú sé ekki eitt af þeim og það sé þannig að nú, þegar aðeins ellefu dagar eru til kosninga, sé raunverulega alls ekki forsvaranlegt að ætlast til þess að Alþingi ljúki þessu máli og einnig þegar til þess er litið, eins og hæstv. forseti Alþingis hefur sagt að þetta fáir dagar séu til þings, þá sé ágætt að kalla þing saman aftur skömmu eftir kosningar, þá átta ég mig satt að segja ekki á þeirri stjórn þingsins sem felst í því að setja þetta mál á dagskrá.

En mér er ljúft að tala um stjórnarskrána og þann meginþátt sem ég tel að sé galli á þessu frumvarpi þar sem segir í áliti meiri hluta sérnefndarinnar um breytingar á stjórnarskránni, með leyfi forseta:

„Krafan um að Alþingi stígi til hliðar þegar að því kemur að setja þær nýju leikreglur samfélagsins sem felast í nýrri stjórnarskrá er því svo rík að réttlætanlegt verður að teljast að stjórnarskrárgjafavaldið verði tímabundið fært frá Alþingi til annars stjórnarskrárgjafa sem sérstaklega er kosinn til þess starfs.“

Þetta er krafa sem ég mun aldrei samþykkja og ég mun flytja þær ræður sem ég þarf til þess að koma í veg fyrir að krafa af þessu tagi verði samþykkt á Alþingi. Ég tel að þetta sé niðurlæging fyrir Alþingi og þetta sé raunar brot á því drengskaparheiti sem þingmenn rituðu undir þegar þeir settust hér í fyrsta sinn í þingsalinn, að ætla sér að krefjast þess að Alþingi láti af því valdi sem felst í því að vera stjórnarskrárgjafi meðal íslensku þjóðarinnar.

Þegar ég flutti hér ræðu síðast lýsti ég undrun yfir því hvernig hæstv. forsætisráðherra, 1. flutningsmaður, ræðir þetta mál og hvað hæstv. ráðherra virðist telja sjálfsagt að þessu valdi verði veitt frá Alþingi til stjórnlagaþings. Það hefur svo margsinnis komið fram í umræðunum að með því að setja þetta vald frá Alþingi er verið að setja Alþingi í annað sæti, því að stjórnarskrárgjafavaldið er í raun lokavald Alþingis og verið er að skipa Alþingi í óæðri sess með því að taka ákvörðun um það sem felst í áliti meiri hluta sérnefndarinnar og þeim tillögum sem felast í frumvarpinu. Að þessu leyti er grundvallarágreiningur af minni hálfu um málið og ég mun ekki fallast á þessa tillögu.

Að öðru leyti hefur komið fram, virðulegi forseti, við alla meðferð málsins að þeir sem leitað var til utan þings og leitað var álits hjá og umsagnar á málinu voru almennt þeirrar skoðunar að það ætti ekki að ná fram að ganga. Það væri þannig undirbúið og úr garði gert og á þann hátt lagt fyrir að það væri alls ekki við því að búast að unnt yrði að afgreiða það á þeim skamma tíma sem þá var til stefnu og hefur styst enn þegar litið er til þess að þingið getur a.m.k. ekki starfað lengur en til 25. apríl.

Ég sé ekki annað en að það sé dæmalaus þvermóðska og dæmalaust skilningsleysi á eðli þingstarfanna að ætla að standa gegn því að dagskrá þingsins verði breytt þannig að unnt sé að afgreiða þau mál sem talið er óhjákvæmilegt að afgreiða áður en þingkosningar verða hinn 25. apríl. Því engin trygging er fyrir því að annað mál verði afgreitt og þetta umræðumál verði hér til umræðu ef dagskrá þingsins verður ekki breytt, því hvað sem öðru líður rennur umboð okkar þingmanna út hinn 25. apríl.

Við sem erum andvígir þessu og viljum ekki að þingið verði sett niður með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu höfum afl í þinginu til að koma í veg fyrir að frumvarpið nái fram að ganga. Og ef flutningsmenn þess og þeir sem vilja standa að því að setja Alþingi niður með þessum hætti ætla að halda því máli til streitu verður pattstaða á þinginu þangað til umboðið verður tekið af okkur sem búið er að ákveða að verði í kosningunum 25. apríl.

Það er með ólíkindum að þeir sem standa að frumvarpinu og forseti þingsins skuli ekki koma til móts við þau sjónarmið okkar að leita sátta um dagskrána svo hægt sé að ljúka þinginu. Ef hæstv. forseti meinar það sem fram hefur komið í máli hans, að þinginu eigi að ljúka á fimmtudaginn, þeim mun brýnna er fyrir þá sem telja sig hafa ráð þingsins í hendi sér að ná samkomulagi um það ef þeir vilja ná fram öðru en því að við flytjum hér ræður um þetta mál, því við munum gera það, við sem viljum ekki sætta okkur við að þingið verði sett niður með hætti sem felst í þessari grein um að þingið gefi frá sér stjórnarskrárgjafavaldið.

Ég veit ekki hvað þarf að flytja margar ræður eða endurtaka þetta oft til að menn átti sig á því hvernig á þessu máli stendur og um hvað það snýst af okkar hálfu fyrir utan það að fram hafa komið svo skýrar ábendingar og skýr sjónarmið sem segja að frumvarpið í heild sé illa undirbúið, illa úr garði gert og óforsvaranlegt að ætlast til þess að þingið afgreiði það á þeim tíma sem okkur hefur verið settur.

Fyrir utan það svo sem hér hefur komið fram og bent hefur verið á, sérstaklega af hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, þegar litið er á efni frumvarpsins hvað það er fráleitt að knýja á um að 1. og 3. gr. nái fram að ganga á þessu stigi málsins og draga þær undan því sem hv. þingmenn, málsvarar frumvarpsins, telja aðalkost þess að bera undir þjóðina einhver ákvæði sem máli skipta, því það verður ekki gert, hvorki varðandi 1. gr. né 3. gr. ef frumvarpið nær fram að ganga í óbreyttri mynd. Þær greinar verða aldrei lagðar undir þjóðina. Þær verða teknar fyrir á þingi að nýju eftir kosningarnar ef frumvarpið yrði samþykkt og málið þá afgreitt væntanlega af nýjum þingmönnum og á nýju þingi.

Virðulegi forseti. Ég tel að það sé einsýnt að þetta mál heldur áfram í þeim farvegi sem það hefur nú verið. Við sem erum andvígir því að það nái fram að ganga og að Alþingi verði sett í annað sæti í þjóðfélaginu með þeim hætti sem frumvarpið gerir ráð fyrir munum beita því afli sem við höfum í þingsalnum til að koma í veg fyrir að það nái fram að ganga. Ef hæstv. forseti þingsins, ríkisstjórnin, flutningsmenn eða þeir sem telja sig hafa ráð þingsins í hendi sér átta sig ekki á þessu, eftir a.m.k. þær ræður hér hafa verið fluttar um þetta og allar þær ábendingar sem við höfum sett fram í þessu skyni, er mér ljúft að standa hér og flytja margar ræður til varnar Alþingi og ég mun gera það. Ég mun ekki láta það spyrjast um mig að ég á síðustu dögum mínum sem þingmaður verði hér til þess að afsala þinginu þessu valdi.

Ef aðrir hv. þingmenn sem eru að ljúka þingstörfum telja sér sæma að kveðja þingið með þeim hætti þá óska ég þeim auðvitað til hamingju með það. En ég ætla ekki að vera í þeim hópi. Ég ætla ekki að láta það vera mitt síðasta verk á Alþingi að svipta Alþingi stjórnarskrárgjafavaldinu. Og ég mun tala eins oft og ég þarf til þess að koma í veg fyrir að svo verði.