136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[16:04]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp um breyting á stjórnarskrá og um stjórnlagaþing. Ég vil í þessari atrennu ræða um hugmyndir framsóknarmanna um stjórnlagaþingið, um breytingar á stjórnarskránni, sem komu fram á flokksþingi þeirra í janúar. Segja má að ýmislegt í þeim farvegi sem málið hefur verið í og í þeim hugmyndum sem birtar hafa verið hafi komið frá flokksþingi framsóknarmanna frá því í janúar 2008. Þeir hafa haldið þessum hugmyndum á lofti og eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu er saga á bak við það. Hugmyndir um stjórnlagaþing komu fyrst fram hjá alþingismanninum Jónasi Jónassyni frá Hriflu, sem var framsóknarmaður eins og þekkt er en reyndar einnig stofnandi jafnaðarmannaflokksins eða Alþýðuflokksins. Hugmyndinni var hreyft snemma á árinu 1941 þar sem Jónas frá Hriflu taldi að eðlilegt væri að kalla saman sérstakan þjóðfund í tengslum við lýðveldisstofnunina og þar á meðal voru hugmyndir um stjórnlagaþing.

Frá þeim tíma hefur frumvarp um stjórnlagaþing þrisvar verið lagt fram á hinu háa Alþingi. Fyrst af Páli Zóphóníassyni, þingmanni Framsóknarflokksins, árið 1948, síðan af Jóhönnu Sigurðardóttur árið 1995 og svo af Siv Friðleifsdóttur, sem lagði, ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins, fram frumvarp um stjórnlagaþing á yfirstandandi þingi.

Það vekur athygli að í hugmyndum Framsóknarflokksins frá því í janúar eru settar fram ýmsar hugleiðingar um það hvar bera eigi niður varðandi stjórnlagaþing og verkefni þess. Þar er m.a. velt upp hugmynd um hvort afnema eigi þingræði og taka upp beina kosningu æðsta handhafa framkvæmdarvalds. Jafnframt er verið að velta því fyrir sér hvort þörf sé á sérstökum þjóðhöfðingja og hvert hlutverk hans eigi að vera.

Ýmis önnur atriði koma fram sem eru reyndar mjög lítið tæmandi, verð ég að segja, miðað við þá umræðu sem verið hefur um breytingu á stjórnarskránni á síðustu árum. Þó er tæpt á ýmsu og m.a. koma þarna fram spurningar um það hvort auka eigi möguleika á þjóðaratkvæði og jafnvel frumkvæði að löggjöf frá almenningi.

Eitt af því sem þeir eru að velta fyrir sér eru möguleikar á þjóðaratkvæðagreiðslu og því vekur það sérstaka athygli að ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu hafi verið tekið út fyrir sviga þegar til kastanna kom og frumvarp kom fram um breytingu á stjórnarskránni og um stjórnlagaþing. Þrátt fyrir að hugmyndir framsóknarmanna hafi verið í þá veru að stjórnlagaþingið fengi víðtækt umboð til þess að endurskoða stjórnarskrána er tekin ákvörðun um að taka nokkra þætti út fyrir og afgreiða það á yfirstandandi þingi, breytingar á stjórnarskránni, taka til umræðu þætti sem stjórnlagaþingið mundi að öðrum kosti útfæra.

Við hljótum að velta því fyrir okkur hver ástæðan sé fyrir því að þrjú atriði — varðandi atkvæðagreiðslu, varðandi það hvernig breyta eigi stjórnarskránni og varðandi auðlindir landsins — eru tekin út fyrir sviga og tekin ákvörðun um að yfirstandandi þing eigi að gera slíka breytingu á stjórnarskránni þannig að takmarka eigi verkefni stjórnlagaþings sem því nemur.

Það vekur líka athygli að þeir þættir sem ég nefndi hér á undan, hvort þörf sé á sérstökum þjóðhöfðingja og hvert hlutverk hans eigi þá að vera, og hvort afnema eigi þingræði og taka upp beina kosningu æðsta handhafa framkvæmdarvalds — það vekur athygli að í greinargerð með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Um hlutverk stjórnlagaþings er gagnorð lýsing í 1. málsl. 1. mgr. en það er að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins Íslands. Þar er sömuleiðis fólgin eina efnislega takmörkunin á valdsviði stjórnlagaþings, þ.e. að áfram verði byggt á lýðræðisskipan, réttarríki og vernd mannréttinda, en ekki verður fallist á frávik frá þessum grunngildum sem íslenska stjórnskipulagið hvílir á. Þá er gengið út frá því að áfram verði byggt á lýðveldisskipulagi þar sem þjóðhöfðingi er kjörinn til ákveðins tíma og áfram verður þannig rætt um stjórnarskrá lýðveldisins. Annars er í ákvæðinu hvorki mælt fyrir um skyldur stjórnlagaþings né takmarkanir á því hvað skuli eða megi endurskoða enda er í því efni treyst á mat þingsins sjálfs.“

Í þessu sambandi má þannig benda á að hugmyndum Framsóknarflokksins, um að skoða sérstaklega hvort afnema eigi þingræði og taka upp beina kosningu æðstu handhafa framkvæmdarvalds, og um það hvort þörf sé á sérstökum þjóðhöfðingja og hvert hlutverk hans eigi að vera, er í raun og veru hafnað í greinargerð með frumvarpinu og í frumvarpinu sjálfu með því að takmarka hlutverk stjórnlagaþingsins sjálfs.

Jafnframt kom fram á flokksþingi framsóknarmanna að stjórnlagaþing skuli ekki skipað núverandi eða fyrrverandi alþingismönnum, ráðherrum eða formönnum stjórnmálahreyfinga. Það má eiginlega segja að með því frumvarpi sem við höfum hér fyrir framan okkur eru þessar takmarkanir og hugmyndir framsóknarmanna ekki teknar upp heldur er eingöngu verið að segja það að allir séu kjörgengir til stjórnlagaþings nema forseti Íslands, alþingismenn, varamenn þeirra og ráðherrar. Hugmynd framsóknarmanna takmarkaði aðgang fleiri, þ.e. útilokaði fyrrverandi alþingismenn og formenn stjórnmálahreyfinga frá því að vera kjörgengir.

Það má því ljóst vera, af því sem ég hef sagt hér, að vald stjórnlagaþings er mun takmarkaðra en framsóknarmenn lögðu upp með. Í framhaldi af því má velta því fyrir sér hvaða breytingar hafa verið gerðar í sérnefnd um stjórnarskrá milli 1. og 2. umr. varðandi umgjörð stjórnlagaþingsins sjálfs. Þar hafa verið gerðar gagngerar breytingar til þess að minnka umfangið og langt því frá að farið sé eftir hugmyndum framsóknarmanna sem hafa lagt mikla áherslu á að stjórnlagaþingið komist á. En það er alveg ljóst að þeir hafa slegið verulega af í hugmyndum sínum til þess að ná þessu máli í gegn, m.a., sem gefur náttúrlega til kynna umfang breytinganna, er kostnaður, sem í byrjun var talinn 2–2,5 milljarðar kr., kominn niður í 400–500 millj. kr.

Það er einnig athyglisvert að í nefndaráliti meiri hluta eru hugleiðingar sem gefa til kynna að þeir séu ekki alveg með það á hreinu hvaða hugmyndir þeir leggja til grundvallar í vali á fulltrúum á stjórnlagaþing, hvernig þeir vilja útfæra kosningu til stjórnlagaþings.

Í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar segir, með leyfi forseta:

„Í drögum að frumvarpi til laga um stjórnlagaþing sem er fylgiskjal með frumvarpi til stjórnskipunarlaga er lagt til að kosið verði persónukjöri á þingið. Meiri hlutinn leggst ekki gegn slíkri kosningu en áréttar þó mikilvægi þess að á stjórnlagaþingi sitji fulltrúar þjóðarinnar. Ný stjórnarskrá lýðveldisins Íslands mun verða stjórnarskrá þjóðarinnar allrar. Enda þótt aðkoma almennings alls verði tryggð, t.d. með opnum fundum, upplýsingagjöf og málþingum og að auðvelt verði að senda inn umsagnir, þarf jafnframt að tryggja að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll eða fulltrúar hennar. Meiri hlutinn telur því mikilvægt að reglur um persónukjör verði með þeim hætti að tryggt verði að fulltrúar landsbyggðar og landshluta fái sæti, hvort sem það verður gert með ríkari reglum um kjör eða reglum um einhvers konar jöfnunarsæti. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að reglur um kjörið verði með þeim hætti að tryggt verði eins og hægt er jafnt kynjahlutfall á þinginu.“

Hér má segja að mörgum spurningum sé ósvarað og alls ekki ljóst hvernig kosningar til stjórnlagaþingsins eru hugsaðar eða útfærðar. Maður veltir fyrir sér hvort verið er að leggja til persónukjör eða ekki. Maður veltir því líka fyrir sér hvað átt sé við þegar sagt er að jafnframt þurfi að tryggja að á þinginu sjálfu sitji þjóðin öll eða fulltrúar hennar. Hvað er átt við með að á þinginu sitji þjóðin öll eða fulltrúar hennar?

Það er því alveg ljóst að töluverðar breytingar hafa verið gerðar á fyrri hugmyndum og í stað þess eins og venjulega er í meðhöndlun þingsins að reynt sé að gera textann skýrari og auðskildari er hér þveröfugt farið að, textinn er óskýrari og erfiðara að fara eftir honum eftir því sem lengra hefur liðið á vinnuna.