136. löggjafarþing — 131. fundur,  14. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[23:59]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég er forseta ævarandi þakklátur fyrir að fá loksins tækifæri til að flytja þá ræðu sem ég var tilbúinn að flytja klukkan fjögur í dag en síðan eru liðnar akkúrat átta klukkustundir. Í millitíðinni hefur þingfundi verið frestað nokkrum sinnum, annað mál tekið á dagskrá og síðan horfið frá umræðu um það mál í miðri umræðu, í miðjum klíðum og lög um breytingar á stjórnarskipunarlögum aftur tekið á dagskrá. En ég hlýt að þakka forseta sérstaklega fyrir að gera það svo ég fái tækifæri alla vega til að klára ræðu mína í þessu máli þó að ég hafi verið næstur á mælendaskrá í því máli sem tekið var á dagskrá hér áðan. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, sem nú gegnir formennsku í sérnefnd um stjórnarskipunarlög, kom inn á það og vakti athygli á því að þetta væri ekki sérstök aðför eða atlaga að þeim sem hér stendur eða verið að vega að honum eða reyna að rugla hann í ríminu enda erfitt að gera það eins og þingmaðurinn þekkir.

Umræður um breytingar á stjórnarskipunarlögum eins og hér er verið að gera fara aðallega fram þegar komið er fram yfir miðnætti. Við þingmenn Sjálfstæðisflokksins höfum ítrekað gagnrýnt það að staðið sé að málum með þeim hætti og farið fram á að málið væri rætt í björtu og á þeim tíma sem þjóðin gæti helst fylgst með því sem um er að ræða, og við teljum að það væri eðlileg virðing við stjórnarskrána að að standa þannig að málum.

Í dag þegar umræðu lauk og ég bjóst við að komast að til að ræða þetta mál fór hv. þm. Ellert B. Schram í andsvör við þann þingmann sem þá hafði nýlokið ræðu sinni, hv. þm. Björn Bjarnason, og sagði m.a. að allir vissu að samkomulag næðist ekki í ræðustól á Alþingi. Það væri spurning um að fara þannig að málinu, eftir því sem ég gat skilið hv. þm. Ellert B. Schram, að klára þá umræðu sem hér fer fram og vísa málinu aftur til nefndar og það yrði síðan athugað þar hvort einhver flötur væri á samkomulagi í málinu.

Hv. þm. Björn Bjarnason benti á að meiri hluti sérnefndarinnar hefði beitt ofbeldi við afgreiðslu málsins og tekið það út með meirihlutavaldi atkvæða. Það gerist stundum og menn verða að sætta sig við það. (Gripið fram í: … orðið ofbeldi?) Hitt er annað mál að á þeim tíma þegar þetta gerðist var málið komið á það stig í nefndinni eins og ég vakti sérstaka athygli á oftar en einu sinni, að nú væri möguleiki á að setjast niður til að athuga hvort nefndin gæti skilað sameiginlegu áliti og staðið saman að breytingartillögum og nefndaráliti. Ég taldi á þeim tíma að það væri grundvöllur fyrir því eða flötur því að gera það en það var hunsað, málið tekið út og ekki virt í neinu sú sáttarhönd sem við sjálfstæðismenn í nefndinni réttum fram til að reyna að koma í veg fyrir það sem hér hefur síðan verið að gerast, þ.e. þessar alinlöngu umræður. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði að sá sem hér stendur væri að koma upp og ræða málið í sjötta sinn og það kann vel að vera, hann er vel að sér í tölfræðinni. Fyrir nokkrum dögum, fyrir páska, talaði hann um að Jón Magnússon væri á leiðinni í sína sjöundu ræðu þannig að eitthvað skjöplast honum í tölfræðinni en síðari útgáfan mun víst vera rétt.

Hins vegar er það svo þegar mál eru afgreidd með þeim hætti sem hér um ræðir að fá ekki fullnaðarafgreiðslu í nefnd, þá er ósköp eðlilegt að þeir sem hafa mjög mikinn áhuga á málum eins og þessu og telja að frumvarpið sem lagt er fram sé með algerum endemum þurfi tíma til að fjalla um það. Ég hef ítrekað vikið að því með hvaða hætti nágrannaþjóðir okkar, þjóðir í okkar heimshluta standa að því að breyta stjórnarskrá sinni. Hvernig gera þær það? Þær gera það þannig að framkomnar breytingar á stjórnarskipunarlögum eru ítrekað ræddar. Í fyrsta lagi eru settar fram hugmyndir innan þings og þegar þær liggja fyrir fara fram vandaðar umræður og þær fara ekki fram rétt áður eða jafnvel þegar búið er að boða til kosninga eins og hér er gert.

Hér er sú sérstaða uppi að fólk úti í bæ var fengið til að semja ákveðnar tillögur, síðan er skipuð sérnefnd til að fjalla um þær í mjög stuttan tíma og málið var alls ekki útrætt að einu eða neinu leyti þegar það var tekið úr sérnefndinni. Og það verða hv. þingmenn Ellert B. Schram og Lúðvík Bergvinsson, sem eru einu nefndarmennirnir úr sérnefndinni sem voru í þessum meiri hluta, að sætta sig við að þarna var um óverjandi vinnubrögð að ræða. Þeir bera alla ábyrgð á því ásamt öðrum í meiri hlutanum að mál skuli hafa þróast með þeim hætti sem hér um ræðir, þ.e. að taka málið upp jafnófullburða og það raunverulega er og við vitum ekki einu sinni núna hvers konar frumvarp við erum að ræða.

Á sínum tíma var flutt frumvarp til stjórnarskipunarlaga þar sem flutningsmenn voru hv. þingmenn Jóhanna Sigurðardóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Birkir J. Jónsson og Guðjón A. Kristjánsson og þar stendur m.a. í 4. gr. þar sem fjallað er um stjórnlagaþing: „Við stjórnarskrána bætist nýtt ákvæði um stundarsakir, svohljóðandi:“ Eftir að málið hafði verið rætt í nefndinni var allt í einu komin ný hugmynd að 4. gr. sem kom á lokastigum málsins án þess að nefndin fjallaði um það að nokkru leyti, að við stjórnarskrána skyldi bætast öðruvísi ákvæði um stjórnlagaþing. Síðan er haft eftir hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, formanni þingflokks Framsóknarflokksins, í fréttum í dag að þetta stjórnlagaþing sé ekki lengur neitt atriði og ég gat ekki skilið annað en að fallið hefði verið frá því að hafa með það að gera. Ég hlýt þar af leiðandi að spyrja nefndarmenn í meiri hlutanum í sérnefndinni hvort það sé rétt sem formaður þingflokks Framsóknarflokksins sagði í dag að fallið hafi verið frá 4. gr. frumvarpsins, að meiningin sé að draga hana til baka. Það væri eðlilegt að fá upplýsingar um hvort einhverjar slíkar umræður séu í gangi eða einhverjar ákvarðanir hafi verið teknar af meiri hlutanum sem ekki hefur verið gerð grein fyrir úr ræðustól á Alþingi þrátt fyrir að greint hafi verið frá því í fréttamiðlum í landinu, sem mér finnst óviðurkvæmilegt að sé gert. Full ástæða var til þess að kanna það í nefndinni hvort möguleiki væri á að ná samkomulagi og mér finnst það ábyrgðarhluti sem báðir þeir þingmenn sem mynduðu meiri hlutann í sérnefndinni, hv. þingmenn Lúðvík Bergvinsson og Ellert B. Schram, bera sína ábyrgð á að horfið var frá því að reyna að ná samkomulagi sem við sjálfstæðismenn vildum ítrekað gera og réttum ítrekað fram sáttarhönd til að athuga hvort tekið væri í, kannski í litla putta þó ekki væri meira, en það var aldrei komið neitt til móts við okkur.

Því var síðan haldið fram þegar breytingartillögur voru lagðar fram af meiri hlutanum þar sem reynt var að lagfæra helstu misfellur í upphaflegu frumvarpi af því að menn köstuðu svo höndunum til frumvarpsins að ljóst var að slíkt þyrfti að gera, að meiri hluti sérnefndarinnar væri að koma með sáttatillögur. Heyr á endemi. Það var ekki að einu eða neinu leyti verið að koma með sáttatillögur heldur eingöngu lagfæringar þannig að málið væri ekki sú hrákasmíð sem lögð var fram á sínum tíma af flutningsmönnum frumvarpsins. Og það verður að segjast að það er verulegur ábyrgðarhluti að leggja fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga eins og flutningsmenn þessa frumvarps gerðu með ákvæðum eins og þeim að nýta ætti náttúruauðlindir á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir og annað í þeim dúr, sem getur aldrei gengið upp rökfræðilega. Og það að fella slíkt bull úr þessu frumvarpi var allt í einu kallað tillaga til sátta. Heyr á endemi. Það eina sem tekið var tillit til voru þau sjónarmið sem við sjálfstæðismenn í nefndinni bentum skýrt á, að hlutirnir gengu ekki upp rökfræðilega.

Ég hafði ætlað mér að ræða breytingartillögur hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar í (Forseti hringir.) þessari umferð en ég kem því væntanlega að í sjöundu ræðu minni um þetta frumvarp.