136. löggjafarþing — 131. fundur,  15. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[00:37]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil eins og aðrir sjálfstæðismenn, sem hafa tekið til máls undir liðnum um fundarstjórn forseta, árétta að við erum að lesa í fjölmiðlum einhvers staðar úti í bæ að búið sé að slá stjórnlagaþingið af eins og kemur fram í frétt á mbl.is kl. 19.50. Engu að síður segir í 35. gr. þingskapa að fara eigi fram 2. umræða um frumvörp og breytingartillögur sem fyrir liggja og þá á síðan að fara í atkvæðagreiðslu. Hvað ætlum við að greiða atkvæði um og hvað erum við að ræða? Erum við að ræða frumvarpið með fyrstu þremur greinunum og 4. gr. sé úti án þess að breytingartillaga sé komin fram eða erum við að ræða eitthvað allt annað? Af hverju er ekki hægt að hlusta á tillögu okkar um að málinu sé frestað og það tekið inn í nefndina aftur, og að við a.m.k. vitum hvernig við ætlum að klára 2. umr.? Á ekki stjórnarskráin það skilið af okkur að við ræðum breytingar á breytingartillögunni á hv. Alþingi en ekki annars staðar úti í bæ?