136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

fjármálafyrirtæki.

409. mál
[11:28]
Horfa

Gunnar Svavarsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég ætla að blanda mér örlítið í þessa umræðu með hliðsjón af því hvernig málið var afgreitt á sínum tíma úr nefndinni. Ég hafði að vísu ekki tækifæri á því á sínum tíma að sitja þann nefndarfund þegar málið var afgreitt en óháð því fylgdist ég með þeirri umræðu sem fór fram í nefndinni, hlýddi á þá gesti sem komu og las þær umsagnir sem bárust. Ég studdi þær breytingartillögur sem koma fram á þskj. 858 en voru síðan kallaðar aftur til 3. umr. við atkvæðagreiðslu í gær. Ástæður þess hafa verið raktar af formanni nefndarinnar, hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, en samt sem áður ítreka ég, án þess að ég sé að gera ágreining um það mál, að ég hefði talið rétt að liðir eins og c- og d-liðir hefðu komið fram í umræddu lagafrumvarpi og lögum. Hins vegar erum við auðvitað stödd í ákveðnu breytingarferli.

Það má kannski segja að það sé afleiðing þess sem átti sér stað með ákvörðunum í byrjun október á liðnu ári og er verið að reyna að gera það ferli sem fara á eftir betra en það var þá. Ég vil hins vegar ekki segja sem svo að gerð hafi verið mistök á sínum tíma varðandi þau mál heldur þótti mönnum á þeim tíma þetta einfaldlega vera besta ákvörðunin sem lá fyrir og líkt og komið hefur fram í ræðum um málið gerðust hlutirnir afskaplega hratt. Taka þurfti ákvarðanir mjög hratt og voru þrjár skilanefndir stofnaðar á þremur dögum. Þær tengdust um 75–80% af bankakerfi landsins og hefði hugsanlega þurft að vera styrkari umgjörð í kringum það.

Það sem kom mér hins vegar á óvart í þessari umræðu þegar skilanefndirnar komu til nefndarinnar var umfang starfs þeirra og má segja að skilanefndir hafi fengið einhvers konar stjórnsýslulegt hlutverk þegar þær voru kallaðar fyrir þingnefndir. Skilanefndirnar greindu hver um sig frá því umfangi sem um var að ræða, þær höfðu samskipti við 30–40 kröfuhafa eða lánardrottna. Ég hafði einhvern veginn málað upp þá mynd í huganum að umfangið sem um væri að ræða væri mun meira en það er. Þó ætla ég ekki að gera lítið úr störfum þessara umræddu skilanefnda en það má segja að 80% af kröfuhöfunum séu 30–40 aðilar. Í því tilfelli er það ekki ofvaxið einum né neinum að takast á við það. Hins vegar má kannski segja að sú óvissa sem verið hefur bæði í innra og ytra umhverfi hafi valdið því að störf skilanefndanna hafi hugsanlega dregist og orðið víðfeðmari og meiri en gert var ráð fyrir og tengist það umræðunni sem kemur fram í nefndarálitinu og í framhaldsnefndarálitinu um kostnað. Hér segir, með leyfi forseta:

„Nefndin telur að það hafi ekki verið ætlunin þegar ákvæðið var lögfest heldur hafi því verið ætlað að tryggja að ríkið bæri ábyrgð á þeim kostnaði við skipti sem ekki fengist greiddur af eignum viðkomandi fjármálafyrirtækis.“

Það getur varla verið skýrara í niðurlagi þessa framhaldsnefndarálits. Það er samstaða um þessa skýringu í nefndinni. Nefndin er samhljóða þessu nefndaráliti. Ég vil þar af leiðandi ítreka að skilningur okkar sem að þessum málum koma gagnvart þeim kostnaði sem til fellur liggur alveg ljós fyrir og þarf ekki að vera neinn vafi á því enda tel ég að sá vafi hafi ekki verið fyrir hendi þó að hann hafi birst í almennri umræðu.

Að lokum, virðulegi forseti, var ræða hv. þm. Árna M. Mathiesens nokkuð góð þótt hún hafi kannski ekki tengst þessu efni nákvæmlega en þar voru hugleiðingar um af hverju krónan væri að gefa eftir. Ég hafði gaman af því að hlýða á þær hugleiðingar þar sem farið var aðeins yfir sviðið. Þá vakna upp spurningar hvernig slíkt fari saman að vera með gjaldeyrishöft en fleyta gjaldmiðlinum um leið. Við erum með takmarkað fjármagn og verðgildi þess ræðst af framboði og eftirspurn en um leið erum við með inngrip í kerfið. Ég hef stundum sett þetta upp eins og hver önnur kerfi, hvort sem það eru varnarkerfi eða önnur kerfi sem við þurfum að regla. Í þessu tilfelli flæðir fjármagn en við komum með lög sem við teljum að séu nauðsynleg vegna gjaldeyrishafta um leið viljum við að gjaldmiðillinn fljóti eða finni stöðugleika sem stýrist af framboði og eftirspurn eins og hér hefur verið farið yfir. Hugleiðingar hv. þingmanns voru góðar og ég tel að ýmsir aðilar velti þessu fyrir sér, ekki bara á hv. Alþingi heldur líka á markaðnum. Það sem skiptir verulegu máli fyrir okkur er að koma fjármagni aftur á hreyfingu á næstu mánuðum og árum, að fjármagnið hreyfist. Ég ætla ekki að tala um hverjir setja það á hreyfingu en það skiptir máli að fjármagnið komist á hreyfingu þannig að ákveðnar afleiður verði í framhaldinu. Ef fjármagn er ekki á hreyfingu verður stöðnun. Við þurfum að koma okkur úr því ástandi sem við erum í með því að rísa upp og það má auðvitað líka gera með inngripi líkt og rætt hefur verið um varðandi ríkisfjármálin. Þar ræða menn um hugsanlega blandaðar leiðir en ég hvet þá til að kynna sér vel hagræna skiptingu ríkissjóðs því að hún segir margt um það sem á sér stað hjá ríkinu. Af þeim upplýsingum er hægt að sjá hvers vegna væri hægt að beita blandaðri leið gagnvart ríkisútgjöldum, tekjutilfærslum og/eða tekjum ríkissjóðs. Það er mjög auðvelt að lesa í tekjur ríkissjóðs og sjá hvernig þær myndast af markaðnum. Það tengist því m.a. að tekjurnar myndast af þeirri veltu sem er á markaðnum og því fjármagni sem er á hreyfingu hverju sinni. Þetta er einföld hringrás sem menn geta skoðað en inngripið er í mörgu líkt þessari löggjöf þar sem því er velt upp að ef þannig ástand skapast á mörkuðum að inngrip þurfi, liggur fyrir betur skilgreind leið en sú leið sem við vorum með.

Ég vil að lokum þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, formanni viðskiptanefndar, fyrir að hafa leitt þetta til lykta í nefndinni og náð fram þessari niðurstöðu þó að ég hefði viljað hafa hana með öðrum hætti. En ég geri ekki stóran ágreining um það á þessu stigi og mun líklega ekki gera það á neinu öðru stigi.