136. löggjafarþing — 132. fundur,  15. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[23:36]
Horfa

Jón Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Ég tek að meginhluta til undir það sem hv. þm. Birgir Ármannsson hafði hér fram að færa en hefði nú viljað ganga nokkuð lengra í andstöðu við skrifræðisþjóðfélagið sem hér er í auknum mæli verið að innleiða.

Það getur verið um að ræða góðar hugmyndir og sjónarmið sem eru allra góðra gjalda verð og ég vil styðja. En það er hins vegar spurningin um hvað sé afsakanlegt að gera hvað varðar inngrip í frjálsa atvinnustarfsemi og hvernig einstaklingarnir haga lífi sínu, starfi og fyrirtækjarekstri sínum.

Hér skal tekið fram til þess að koma í veg fyrir misskilning að ég er mjög fylgjandi því að um jafnstöðu kynjanna sé að ræða og tel það ekki síður hlutverk karla að gæta að þeim sjálfsögðu mannréttindum að konur njóti sama réttar sem karlmenn og öfugt. Um er að ræða almenn mannréttindi í samfélagi. Síðan er spurningin hversu langt á að fara, hvað eðlilegt er að gera og hvaða inngrip eru heimil hvað það varðar í almennt líf og störf einstaklinganna. Með því frumvarpi sem hér er um að ræða er að vissu leyti gengið út á ystu brún hvað varðar ákvæði um kynjahlutföll.

Hlutafélög eru margvísleg og í meginhluta þeirra einkahlutafélaga sem hér eru starfandi eru hluthafar ekki margir, iðulega ekki nema einn. Í eins manns hlutafélagi verður ekki gætt að því sem segir í greinargerð með frumvarpinu, að hlutföll kynjanna séu sem nánast jöfn því að það er tæknilega ómögulegt. Í félagastjórnum í einkahlutafélögum er í flestum tilvikum — svo fremi sem þar eru fleiri en einn maður — um að ræða einhverja nána vini, félaga eða samstarfsmenn. Þarna er þá um að ræða félög sem oft eru stofnuð til þess að reka ákveðna starfsemi. Eigendurnir vinna í fyrirtækinu og eru þá í stjórn félagsins.

Það verður svolítið umhendis að ætla að gæta kynjahlutfalla eins og þegar einkahlutafélag er stofnað um rekstur bifreiðaverkstæðis sem við skulum segja að fimm karlar reki. Þá er spurningin: Er eðlilegt að gera kröfu til þess að einhverjir utanaðkomandi sitji í hlutafélagastjórnum til að gæta að kynjahlutföllum? Satt að segja finnst mér það ekki vera spurning um að gæta að einhverri jafnstöðu kynjanna heldur er verið að setja óeðlileg höft á starfsemi borgaranna í frjálsu þjóðfélagi. Það er það sem við verðum alltaf að varast að gera, að setja ekki óeðlileg höft á starfsemi borgaranna í frjálsu þjóðfélagi. Við verðum að gæta þess að borgarinn geti almennt hagað lífi sínu og starfi án þess að þurfa að fara eftir sérstökum forskriftum frá hinu opinbera í öllum greinum, og hinum minnstu þess vegna, í því hvernig hann hagar fjármálastarfsemi sinni þegar um hans eigið fyrirtæki er að ræða. Þess vegna geld ég varhuga við þeirri skrifræðishugsun sem opinberast í þessu frumvarpi. Við í 2. minni hluta viðskiptanefndar bendum sérstaklega á í nefndaráliti okkar að við gjöldum varhuga við því.

Þá koma önnur sjónarmið til skoðunar, m.a. orðalag frumvarpsins. Ef lesnar eru þær lagagreinar sem er þarna um að ræða birtast hin raunverulegu undirliggjandi lagaákvæði sem verið er að reyna að ná með löggjöfinni en ekki í viðkomandi lagaákvæðum og er það verulegur galli. En ég vík að því aðeins síðar.

En það sem ég tel hins vegar vera kost laganna er það sem getið er um í 1. gr. varðandi breytingar á 30. gr. laganna. Þar er kveðið á um nákvæmari reglur um hvernig hlutafélagaskrá skuli tekin saman og geymi réttar upplýsingar á hverjum tíma sem skiptir gríðarlega miklu máli.

Af sama meiði eru ákvæði 5. gr. frumvarpsins þar sem er breyting á 3. mgr. 84. gr. laga um hlutafélög. Þar er kveðið á um að félagsstjórn skuli gera stutta samantekt og leggja fyrir aðalfund um hlutafjáreign einstakra hluthafa og rétt þeirra til að greiða atkvæði, svo sem um þær breytingar sem gerðar voru á árinu sem ég tel ákaflega mikilvægt að fá inn.

En síðan þegar skoðuð eru ákvæði laganna um 2. og 3. mgr. þar sem verið er að fjalla um kynjahlutföllin segir í 2. gr. frumvarpsins að við 1. mgr. 63. gr. laganna bætist við tveir nýir málsliðir sem orðist þannig:

„Einnig skal gætt að kynjahlutföllum í stjórnum annarra hlutafélaga.“

Og í 3. gr.:

„Gætt skal að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra …“

En þegar talað er um að gætt skuli að kynjahlutföllum, hvernig á þá að skilja þann lagatexta? Miðað við orðalag ákvæðisins er þetta atriði sem eingöngu á að huga að. Í sjálfu sér er ekki tæk önnur skýring á lagaákvæðinu en að reynt sé að miða við að kynjahlutföll séu með ákveðnum hætti og þá sem jafnast hlutfall en ekkert frekar er kveðið á um hvað það varðar.

Þegar greinargerðin með frumvarpinu er lesin kveður heldur betur við annan tón. Þar sem fjallað er um 2. gr. frumvarpsins, þ.e. í greinargerðinni, er vísað til þess að miðað sé við að kynjahlutföll séu sem nánast jöfn. Greinina skuli skilja með þeim hætti. Það er öllu víðtækara ákvæði en í raun er verið að tala um miðað við orðalag lagaákvæðisins sjálfs. Miðað við það lögskýringargagn sem liggur fyrir, sem er greinargerðin, er ljóst að þetta skal vera með þeim hætti.

Ég tel að nokkuð annað gildi um hlutafélög almennt en um einkahlutafélög. Hlutafélög eru almennt stærri með meiri fjárhag og meiri rekstur þannig að hægt er að gera meiri kröfur til þeirra en ýmissa annarra fyrirtækja. Mér finnst hins vegar veruleg spurning um ákvæði 8. og 9. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um að gæta skuli að kynjahlutföllum í stjórnum einkahlutafélaga og við ráðningu framkvæmdastjóra. Að mínu mati hefði verið eðlilegt að kveða á um það að þarna væru sett einhver ákvæði til viðbótar ef um inngrip væri að ræða í frjálsa atvinnu- og félagsstarfsemi svo sem hér er gert ráð fyrir, í sjálfu sér hefði verið eðlilegt að miðað væri við lágmarksstarfsmannafjölda, hlutafé eða umsvif fyrirtækisins. Þegar um lítil einkahlutafélög eða lítil fyrirtæki er að ræða er það skrifræði og tilkynningarskylda sem frumvarpið gerir ráð fyrir þeim nánast ofviða. Við í 2. minni hluta viðskiptanefndar höfum því valið þann kost að leggja til breytingar á 2. og 8. gr. laganna. Mér finnst það nokkur galli að það sé þá ekki orðað í greinum frumvarpsins sem er þó markmiðið, þ.e. að ná sem jöfnustu kynjahlutfalli í stjórnum félaga og við ráðningu framkvæmdastjóra — orðalagið er „einnig skal gætt að kynjahlutföllum“, mér hefði fundist eðlilegra að orða þetta skýrar.

Þó að ég hafi skrifað á álitið og sé einn af þeim sem mynda 2. minni hluta viðskiptanefndar finnst mér eiginlega farið á ystu brún hvað varðar inngrip í frjálsa félagastarfsemi með því sem hér er verið að leggja til. Ég er ekki viss um að ákvæði sem þessi skili einhverjum árangri sem máli skiptir varðandi það að tryggja jafna stöðu kynjanna. Því miður tel ég að lagaákvæði sem þessi séu fremur til þess fallin að búa til sýndarveruleika heldur en raunveruleika og það er ekki það sem löggjafinn ætlar sér að stefna að með frumvarpi af þessu tagi. Það eru ýmis önnur atriði sem skipta meira máli. Það sem ég hef talið skipta langmestu máli varðandi það að tryggja jafnstöðu karla og kvenna er það að um jafnstöðu sé að ræða hvað varðar launagreiðslur til kynjanna en þar tel ég að pottur sé helst brotinn.

Ég hef ítrekað bent á það, m.a. úr þessum ræðustól, að ég tel að sá hluti borgaranna sem nýtur jafnvel hvað minnst þeirrar jafnstöðu kynjanna sem við viljum stefna að séu konur í láglaunastörfum sem verða fyrir því að iðulega er gengið fram hjá þeim í sambandi við stöðuhækkanir. Þær njóta þess ekki að fá laun umfram taxta sem iðulega er um að ræða varðandi karlkynsstarfsmenn hjá sömu fyrirtækjum. Það er þar sem mér hefur virst skórinn kreppa þó að ástandið hafi tvímælalaust batnað á undanförnum árum. En ég get ekki séð að það að setja upp ákvæði eins og þetta, hvað varðar félagastjórnir og framkvæmdastjóra, muni endilega ná þeim tilgangi sem til er ætlast. Ég tel hins vegar að sú staðreynd að það nýtur almenns velvilja á hinu háa Alþingi að flytja frumvarp af þessu tagi, og það að sú meginhugsun jafnræðis sem þar er kveðið á um sé almennt viðurkennd, sýni að í þeim tilvikum sem hér er um að ræða, í þeim félögum sem um er að ræða, sé ekki lengur um raunverulegt vandamál að ræða. Þetta sýni það að í auknum mæli hafi þróunin verið á þann veg að kynjahlutföllin hafi verið að jafnast og þannig heldur það vonandi áfram. Ég er ekki viss um að það sé endilega verið að ýta undir þá þróun með því að setja þau lagaákvæði inn sem hér ræðir um.

Þar sem ég er einn af þeim sem skrifa undir nefndarálit 2. minni hluta stend ég að sjálfsögðu við það. Ég vænti þess að það lagafrumvarp sem hér liggur fyrir verði samþykkt með þeim breytingum sem 2. minni hluti viðskiptanefndar leggur til.