136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[00:23]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta viðskn. (Birgir Ármannsson) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki alveg hvernig hv. þm. Lúðvík Bergvinsson skilgreinir stór mál og smá mál. Ég hef mínar eigin hugmyndir um það en ég tel að á þessum þingdegi höfum við klárað umræður um ýmis mál og sum af þeim eru bara prýðismál og gott að umræðu um þau er lokið. Önnur mál eru aftur síðri og gallaðri með einhverjum hætti eða hugsanlega ekki eins mikilvæg. Engu að síður hefur okkur miðað talsvert áfram í störfum þingsins þótt umræður hafi vissulega verið vandaðar og málefnalegar.

Þegar hv. þm. Lúðvík Bergvinsson talar um málþóf þá held ég að hann verði að hafa í huga að fyrir ábyggilega tveimur vikum lögðum við sjálfstæðismenn upp með það að það væri ákveðinn fjöldi mála sem væri virkilega brýnn, mál sem hefðu raunverulega þýðingu fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu og ég er sannfærður um að (Forseti hringir.) við hefðum getað lokið þingstörfum fyrir (Forseti hringir.) tíu til tólf dögum ef við hefðum lagt áherslu á þau mál á þeim tímapunkti.