136. löggjafarþing — 132. fundur,  16. apr. 2009.

hlutafélög og einkahlutafélög.

356. mál
[01:01]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ljómandi gott að fá hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hingað upp til að sýna okkur fram á það að hann kunni að telja alveg upp í 500 þær ræður sem hafa verið haldnar um fundarstjórn forseta. Ég spyr: Hversu margar af þeim ræðum hefur hann sjálfur haldið til að koma okkur í skilning um að hann kunni að telja? En það er annað mál.

Ástæðan fyrir því að ákveðinn hringlandi er í ræðum sjálfstæðismanna, eins og hann vill meina, er auðvitað sú að hæstv. forseti er alltaf að skipta um skoðun um það hvað hann ætlar sér með þetta þinghald. Eina stundina á að halda áfram eitthvað fram á nóttina, það liggur ekki fyrir hvaða mál eigi að taka fyrir. Svo er farið fram og til baka í dagskránni, þessu málinu er sleppt og hinu málinu er sleppt. Nú liggur fyrir að við eigum að fara að taka fyrir 13. dagskrármál, um sjúkraskrár. Það er ekki nokkur maður hér í húsi sem hefur vit á þessu máli í alvöru. Finnst forseta það í lagi? Þetta er alveg fáránlegt. Hér er enginn af hálfu ríkisstjórnarflokkanna, enginn flutningsmaður þessa máls, og ég spyr: Finnst forseta það í lagi? Það er ekki nokkurt vit í því hvernig hæstv. forseti heldur á þessu þinghaldi.