136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[12:21]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Það er mjög kærkomið að svara þeim spurningum sem beint hefur verið til mín, bæði spurningunum og kannski líka aðdróttunum af ýmsu tagi sem hafa komið fram í málflutningi þingmanna Sjálfstæðisflokksins það sem af er þessum degi.

Hv. þm. Ásta Möller segir að ég hafi ekki sést mikið í þingsölum að undanförnu. Það má til sanns vegar færa að ég hef ekki fylgst með öllum þeim ræðum sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa flutt hér í þingsal til að reyna að koma í veg fyrir að geirneglt verði inn í landslög og stjórnarskrá ákvæði þess efnis að tryggja eignarhald þjóðarinnar á auðæfum til lands og sjávar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hamast hér dag eftir dag til þess að koma í veg fyrir að slíkt nái fram að ganga.

Hann hefur líka hamast gegn því að sett verði inn í lög okkar og reglur að þjóðin geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um brýn hagsmunamál. Ég hef að sjálfsögðu fylgst með þessu, stundum úr fjarlægð, og furðað mig á þeim málflutningi sem hér hefur verið uppi af hálfu Sjálfstæðisflokksins.

Ég hef hins vegar nýtt tíma minn sem heilbrigðisráðherra í að ræða við heilbrigðisstarfsmenn. Ég hef heimsótt allar helstu heilbrigðisstofnanir landsins, fjölmenna vinnustaði í öllum landshornum, og ég hef átt fundi með heilbrigðisstarfsmönnum, núna síðast í morgun átti ég fund með trúnaðarmönnum BHM, mjög góðan fund, ekki fund sem einkennist af málflutningi Sjálfstæðisflokksins hér í þingsal þar sem ummæli manna eru slitin úr samhengi. Ég verð, hæstv. forseti, að lýsa furðu á þeirri kosningabaráttu sem hér er háð af hálfu Sjálfstæðisflokksins og byggist fyrst og fremst á útúrsnúningum. Þetta er kosningabarátta útúrsnúninganna. Ég mun koma að því hér á eftir hvert hið sanna er varðandi hugmyndir okkar um kjarajöfnun og tilraunir okkar til þess að treysta kjörin hjá þeim sem starfa innan velferðarþjónustunnar en ekki hið gagnstæða eins og sjálfstæðismenn hafa haldið fram að fyrir okkur vaki, þ.e. að rýra þessi kjör, því fer fjarri og ég mun koma að því síðar.

Hv. þingmaður óskaði eftir því að ég upplýsti hvað væri að gerast varðandi sameiningu heilbrigðisstofnana á Vesturlandi, hvort ég hefði horfið frá fyrri ákvörðunum mínum um að af slíkri sameiningu yrði ekki, alla vega ekki í þeim mæli sem áður hafði verið fyrirséð. Ég hef ekki breytt ákvörðunum mínum. Ákvarðanir mínar voru einfaldlega að hlusta á hvað starfsfólk og forsvarsmenn þessara stofnana og sveitarstjórnir í sveitarfélögum sem þær þjóna vildu. Niðurstaðan varð sú að þær óska eftir því að renna saman í eina og Hvammstangi, sem hafði uppi efasemdir um slíkt, og Hólmavík, þar sem einnig voru uppi efasemdir, renna saman í heilbrigðisstofnun Vesturlands.

Fallið hefur verið frá ákvörðun um að sameina Patreksfjörð heilbrigðisstofnun Vestfjarða að ósk heimamanna enda töldu bæði Ísfirðingar og forsvarsmenn heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og heilbrigðisstofnunarinnar á Patreksfirði það óráð að ráðast í þessa sameiningu. Út á þetta hefur starf mitt gengið, þ.e. að hlusta á heimamenn, hlusta á starfsmenn þessara stofnana, hlusta á stjórnendur þessara stofnana og hlusta á sveitarstjórnarfólkið og laga ákvarðanir okkar að þeirra vilja. Í þessum anda erum við að reyna að ná fram markmiðum fjárlaga fyrir þetta ár, sem samþykkt voru hér í lok desember, og kveða á um 6,7 milljarða niðurskurð í heilbrigðiskerfinu frá því sem gert var ráð fyrir í fjárlögum sem kynnt voru hér á Alþingi í októberbyrjun á síðasta ári. Þetta er að takast.

Ég varð þess áskynja strax eftir að ég kom inn í heilbrigðisráðuneytið að menn byggðu þar á mjög ótraustum útreikningum, nánast óskhyggju, varðandi ávinning af sameiningu heilbrigðisstofnana. Þar voru engir traustir útreikningar að baki og þetta hef ég fengið staðfest hjá stjórnendum þessara stofnana. Ég hef hins vegar sagt á yfirreið minni um landið að enda þótt stofnanir tækju þá ákvörðun að ganga ekki inn í sameiningarferlið hvíldi eftir sem áður sú kvöð á þeim að ná hagræðingu og samlegðaráhrifum og að komast inn fyrir níðþröngan ramma fjárlaganna. Það markmið stendur eftir sem áður.

Í rauninni hefur ekki verið horfið frá þeirri meginhugsun að samnýta starfsemi á Landspítalanum annars vegar og hins vegar á svokölluðum Kragasjúkrahúsum, hvort sem er í Keflavík, á Reykjanesi, St. Jósepsspítala eða í Árborg, heilbrigðisstofnuninni á Selfossi. Í öllum tilvikum er unnið að því að vinna að skynsamlegri verkaskiptingu á milli þessara stofnana. Það er núna í ferli en jafnframt hefur verið gripið til ráðstafana sem draga úr tilkostnaði þessara stofnana. Það sem ég hef fengið í hendur bendir til þess að okkur sé að takast þetta ætlunarverk en þá í samráði og samstarfi við starfsfólkið. Þetta er að takast og ég tel að þetta sé eina leiðin til að ná tilætluðum árangri sem heldur, þ.e. að virkja starfsfólkið og virkja nærumhverfið.

Ég ætla að taka dæmi. Ein hugsun sem hafði verið sett fram varðandi niðurskurð var að loka Heilsugæslunni í Grindavík, annaðhvort að fullu eða að hálfu. Þetta var valkostur sem stjórnendur tefldu fram og hlutskipti þeirra er erfitt og ég stilli mér algjörlega upp við hliðina á þeim vegna þess að ég sem handhafi framkvæmdarvalds kappkosta að fylgja eftir lögum, fjárlögum. Stjórnendur eiga þarna erfitt — hlutskipti þeirra er afar erfitt að þessu leyti en spurningin er hins vegar: Á hvaða forsendum er þetta gert? Ég hef reynt að stýra þessu inn í farveg þar sem þetta er gert á forsendum fólksins en ekki byrjað á því að taka tillit til krafna sem koma frá viðskiptalífinu um að fá aðgang að sjúkrahúsi í Reykjanesbæ, svo að dæmi sé tekið, og laga síðan allar kerfisbreytingar að dyntum fjármagnsins og hagsmunaaðila á markaði. Þetta er í grundvallaratriðum munurinn á nálgun okkar og nálgun Sjálfstæðisflokksins sem hefur verið að reyna að opna velferðarkerfið, og sérstaklega heilbrigðiskerfið, fyrir viðskiptahagsmunum. Þetta er munurinn. Þetta er í grundvallaratriðum munurinn á stefnu okkar og þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið.

Hvernig við ætlum að ná þessu fram? Við höfum þegar stigið ýmis skref. Við náðum því t.d. fram að setja reglugerð sem reyndar lyfjafyrirtækin, innflytjendur lyfja, fulltrúar stórfyrirtækjanna í lyfjabransanum, eru að kæra okkur fyrir til Brussel, skjóta málunum til ESA — við náðum því fram að lækka lyfjakostnað um 1.300 millj. kr., 650 millj. kr. með lyfjareglugerð. Hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra hafði sett reglugerð, að vísu með rangri dagsetningu, sem hefði fært kostnaðinn niður um 100 milljónir. Sú reglugerð sem var sett eftir að ég fór í heilbrigðisráðuneytið lækkaði útgjöld ríkisins um 650 millj. kr.

Þetta var ekkert auðvelt mál. Það er ekkert auðvelt mál að stíga það skref að hækka verðlag á lyfjum, en við reyndum að gera það með þeim hætti að þeim yrði hlíft sem síst skyldi ætlað að axla meiri byrðar. Það eru atvinnulausir, það er barnafólkið og það eru þeir sem standa höllum fæti fjárhagslega í samfélaginu. Jafnframt erum við að reyna að færa lyfjanotkunina í þann farveg að ódýrustu lyfin séu notuð, að ódýrasti valkosturinn sé tekinn, að því tilskildu að það skipti sjúklinginn ekki máli. Ef um það er að ræða að fram komi aukaverkanir vegna lyfjatöku er málið sett í farveg sem tryggir að hagsmuna sjúklingsins sé gætt.

Hæstv. forseti. Áður en ég vík nánar að þingmálinu hér — ég held mig við þær spurningar sem settar voru fram — langar mig til að segja örfá orð um hvað átt er við þegar talað er um kjarajöfnun í kerfinu. Ég hef sagt að í þjóðfélaginu almennt hafi kjaragjáin, á milli þeirra sem mest hafa og hinna sem minnst hafa, verið að breikka, sú kjaragjá hefur verið að breikka. Þegar við tölum um kjarajöfnun felst í því hugtaki að þeir sem eru lægstir hækka, þeirra staða batnar. Staða þeirra sem tróna á toppnum, með ofurtekjur upp á margar milljónir á mánuði, ef ekki meira, versnar. Þetta er það sem átt er við með kjarajöfnun. Innan heilbrigðiskerfisins eru annars vegar til verktakar sem taka til sín milljónir á mánuði hverjum og hins vegar almenna launafólkið sem býr við allt önnur kjör og þar horfi ég til alls taxtalaunakerfisins. Það kerfi vil ég varðveita og ég vil koma í veg fyrir að launin þar lækki eða rýrni. Því miður hefur verðbólgan verið að rýra kjörin. Verðbólgan sem Sjálfstæðisflokkurinn skildi eftir sig, upp á 20%, hefur nagað í launakjörin, hún hefur vissulega gert það. Hún er sem betur fer á niðurleið núna og vonandi tekst okkur að koma böndum á hana eins og okkur tókst að gera í byrjun tíunda áratugarins þegar hér hafði geisað óðaverðbólga upp á 20–30%, okkur tókst að koma henni niður í 1–2% og dugði það um nokkurra ára skeið. Í því felst mikil vörn fyrir launafólk.

Kjör fólks ráðast ekki bara af laununum, þau ráðast líka af útgjöldunum og á hvoru tveggja þurfum við að sjálfsögðu að taka. Sjálfstæðisflokkurinn hefur í valdatíð sinni breytt skattumhverfinu hér í grundvallaratriðum. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn kom til valda árið 1991 var tekjuskattur einstaklinga 28% af tekjustofni ríkisins. Hann er 34% núna. Það er ekki bara það að tekjuskattar einstaklinga hafi vaxið sem hlutfall af tekjum ríkisins heldur hefur samsetningunni líka verið breytt vegna þess að hátekjufólkið var allt lagt í bómull, hátekjuþrepin voru afnumin en skattar voru í fyrsta skipti lagðir með ofurþunga á láglaunafólk, á öryrkja, aldraða og þá sem lægstar hafa tekjurnar. Það er þessu sem þarf að breyta og það er m.a. þetta sem við eigum við þegar við erum að tala um kjarajöfnun á Íslandi. Við erum ekki að tala um að lækka laun, við erum ekki undir nokkrum kringumstæðum að tala um að lækka almenna taxtalaunakerfið hjá hinu opinbera. Við viljum standa vörð um það kerfi en þeir sem hafa smurt milljónir þar ofan á þurfa að hugsa sinn gang enda vorkenni ég engum sem býr við ofurkjörin, og þá er ég að tala um fólk sem er með margfaldar tekjur á við það sem gerist í opinbera launakerfinu, ég vorkenni engum sem er í slíkri stöðu að herða tímabundið að sér. Um launakjörin almennt, um taxtalaunakerfið, viljum við að sjálfsögðu standa vörð og það mun ég gera eftir því sem ég mögulega get.

Varðandi það þingmál sem hér um ræðir, svo að ég víki að því og frá þeim spurningum sem að mér var beint, lagði ég áherslu á að þetta mál næði fram að ganga núna. Ég fagna því að það er komið hér í 2. umr. og hillir undir að það hljóti afgreiðslu þrátt fyrir það málþóf sem við höfum orðið vitni að hjá Sjálfstæðisflokknum, vegna þess að um þetta mál er almenn sátt. Ég veit að höfundur frumvarpsins, eða sú sem stýrði þeirri nefnd sem hannaði frumvarpið og situr hér gegnt mér í þingsalnum, hv. þm. Dögg Pálsdóttir, sem vann þar mjög gott starf, kann að hafa sitthvað að athuga við einstaka þætti þess og breytingar sem það hefur tekið. Það á eflaust við um marga sem að þessari lagasmíð standa að þeir gætu hugsað sér eitt eða annað á einhvern annan veg í einhverjum atriðum, en þegar á heildina er litið er þetta þverpólitísk sátt.

Mér fannst skipta miklu máli að málið kæmi fyrir þingið núna og lokaafgreiðslu þingsins með þá breiðu samstöðu að baki. Ég vil þakka öllum þeim sem komu þar að, sérstaklega verkstjóranum okkar hér í þinginu á sviði heilbrigðismála, hv. þm. Þuríði Backman, en einnig öðrum sem starfa í heilbrigðisnefnd eða hafa komið að þessu máli á einn eða annan veg. Þetta er lagagrunnurinn sjálfur, sem við samþykkjum vonandi hér, undir rafræna sjúkraskrá. Síðan er verkið eftir.

Ástæðan fyrir því að mér fannst mikilvægt að fá þetta mál fram núna er að þar eru komnar forsendur til að halda verkinu áfram. Þetta er dýrt og umfangsmikið en væri mjög æskilegt að halda áfram, ekki síst í ljósi þess að þeir sem koma að næstu stigum vinnslunnar eru úr atvinnugeira sem er nánast í rúst, þ.e. tölvugeirinn í þjóðfélaginu. Það væri mjög gott að geta stigið einhver skref og ég hef tekið það upp á vettvangi ríkisstjórnar. En heildarpakkinn er dýr, hann er hálfur annar milljarður kr. að því er ætlað er. En ég er alveg sammála því sem hér hefur verið bent á, að þegar til lengri tíma er litið er þetta til sparnaðar og hagræðingar. Þetta er ekki bara spurning um krónur og peninga, þetta er líka spurning, eins og hv. þm. Þuríður Backman hefur iðulega bent á, um markviss vinnubrögð og öryggi sjúklinga og öryggi heilbrigðiskerfisins, þannig að hvernig sem á málið er litið er þetta til góðs.

Aftur þarna stöndum við frammi fyrir hræðilegri mótsögn og hún er þessi: Það er dýrt að vera fátækur. Ódýrasta fjárfesting í heilbrigðiskerfinu eru forvarnir, er framlag til þeirra þátta sem koma í veg fyrir að við verðum veik, það er skynsamlegasta fjárfestingin í heilbrigðiskerfinu. En staðreyndin er sú að þegar við í raunveruleikanum stöndum frammi fyrir einstaklingi sem er þjáður af sjúkdómi sem er langt kominn viljum við lækna og líkna honum eða lina þjáningar fólks, þannig er það bara í veruleikanum að við verjum þá fjármagninu fremur til slíkra þátta en hins sem svona á kaldhamraðan hátt segir heilabúinu í okkur að skynsamlegra sé að verja fjármununum í. Þannig er þetta. Þetta er ákveðin mótsögn sem í þessu er fólgin en þetta er bara veruleikinn sem við stöndum frammi fyrir.

Ég mun kappkosta, nái þetta lagafrumvarp fram að ganga, sem var borið fram af síðustu ríkisstjórn, sem við höfum stutt — við höfum viljað veg þess sem mestan og fögnum þeirri þverpólitísku samstöðu sem hefur myndast um þetta. Ég vil gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að finna fjármuni á næstu mánuðum, missirum, til þess að halda þessu verki áfram. Ég tel það afar brýnt fyrir heilbrigðiskerfið, fyrir hag sjúklinganna, fyrir hag heilbrigðiskerfisins og heilbrigðisstofnananna, að þetta mál sofni ekki heldur verði þessari vinnu haldið áfram. Ég hef þegar tekið það upp í ríkisstjórn og mun ég ýta á eftir málinu á þeim vettvangi.