136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[12:41]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu hæstv. heilbrigðisráðherra í þessum efnum. Ég vil samt ekki alveg taka undir samlíkingu hæstv. ráðherra um forvarnir og rafræna sjúkraskrá vegna þess að í forvörnum erum við að taka ákveðnar ákvarðanir sem geta til lengri tíma komið sjúklingum eða einstaklingum til góða, en varðandi rafræna sjúkraskrá erum við ekki síður að tala um öryggi sjúklinga. Þá erum við að tala um að bráður vandi geti orðið. Ég mundi frekar setja það í flokk með bráðum vanda en forvörnum að skoða innleiðingu rafrænnar sjúkraskrár. Þarna erum við með tæki í höndunum sem getur, þegar það virkar, komið í veg fyrir að sjúklingur skaðist af vegna ónógra upplýsinga sem liggja annars staðar í kerfinu. Ég tel þetta mál því vera brýnna en hæstv. ráðherra virðist gera, ég vil a.m.k. leiða honum fyrir sjónir að skoða málið frá þessu sjónarhorni.

Ég spurði hæstv. ráðherra í ræðu minni áðan um fæðingar á Suðurnesjum og Suðurlandi og mér þætti vænt um að fá svar við því. Síðan verð ég að segja varðandi orð hæstv. ráðherra um kjarajöfnun — sem ég get í sjálfu sér ekki gert neinar athugasemdir við að skoða kjarajöfnun innan kerfisins, ekki síst innan hins opinbera geri ég ráð fyrir — að horft sé á þá samninga sem gerðir hafa verið milli ríkisins og starfsmanna ríkisins.

Ég verð að segja að ég skildi ekki orð hæstv. menntamálaráðherra þegar hún fortakslaust sagði: að lækka laun og hækka skatta, að einhver fyrirvari væri þar á. Það var ekki neitt verið að tala þar um kjarajöfnun, það var fyrst og fremst verið að tala um að lækka þyrfti laun opinberra starfsmanna.