136. löggjafarþing — 133. fundur,  16. apr. 2009.

sjúkraskrár.

170. mál
[17:46]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef farið yfir í nokkrum ræðum um málið tel ég að 15. gr. sé bara býsna góð grein, hún eigi að standa eins og hún er, upphaflega greinin.

En til að mæta þeim sjónarmiðum sem nefndin hefur greinilega velt fyrir sér og ég út af fyrir sig hef alveg fullan skilning á, þá teldi ég að hægt væri að fella niður 1. mgr. því það er rétt að það er mjög sjaldan að einhver skilji eftir umboð þó það sé ekki útilokað. Ég minni t.d. á lögin um brottnám líffæra. Þar er gert ráð fyrir að einhver hafi fyrir fram hugsun á því að gefa líffæri sín. Þetta er kannski ekki alveg sambærilegt en engu að síður er fullt af forsjálu fólki sem hugsar fram í tímann.

Sú breyting sem ég sé væri sem sagt að fella niður 1. mgr. og halda hinum málsgreinunum inni þannig að við opnum fyrir að tiltölulega auðveldur aðgangur sé að sjúkraskrá látins einstaklings þegar um er að ræða að grunur sé um einhvers konar mistök og ættingjar vilja skoða hvort þeir leiti réttar síns. Það er í höndum landlæknis og ef landlæknir neitar þá er kæruleið til ráðuneytisins. Þetta er því ekkert voðalega flókin leið. Þá erum við búin að dekka sennilega 90% ef ekki 95% af þeim tilvikum sem kalla á aðgang að sjúkraskrám látinna. Og síðan yrði meginreglan fyrir restina af tilvikunum sú að lagaheimild þurfi, sem er stundum til staðar, eða þá dómsúrskurð.

Ég vil benda á og við megum ekki gleyma því að lagaheimild er í lögunum um meðferð persónuupplýsinga, þ.e. í lögum um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Þar eru aðgangsheimildir að sjúkraskrám í þeim tilvikum þegar þannig háttar til.

Ég held hins vegar, virðulegi forseti, — í ljósi þess að ég var að átta mig á þeirri eiginlega hringavitleysu sem breytingin er í nefndarálitinu — að kalla þurfi til baka 5. tölulið breytingartillögunnar svo hann komi ekki til atkvæða núna (Forseti hringir.) í 2. umr. því ég sé ekki hvernig við getum í rauninni fjallað um það miðað við það sem fram hefur komið.