136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

svar við fyrirspurn.

[11:18]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Ég ætlaði ekki beinlínis að bera af mér sakir þó að mér þyki leitt að valda hv. þingmanni vonbrigðum með að svör úr ráðuneytinu séu ekki nægjanlega viðamikil eða með nægjanlega miklum upplýsingum. Ég verð hreinlega að játa það, er ekki best að vera heiðarlegur og segja satt? Ég hef ekki haft aðstöðu til að liggja yfir þessu sjálfur, alveg í einstökum atriðum. Ég hef þó aðeins getað litið yfir þessi svör áður en þau hafa farið frá mér eins og rétt og skylt er, enda ber ég ábyrgð á þeim. Það hefur mætt á ráðuneytinu að reyna að tína þarna saman einhver gögn þannig að ég þekki ekki nákvæmlega hvort það er einfaldlega vegna þess að þau hafi ekki borist, ekki fengist eða hvort ráðuneytinu hefur ekki gefist tími til að afla þeirra sem svarað er nákvæmlega með þessum hætti í því tiltekna tilviki sem hv. þingmaður spyr um.

Það er alveg sjálfsagt mál að halda áfram að aðstoða hv. þm. Mörð Árnason við að grafa í þessi mál. Hann hefur sýnt mikla elju í því að spyrja um þetta með nokkuð nákvæmum og sundurliðuðum fyrirspurnum og ég skal leggja mitt af mörkum til þess eins og ég get að tryggja að hv. þingmaður fái, þótt seint sé í einhverjum tilvikum, þessar upplýsingar. Það má að sjálfsögðu koma þeim til þingmannsins jafnvel þó að þing hafi lokið störfum.