136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:22]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnarskrárn. s. (Lúðvík Bergvinsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Björn Bjarnason hóf ræðu sína á því að vísa í þekkta karaktera úr leikhúsinu og vísaði þar m.a. í Soffíu frænku. Eftir að hafa hlýtt á mál hv. þingmanns verð ég að játa að hann minnir mig pínulítið á Gosa því hv. þingmaður ræddi um óvild í garð sjálfstæðisþingmanna og ræddi um óvild í garð þingsins.

Ég hef setið í stjórnarskrárnefnd frá upphafi og sáttatónninn sem hv. þingmaður telur sig hafa leitt er með þeim eindæmum að ég hef aldrei orðið vitni að slíkri framkomu nokkurs þingmanns hér í nefnd eins og hv. þingmaður sýndi hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur meðan hún leiddi þetta starf. Það hefur aldrei í þessu ferli örlað á sáttatilboði frá hv. þingmanni. (Forseti hringir.) En í lokin langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvernig stóð á því að önnur tillaga var lögð til (Forseti hringir.) sátta í stjórnarskrárnefnd en sú tillaga sem síðan var lögð hér fram á hinu háa Alþingi?