136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:26]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við höfum verið á sama fundinum. Að vísu virðist hv. þingmaður hafa setið marga fundi um þetta mál sem ég sat ekki.

En ég hins vegar segi að fram kom það sjónarmið á þessum nefndarfundi að það mætti gagnálykta á þann hátt frá tillögu okkar, sem við lögðum þar fram, sem við töldum rangt. Við töldum að það væri ekki hægt að gagnálykta á þann veg sem fullyrt var á fundinum og við vildum að sjálfsögðu ekki að það væri snúið út úr þessari tillögu á þann veg að það væri eitthvað óljóst vegna þess að menn færu að gagnálykta á rangan hátt út frá tillögu okkar. Við sáum það að sjálfsögðu í hendi okkar að til þess að koma í veg fyrir það þá væri nauðsynlegt að hafa það orðalag sem við höfum á tillögunni nú til þess að menn fari ekki að álykta á rangan hátt út frá tillögu okkar.

Ég sé ekki að stjórnmálamenn eigi að vera að deila um það að mið sé tekið af umræðum og að lagðar séu fram sem skýrastar tillögur til þess að valda ekki misskilningi. Það er það sem við höfum gert.