136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[13:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að svara öllu sem fram kom í ræðu hv. þingmanns. Ég kem nánar inn á það í ræðu á eftir. En það er eitt atriði sem ég vildi geta vegna þess hve hörðum orðum hún fór um þá tillögu sem við lögðum á borðið varðandi breytingar á stjórnarskrá, þ.e. 2. gr. frumvarpsins, ákvæðið sem gengur út á það hvernig eigi að breyta stjórnarskrá.

Af því að henni fannst fráleitt að þarna væri um sáttarboð að ræða þá vil ég minna á að þessi tillaga, orðrétt, var sameiginleg niðurstaða stjórnarskrárnefndar sem starfaði 2005–2007 og tillagan var m.a. undirrituð af hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, hæstv. ráðherra Steingrími J. Sigfússyni, hæstv. ráðherra Össuri Skarphéðinssyni, hv. þm. Kristrúnu Heimisdóttur, hv. fyrrverandi þingmönnum Jóni Kristjánssyni og Jónínu Bjartmarz úr Framsóknarflokki og svo okkur sjálfstæðismönnum. Hugmyndin á bak við þá tillögu var því málamiðlun milli allra flokka (Forseti hringir.) og okkur þótti ekki fráleitt að það mætti byggja nýja sátt á þeirri sátt (Forseti hringir.) sem náðist fyrir tveimur árum.