136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[14:12]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að koma loks til þessarar umræðu. Þetta er fyrsta ræðan sem hv. þingmaður flytur um þetta mál hér í þingsalnum. Hann hefur gefið miklar yfirlýsingar í fjölmiðlum um efni þessa máls en ekki séð ástæðu til að halda eina einustu ræðu um það þar til nú að hann kýs að ausa úr skálum reiði sinnar yfir sjálfstæðismenn.

Mig langar að spyrja hv. þingmann tveggja spurninga: Telur hv. þingmaður að samþykkt frumvarpsins hefði verið fyrsta skrefið á þeirri leið sem flokkur hans, Samfylkingin, vill fara, þ.e. að taka upp fyrningarleið í sjávarútvegi og innkalla allar veiðiheimildir? Úr því að hv. þingmaður heldur því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé að koma í veg fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið með því að samþykkja ekki frumvarpið (Forseti hringir.) spyr ég: Af hverju í ósköpunum var ekki lögð til breyting á stjórnarskránni (Forseti hringir.) af hálfu hv. þingmanns og flokks hans til þess að tryggja að hægt væri að ganga í Evrópusambandið? Frumvarpið hefur ekkert (Forseti hringir.) með það að gera.