136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[15:40]
Horfa

Kristrún Heimisdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan um nauðsyn þess að virða valdmörk Alþingis, allra hv. þingmanna og hæstv. ráðherra. Ég verð að lýsa mig ósammála hv. þm. Birgi Ármannssyni að þessu leyti til (Gripið fram í: Lögskýringargögn …) vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að hinn frægi vilji löggjafans, sem tíðkast hefur talsvert lengi á Íslandi að byggja á við lögskýringu, hafi verið mjög víkjandi á síðustu árum og að staðan sé miklu nær því sem ég lýsti áðan vegna þess að endurskoðunarvald dómstóla á Íslandi hefur styrkst mjög á sl. 15 árum eða svo, þökk sé aðild okkar að yfirþjóðlegum stofnunum. Vil ég þá láta fylgja með hvatningu mína til sjálfstæðismanna nær og fjær um að taka nú þátt í því með okkur jafnaðarmönnum að opna Ísland og tengja okkur frekar við yfirþjóðlegar stofnanir.

En kjarni málsins er sem sagt þessi: Ég er þeirrar skoðunar og tel að það sé í samræmi við það sem uppi er í lögfræði á Íslandi nútímans (Forseti hringir.) að það sé dómstólanna að túlka (Forseti hringir.) en að vilji löggjafans, hvort sem er framsögumanna, hv. þingmanna eða hæstv. ráðherra ráði ekki öllu um þetta.