136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[16:42]
Horfa

Frsm. meiri hluta iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá meiri hluta iðnaðarnefndar um frumvarp til laga um heimild til samninga um álver í Helguvík. Nefndin hefur fjallað þó nokkuð ítarlega um málið og fengið fjölda aðila á sinn fund, frá verkalýðsfélögum, sveitarstjórnum, náttúruverndarsamtökum og fleirum. Sömuleiðis hafa okkur borist fjölmargar umsagnir sem tíundaðar eru í nefndarálitinu.

Á fund nefndarinnar komu einnig aðilar frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem eru að vinna úttekt á hagrænum áhrifum stóriðjuframkvæmda á íslenskt efnahagslíf sem jafnframt er gerð grein fyrir í nefndarálitinu. Þá var leitað álits umhverfisnefndar Alþingis vegna umhverfisþátta málsins og jafnframt álits efnahags- og skattanefndar Alþingis á þeim þáttum frumvarpsins sem lúta að efnahags- og skattamálum. Báðar þessar nefndir skiluðu meirihluta- og minnihlutaálitum og eru þau öll sem fylgiskjöl í nefndaráliti meiri hluta iðnaðarnefndar. Gerð er grein fyrir þeim.

Í frumvarpinu er iðnaðarráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands heimilað að gera samning við Norðurál Helguvík ehf. og eiganda þess, Century Aluminum Company, um að reisa álver í Helguvík á Reykjanesi.

Gert er ráð fyrir því að almennar reglur um skatta og önnur opinber gjöld gildi um félagið og starfsemina, með tilteknum frávikum sem eru tilgreind tæmandi í frumvarpinu. Eru þau frávik að mestu leyti sambærileg þeim sem kveðið er á um í lögum nr. 62/1997, um heimild til samninga um álbræðslu á Grundartanga, og í lögum nr. 12/2003, um heimild til samninga um álverksmiðju í Reyðarfirði. Frávik samkvæmt frumvarpi þessu eru þó nokkuð færri en í áðurnefndum lögum sökum breyttra skattalaga hér á landi síðan þau lög voru samþykkt.

Nefndin ræddi sérstaklega um ákvæði 4. gr. þar sem sett er fram sú aðalregla að félagið greiði alla almenna skatta og opinber gjöld hér á landi vegna álversins samkvæmt lögum sem gilda á hverjum tíma með þeim sérákvæðum sem eru tilgreind í greininni. Önnur ákvæði greinarinnar eru því tæmandi upptalning frávika frá aðalreglunni. Samkvæmt ákvæðinu er félagið sjálfstæður skattaðili og tryggt er að tekjuskattur félagsins á samningstímanum fari ekki yfir 15%, eins og er nú, og þá gilda sérreglur um stimpilgjöld og fyrningu eigna. Einnig gilda sérreglur um útreikning fasteignaskatts og um byggingarleyfisgjald og skipulagsgjald. Þá eru veittar undanþágur frá iðnaðarmálagjaldi og markaðsgjaldi. Þá eru ýmis öryggisákvæði varðandi upptöku nýrra skatta. Að lokum er gert ráð fyrir undanþágu frá rafmagnsöryggisgjaldi. Í þessari eftirgjöf á sköttum og gjöldum felst ríkisstyrkur sem skylt er að tilkynna til Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA).

Í umræðum um málið komu fram athugasemdir við það að í frumvarpinu kynnu að felast ákvæði sem gengju gegn EES-samningnum og teldust ólögmætur ríkisstyrkur. Af þessu tilefni er rétt að taka fram að skylt er að tilkynna öll áform um ríkisstyrki til ESA. Nefndin hefur fengið upplýsingar um að fjármálaráðuneytið hafi sent tilkynningu um efni frumvarpsins þangað og að hún sé til meðferðar hjá stofnuninni en ekki liggur fyrir hvenær niðurstöðu er að vænta. Því fæst úr því skorið af hálfu stofnunarinnar hvort einhver ákvæði frumvarpsins gangi gegn reglum um ríkisstyrki.

Virðulegi forseti. Sú heimild sem hér er verið að veita í lögum á ekki að hamla eða breyta neinu þar um og mun taka mið af því. Til samanburðar má samt nefna að ef farið væri út í heildarfjárfestingu fyrir fullbúið álver með 360.000 tonna ársframleiðslugetu nemur ívilnunin í þessu tilfelli 0,9% af áætluðum stofnkostnaði. Ívilnun vegna fjárfestingarinnar í Reyðarfirði nam rúmu 1,8% af stofnkostnaði. Ívilnunin til Helguvíkur í þessu tilfelli er töluvert minni og þar af leiðandi ætti að vera góður möguleiki og geri ég ráð fyrir því að ESA eigi eftir að samþykkja þessa ívilnun þar sem hún er talsvert minni og Reyðarál var samþykkt.

Í umfjöllun um frumvarpið hefur komið fram gagnrýni á að félagið Norðurál Helguvík njóti sérkjara varðandi skattgreiðslur sem önnur fyrirtæki í landinu eiga ekki möguleika á að njóta. Í því sambandi er einkum gagnrýnt að tekjuskattshlutfall félagsins verði ekki hærra en 15% á samningstímanum. Í frumvarpinu kemur fram að erfiðleikar við fjármögnun verkefnisins réðu úrslitum um að stjórnvöld tóku þá ákvörðun að leita eftir heimild Alþingis til að ganga til samninga við félagið um sérkjör við skattgreiðslur. Slíkur samningur er talin forsenda þess að fjármögnun verkefnisins takist. Samningurinn hefur í för með sér að auðveldara verður fyrir fyrirtækið og lánardrottna að meta rekstrarhorfur álversins fram í tímann. Samningurinn felur í sér ríkisstyrk en meiri hluti nefndarinnar telur að með tilliti til stærðar verkefnisins og áhrifa þess á atvinnulíf, þar með talið afleiddra starfa og kaupa álversins á vörum og þjónustu, sé þessi styrkur réttlætanlegur og verði ekki byrði á ríkissjóði.

Nefndin fjallaði sérstaklega um 8. tölul. 1. mgr. 4. gr. þar sem kveðið er á um heimildir Reykjanesbæjar og Sveitarfélagsins Garðs til að semja um fyrirkomulag við álagningu fasteignaskatts, þ.m.t. um stofn til álagningar í stað fasteignamats. Um er að ræða frávik frá 2. mgr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga sem kveður á um að stofn til álagningar fasteignaskatts á allar fasteignir skuli vera fasteignamat þeirra. Er þetta frávik sambærilegt þeim sem kveðið er á um í áðurnefndum lögum um álverið á Grundartanga og álverið á Reyðarfirði. Þó er sá munur á að í þeim lögum eru bæði skatthlutfall og skattstofn (viðmiðunarfjárhæð) ákvörðuð og tilgreind. Hvorki í ákvæðinu sjálfu í frumvarpinu né skýringum í greinargerð er að finna nánari afmörkun eða leiðbeiningar um það við hvað skattfjárhæðin geti miðast og heimild til samninga virðist vera án nokkurra takmarkana. Við meðferð málsins hjá nefndinni komu fram ábendingar um að í ákvæðinu væri líklega gengið of langt hvað framsal skattlagningarvalds varðar. Ábendingar komu einnig fram í umsögn meiri hluta efnahags- og skattanefndar um að skoða þyrfti samræmi umræddra samningsheimilda sveitarfélaganna við ákvæði stjórnarskrár. Þá var því einnig hreyft fyrir nefndinni að óbreytt kunni ákvæðið að brjóta í bága við 40. og 77. gr. stjórnarskrár sem báðar kveða á um að skattamálum skuli skipað með lögum. Af þeim dómum sem fjalla um þetta atriði má draga þá ályktun að heimild til framsals skattlagningarvalds verði að vera afmörkuð á þann hátt að stjórnvaldið hafi ekki algerlega frjálst mat um það hvort skattur sé lagður á og hversu hár skatturinn skuli vera. Meiri hlutinn fellst á þessi sjónarmið og leggur þess vegna til eina breytingartillögu við frumvarpið sem er þá á þessari grein þar sem fram kemur bæði skatthlutfall og skattstofn.

Virðulegi forseti. Þá voru einnig gerðar athugasemdir við það að fyrirliggjandi starfsleyfi og umhverfismat félagsins miðist við 250.000 tonna ársframleiðslugetu en samkvæmt frumvarpinu verður heimilt að gera fjárfestingarsamning vegna álvers með 360.000 tonna framleiðslugetu. Meiri hlutinn vill árétta að frumvarpið leggur ekki til nein frávik frá reglum um umhverfismat og starfsleyfi og félagið verður því að afla þeirra samkvæmt almennum heimildum. Í þessu frumvarpi er ekki kveðið á um neitt slíkt eða breytingar á fyrirliggjandi mati á umhverfisáhrifum eða þá fyrirliggjandi starfsleyfi. Heimild til samninga um sérreglur varðandi skatta munu þó alltaf að hámarki miðast við 360.000 tonna framleiðslugetu.

Virðulegi forseti. Að öðru leyti vísa ég í nefndarálitið hvað vinnu nefndarinnar varðar. Ég hef gert grein fyrir því og stiklað á því helsta sem um er fjallað í því áliti og gert grein fyrir breytingartillögum sem við gerum við frumvarpið og finna má í nefndarálitinu.

Virðulegi forseti. Ég vil jafnframt geta þess að ég held að fjárfestingarsamningurinn sem er áformað að gera á grundvelli þessara laga sem þetta frumvarp miðar að fjalli ekki — það er vert að taka það fram — á nokkurn hátt um sjálfa fjármögnun verkefnisins, raforkusölu eða það umhverfismat og starfsleyfi sem fyrir þurfa að liggja. Þetta frumvarp fjallar eingöngu um þann stuðning og það rekstrarumhverfi sem fyrirtækið mun búa við komi það hingað og reisi hér álver.

Mér þykir leitt að sjá að ekki hefur náð inn á dagskrá í lok umræðunnar þingsályktunartillaga sem hv. þm. Björk Guðjónsdóttir lagði fram um að gert verði mat og úttekt á samfélagslegum áhrifum þessara framkvæmda. Við afgreiddum þessi mál samhliða út úr nefndinni vegna þess að við töldum gríðarlega mikilvægt að þetta mat færi fram. Úttekt hefur verið gerð á áhrifum álversframkvæmdanna fyrir austan og hefur gefist mjög vel og skipt gríðarlega miklu máli.

Það er mikilvægt fyrir okkur þegar svona stórframkvæmdir eru á ferðinni að við séum með mat á áhrifum þeirra á samfélagið, og atvinnulífið líka. Því miður hefur ekki náðst inn á dagskrá að afgreiða þetta mál með en ég mæli svo sannarlega með því og mælist til þess og vona að við berum gæfu til þess á næsta þingi eftir kosningar að samþykkja það mál sem hv. þm. Björk Guðjónsdóttir lagði hér fram og ljúka því.