136. löggjafarþing — 134. fundur,  17. apr. 2009.

heimild til samninga um álver í Helguvík.

394. mál
[19:58]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður átaldi hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fyrir að vera ekki hér í salnum þegar hann hélt ræðu sína. Nú er það þannig að fæstir þingmanna Sjálfstæðisflokksins eru hér í salnum undir þessari gagnmerku ræðu hv. þingmanns. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson kom hins vegar hér upp áðan og lýsti skoðun sinni með mjög ítarlegum hætti.

Hins vegar getur hv. þm. Kjartan Ólafsson ekki gert neina sérstaka kröfu, og það er ekkert tilefni til þess, á kollega sinn úr kjördæminu, hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson um að hann lýsi yfir einhverri afstöðu varðandi það hvort orka eigi að koma til Helguvíkurframkvæmdar úr Neðri-Þjórsá. Ég sem iðnaðarráðherra hef bara séð fyrir því, það liggur alveg skýrt fyrir að Neðri-Þjórsá verður ekki virkjuð til þess að finna orku í Helguvík. Ég hef margsinnis sagt það og ekki bara sagt það heldur getur hv. þingmaður lesið það sjálfur út úr þeim samningi sem iðnaðarráðuneytið gerði á sínum tíma. Þetta er í gadda slegið.

Sömuleiðis er það alveg ljóst eins og ég hef sagt í þessari umræðu áður að stjórnvaldið, a.m.k. meðan það er í mínum höndum, mun ekki heimila að menn ráðist með ágengum hætti í nýtingu jarðorkunnar sem er að finna á svæði þeirra tveggja orkufyrirtækja sem koma að þessu máli. Ég hef sagt það algjörlega skýrt að ég hef gefið starfshópi um rammaáætlun skýr fyrirmæli um það að vinna starfsreglur um það með hvaða hætti eigi að nýta jarðorkuna með sjálfbærum hætti. Ég hef sagt það úr þessum stóli að ég hyggst staðfesta þær reglur óbreyttar og þar hafa valist fremstu sérfræðingar þjóðarinnar til þess að vinna. Það liggur sem sagt alveg ljóst fyrir að þó að ég hafi lagt fram þennan samning er hann ekki í sjálfu sér nokkurs konar óútfyllt ávísun um að menn geti aflað orkunnar með hvaða hætti sem er og það er algjörlega klárt og kvitt að í Neðri-Þjórsá verður ekki farið vegna þessara framkvæmda.