137. löggjafarþing — 4. fundur,  20. maí 2009.

samskipti við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn -- Tónlistarhús -- nýtt sjúkrahús.

[13:50]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla að leyfa mér að taka undir með hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Ég held að við þurfum í komandi aðgerðum að hugsa fyrst og fremst um fólk fremur en fasteignir. Sem nefndarmaður í fjárlaganefnd vil ég skoða það með mjög opnum huga að málefni er varða tónlistarhús við höfnina í Reykjavík verði endurskoðuð. Ég held að við þurfum að hafa allt uppi á borðinu í þeim efnum. Ég fagna því sem fram kom hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal að það þurfi að skoða alla þessa hluti með opnum huga. Ég endurtek að við verðum og hljótum að hafa það í forgrunni við komandi fjárlagagerð að fólk verði í fyrirrúmi fremur en fasteignir.