137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Frá því að bankahrunið skók þjóðina fyrir aðeins rúmu hálfu ári síðan hafa miklar breytingar orðið á stöðu íslenskra efnahagsmála. Í stað þenslu og mikils hagvaxtar sem reyndist því miður innstæðulaus hefur tekið við tímabil samdráttar með miklum áhrifum á allt okkar samfélag og efnahagslíf. Endurreisn hagkerfisins mun kosta mikla vinnu og afturhvarf til samhjálpar og samheldni sem einkenndi íslensku þjóðina áður en hún varð um stundarsakir fórnarlamb hugmyndafræði peningaauðgi sem ekki gekk upp.

Hagspár Seðlabankans og fjármálaráðuneytisins gera ráð fyrir rúmlega 10% samdrætti landsframleiðslu í ár og líklega mun efnahagslífið ekki taka að vaxa á nýjan leik fyrr en í lok árs 2010. Gangi þessar spár eftir verður landsframleiðslan á mann árið 2011 álíka mikil og á árunum 2004–2005. Hagkerfið ætti frá þeim tímapunkti að geta vaxið á nýjan leik og gefið viðspyrnu inn í framtíðina en til þess að svo geti orðið verða allir að leggja sitt af mörkum. Tryggja þarf að heimilin og fyrirtækin geti staðið af sér áföllin og varast ber að grípa til vanhugsaðra einfaldra skyndilausna sem eru fjármálakerfi okkar, lífeyrissjóðum eða Íbúðalánasjóði ofviða og gætu leitt til annarrar kollsteypu.

Atvinnuleysið er vafalítið ein versta birtingarmynd niðursveiflu í hagkerfinu. Atvinnuleysið var orðið 9,1% í apríl og hafði þá náð sögulegu hámarki. Það samsvarar því að ríflega 14.800 manns hafa verið á atvinnuleysisskrá að meðaltali í apríl. Hér ber þó að undirstrika að verulega hefur hægt á aukningu atvinnuleysis sl. vikur og atvinnulausir voru í lok apríl færri en í lok mánaðarins á undan. Rétt er líka að undirstrika að tæplega þriðjungur þessa hóps, um 4.700 einstaklingar, njóta nú þegar góðs af stórefldum úrræðum ríkisstjórnarinnar sem ráðist var í til að bregðast við auknu atvinnuleysi. Úrræði ríkisstjórnarinnar skila því árangri og bæta nú stöðu þúsunda einstaklinga sem lent hafa á atvinnuleysisskrá. Enn eru hins vegar um 12 þúsund einstaklingar á atvinnuleysisskrá sem ekki hafa fengið verkefni við hæfi eða fest sér önnur störf. Baráttuna gegn atvinnuleysinu verður því enn að herða eins og boðað er í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Atvinnuleysi fylgir einnig veruleg kaupmáttarrýrnun sem gæti orðið 15–20% á árabilinu frá 2007–2010. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann mun því á nýjan leik verða nærri því sem hann var árið 2004 áður en hann tekur að vaxa á nýjan leik. Flest heimili gætu staðið af sér storminn ef hann færði þau aðeins aftur í tekjum um 4–5 ár. Það er þó ekki raunin því að þungi kreppunnar leggst mjög misþungt á heimili landsins. Við verðum því enn frekar en áður að hjálpa þeim sem eiga á hættu að lenda í erfiðleikum sem þeir ráða ekki við.

Ríkisstjórnin hefur þegar gripið til fjölmargra úrræða sem koma til móts við þá sem lent hafa í greiðsluvanda, t.d. með víðtækum úrræðum lánastofnana, endurgreiðslu séreignarsparnaðar og verulegri aukningu vaxtabóta sem mun skila sér í heimilisbókhaldið nú strax síðsumars. Ég fullvissa landsmenn um það að fylgst verður grannt með því hvaða hópar lenda í erfiðleikum og gripið verður til viðeigandi úrræða til stuðnings eins og kostur er. Við munum t.d. fá frekari greiningu á stöðunni frá Seðlabankanum núna í þessari viku sem ég mun gera Alþingi grein fyrir.

Landsmenn hafa að mörgu leyti brugðist skynsamlega við erfiðri stöðu heimilanna. Þeir hafa dregið mjög úr neyslu, sérstaklega á innfluttum vörum, á sama tíma og áhugi á innlendum vörum og þjónustu hefur vaxið. Þótt allt of mörg heimili eigi í erfiðleikum með að standa í skilum með lán sín tekst þeim það sem betur fer flestum, m.a. vegna víðtækra ráðstafana sem ríkisstjórnin hefur sett fram. Umræðan er stundum eins og meiri hluti heimila sé að drukkna í skuldasúpu og vanskilum við að höfuðstóll skulda hækki. Með þessum orðum vil ég alls ekki gera lítið úr vanda fólks en ég vil að við mætum honum með ábyrgum hætti og horfum á heildarmyndina og skynsamlegar lausnir fyrir samfélagið í heild. Við megum ekki gleyma því hversu samofin staða heimilanna er endurreisn atvinnulífsins. Aðilar vinnumarkaðarins undirbúa nú að ná sáttmála um stöðugleika með aðkomu ríkisstjórnarinnar. Ég fagna því og bind miklar vonir við að okkur takist sameiginlega að ljúka gerð stöðugleikasáttmála. Þau markmið sem ríkisstjórnin hefur sett sér í samstarfsyfirlýsingunni falla vel að markmiðum aðila vinnumarkaðarins, enda á svo að vera. Ég dreg ekki dul á að eitt helsta viðfangsefnið er að ná samkomulagi um hvernig við náum niður halla ríkissjóðs, sem stefnir í 170 milljarða á þessu ári, á sama tíma og við forgangsröðum í þágu þeirra sem verst eru settir. Erfitt verður að ná fram verulegri lækkun stýrivaxta sem er lykilatriði fyrir heimilin og fyrirtækin nema einnig verði á sama tíma gripið til róttækra og sársaukafullra aðgerða í ríkisrekstrinum með niðurskurði útgjalda og skattbreytingum.

170 milljarða kr. halla á rekstri ríkissjóðs verður að eyða fram til ársins 2013. Náist áætlanir okkar um aukinn hagvöxt frá lokum næsta árs mundi sá hagvöxtur skila okkur nærri 70 millj. kr. upp í þann halla. Við þurfum því að ná til halla fram til ársins 2013. Þar stendur valið nánast eingöngu milli margra slæmra kosta og það verður viðfangsefni sem mun taka á hjá öllum og felur án efa í sér erfiðustu ákvarðanir sem ég hef þurft að taka á öllum mínum pólitíska ferli.

En hér er því miður engin undankomuleið. Búið er að koma okkur í þessa skelfilegu stöðu og við viljum bjarga efnahag Íslands og forðast gífurlegar byrðar í framtíðinni á börnin okkar og komandi kynslóðir. Við erum ekki að takast á við halla ríkissjóðs til að þóknast Alþjóðagjaldeyrissjóðnum eða erlendum lánardrottnum. Við þurfum að takast á við hallann til að tryggja almannaþjónustu til framtíðar og til að leggja ekki óbærilegar byrðar á komandi kynslóðir. Þetta er áskorun sem enginn stjórnmálaflokkur getur skorast undan og ég heiti á stjórnarandstöðuna að vinna með okkur til að ná þessum markmiðum.

Virðulegi forseti. Ný peningastefnunefnd hefur stigið jákvæð skref undanfarna mánuði með lækkun vaxta úr 18% í 13%. Vöxtunum hefur verið ætlað að halda í við gengi krónunnar ásamt þeim höftum sem komið var á í lok nóvember og studd voru frekar í mars. Forsendur hraðrar stýrivaxtalækkunar eru einnig að okkur takist að koma í veg fyrir frekari veikingu á gengi krónunnar og nauðsynlegt er í því sambandi að styrkja eftirlit með gjaldeyrishöftum og sjá til þess að þau virki eins og ætlast er til. Mikilvægt er einnig að endurreisn bankakerfisins ljúki sem fyrst. Hún hefur því miður tekið lengri tíma og verið flóknari viðfangs en ráðgert var í fyrstu. Eitt helsta viðfangsefnið fram undan er að ganga frá uppgjörum bankanna, endurfjármagna þá og taka á gjaldeyrisójöfnuðinum. Starfhæft bankakerfi er grundvöllur blómlegs atvinnulífs og hagvaxtar og því verðum við að kappkosta að allar áætlanir standist um að endurfjármögnun bankanna geti hafist í júlímánuði næstkomandi. Að því verðum við að vinna að meiri krafti en nokkru sinni. Bankarnir standa frammi fyrir gríðarlega erfiðu verkefni við fjárhagsleg og stjórnunarlega endurreisn atvinnulífsins til að koma í veg fyrir enn frekari atvinnuleysi. Þetta verkefni er svo ólíkt hefðbundinni bankastarfsemi að það verður að njóta sérstaks stuðnings stjórnvalda sem eigenda bankanna. Það er skoðun allra þeirra sem komið hafa að endurreisn fjármálakerfisins hér á landi og annars staðar. Í ljósi mikilvægis þess verkefnis hefur ríkisstjórnin á ný lagt fram frumvarp um eignaumsýslufélag er styðji við bak bankanna við þessa mikilvægu vinnu. Þessu félagi er ekki stillt upp til höfuðs bönkunum heldur til stuðnings við þá í því mikla erfiða og umfram allt sérhæfða starfi sem fram undan er.

Ríkisstjórnin mun á næstu dögum setja fram stefnu sína sem eigandi bankanna. Það er ekki ætlunin að ráðskast til um daglegan rekstur bankanna heldur aðeins að marka þeim stefnu sem tryggir að bankarnir taki af myndugleik á vandræðum heimila og fyrirtækja en verði þrátt fyrir það reknir með hagnaði. Mikilvægar ákvarðanir um framtíðareignarhald nýju bankanna og mögulegt erlent eignarhald þarf að liggja fyrir sem allra fyrst. Markmiðið hlýtur að vera að ríkið verði ekki lengur með eignarhald á bönkunum en nauðsyn krefur. Við verðum líka að finna lausn vegna þess gjaldeyrisójafnaðar sem bankarnir standa frammi fyrir. Við mótun nýju bankanna sl. haust voru fluttar til þeirra mun meira af eignum en skuldbindingum í erlendri mynt.

Þessi gjaldeyrisskekkja leiðir til tvenns konar vandamála fyrir bankana. Annars vegar eru þeir mjög viðkvæmir fyrir hreyfingum í gengi krónunnar. Styrking krónunnar leiðir til þess að uppgjör þeirra sýna taprekstur. Vextir af lánum í erlendri mynt eru lægri en vextir af innlánum bankanna og því eru greiðslur bankanna til sparifjáreigenda meiri en tekjur þeirra af útlánum. Nauðsynlegt er að skoða vel þá leið að lán bankanna séu færð yfir í íslenskar krónur. Með því að færa lán innlendra aðila í krónum bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum minnkar einnig áhætta lántakenda. Það er ekki síður mikilvægt að heimili og fyrirtæki losni við gengisáhættu en bankarnir.

Aukinn stöðugleiki í gengismálum er önnur grundvallarstoð fyrir endurreisn hagkerfisins og því veldur það vitaskuld vonbrigðum að gengi krónunnar er nú svipað og fyrir hálfu ári síðan. Eitt mikilvægasta viðfangsefni fyrir þjóðina er að tryggja heilbrigt umhverfi fyrir erlendar fjárfestingar hér á landi til að byggja upp ný úrræði og öflugt atvinnulíf. Innganga í Evrópusambandið og væntingar um upptöku evru munu aðstoða okkur við að ná auknum stöðugleika gengisins. Fram að því verðum við þó að skjóta styrkari stoðum undir krónuna og tryggja að óstöðugleiki hennar hindri ekki vöxt hagkerfisins. Við ættum öll að geta sammælst um að betra væri ef gjaldeyrishafta væri ekki þörf í þessum tilgangi. Þau eru hins vegar nauðsynleg á meðan við náum betri stöðugleika í hagkerfinu. Þau gefa Seðlabankanum jafnframt vonandi tækifæri til þess að lækka vexti meira og hraðar en ella og tryggja þannig hagvöxt á nýjan leik. Höftin eru því nauðsynleg við núverandi aðstæður þótt markmiðið sé að sjálfsögðu að lyfta þeim eins fljótt og auðið er.

Þrátt fyrir að víða séu vandamál megum við ekki missa sjónir á því að vonarneista er víða að finna. Alþjóðlegir markaðir hafa tekið við sér undanfarnar vikur þrátt fyrir að óvissan þar sé mikil en skjót endurreisn þeirra ætti að geta flýtt fyrir bata okkar eigin hagkerfis. Nokkur jákvæð merki er einnig að finna í okkar eigin hagkerfi. Verðbólgan hefur t.d. lækkað í 11,9% í apríl og 15,2% í mars. Almennt er búist við að árshraði verðbólgunnar lækki enn frekar næstu mánuði og verði kominn í nærri 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands í ársbyrjun 2010.

Utanríkisverslunin gefur einnig von um bætta stöðu hagkerfisins þegar horft er til framtíðar. Afgangur hefur verið af vöruskiptum frá því í september í fyrra og ætti það að öðru leyti að leiða til styrkingar krónunnar. Það hjálpar líka mikið að gengið erlendis er orðið litlu hærra en hérlendis en það virðist muna um það bil 15% sem er mun minna en áður því að krónan hefur styrkst erlendis.

Skuldir ríkissjóðs hafa hækkað hratt og ljóst er að þær munu nema um 100% af landsframleiðslu áður en árið er liðið og nema ríflega 1.400 milljörðum kr. Það er þó mikilvægt að hafa í huga að á móti þessum skuldum koma eignir sem gefa í mörgum tilfellum tekjur og hægt verður að selja til að grynnka á skuldastöðunni. Einkavæðing bankanna á nýjum forsendum sem tryggja dreifða eignaraðild og ábyrga stjórnun með hag allra hluthafa að leiðarljósi gætu lækkað skuldir ríkissjóðs verulega og fært skuldir hans undir meðaltal aðildarríkja OECD, gangi áætlanir okkar eftir.

Samninganefnd stjórnvalda hefur náð ánægjulegum árangri í viðræðum við önnur Norðurlönd um styrkingu gjaldeyrisforðans og við blasir niðurstaða. Lán Norðurlandanna munu nema um 2,5 milljörðum bandaríkjadala auk þess sem viðræður standa yfir við Pólverja og Rússa um lán. Viðræður við Breta og Hollendinga um lán til greiðslu Icesave-reikninganna munu einnig halda áfram í næstu viku. Ljóst er að þær viðræður eru mun vandasamari en viðræður við nokkur af Norðurlöndunum. Hins vegar er mikilvægt að við stöndum við alþjóðlegar skuldbindingar okkar á sama tíma og við náum ásættanlegri niðurstöðu og kjörum sem ekki verða okkur ofviða.

Hæstv. forseti. Ég hef í skýrslu þessari gert grein fyrir sýn ríkisstjórnarinnar á helstu viðfangsefni okkar á sviði efnahagsmála vegna þeirra miklu þrenginga sem íslenskt samfélag gengur nú í gegnum. Öllum ætti að vera ljóst að vandinn og verkefni fram undan eru gífurleg og öll íslensk heimili munu finna fyrir aðlöguninni sem óumflýjanlegt er. Í þeirri efnahagsáætlun sem ríkisstjórnin vinnur eftir í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og í þeirri framtíðarsýn sem ríkisstjórnarflokkarnir hafa lýst í ítarlegum samstarfssáttmála sínum er að finna skýra leiðsögn um hvernig íslenskt samfélag og efnahagslíf verður byggt upp á ný. Ég vil undirstrika það hér að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn ræður ekki ferðinni. Það eru íslensk stjórnvöld og íslenski seðlabankinn sem ráða för enda þótt unnið sé af fullum heilindum á grundvelli efnahagsstefnu íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Engin stjórnvöld hafa áður tekist á við viðlíka verkefni og við fáumst nú við. Við höfum engin fordæmi og vonandi munum við ekki þurfa að kljást við aðstæður eins og þessar í framtíðinni.

Undanfarna 100 daga hefur okkur miðað vel á þessari mikilvægu vegferð og ég er sannfærð um að næstu 100 dagar munu skila okkur góðum árangri og marka mikilvæg kaflaskil. Ég óska eftir góðu samstarfi við þingheim allan um þessi mikilvægu verkefni.