137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að því verði ekki á móti mælt að forsætisráðherra hafi flutt hér málefnalega og ítarlega og ég vil segja heiðarlega skýrslu þar sem ekkert var dregið undan varðandi þær aðstæður sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir.

Formaður Sjálfstæðisflokksins kallar það gamlar fréttir. Hann kallar vanda Íslendinga gamlar fréttir og finnst lítið til koma að menn ræði það. Þetta er mikill misskilningur hjá formanni Sjálfstæðisflokksins. Þessi vandi er líka nýjar fréttir og verður það næstu missirin. Þessi vandi okkar Íslendinga verður ekkert hrópaður niður, hann er til staðar. Það að ræða hér um hann málefnalega og heiðarlega, eins og forsætisráðherra gerði, er nákvæmlega það sem við eigum að gera og þurfum að gera. Það verður því miður þannig að það verður viðfangsefni okkar, eða ætti að vera viðfangsefni okkar sameiginlega, að ræða hlutlægt og málefnalega um þetta, m.a. til þess að þjóðin öll geti verið með í því að takast á við þetta út frá raunverulegum forsendum þess sem við stöndum frammi fyrir.

Það er að mínu mati eitt brýnasta verkefnið í allri þjóðfélagsumræðu og allri umfjöllun fjölmiðla og öllum okkar málflutningi að við leggjum hlutina skýrt og málefnalega fyrir, að menn greini vandann, verði eftir atvikum sammála um hver hann er og hversu mikill hann er og hvað þurfi að takast á við. Að öðru leyti ætla ég ekki að fara mikið í ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins. Þar kom a.m.k. fátt nýtt fram að mínu mati, þar má kannski nota orðið gamlar fréttir.

Vandi íslensks þjóðarbús og samfélags er mikill. Ef við skoðum stærðargráðu þess sem gerst hefur á Íslandi síðasta hálfa árið á það sér fáar hliðstæður í vestrænum þróuðum ríkjum. Þessi vandi er miklum mun meiri en bankakreppan á Norðurlöndunum um 1990. Þetta er meira áfall en Suður-Kórea varð fyrir á sínum tíma. Þetta er stærra áfall en varð í Taílandi. Þetta er meira að segja talsvert stærra áfall en frændur okkar og vinir Færeyingar urðu fyrir og var það þó ekkert smáræði sem þar gekk á. Þetta áfall á sér fáar ef nokkrar hliðstæður í sögu þróaðra hagkerfa á seinni áratugum.

Þær ákvarðanir og aðgerðir ýmsar sem menn ákváðu í haust og settu þessi mál að meira eða minna leyti í farveg — og það er hollt fyrir vini okkar í Sjálfstæðisflokknum að hugleiða það — eru sannarlega umdeilanlegar. Ég verð að viðurkenna að ég hef æ oftar velt því fyrir mér hvort menn hafi að hluta til lent með málin í farveg, t.d. með því sem ákveðið var í neyðarlögunum, sem kann að reynast mjög torsóttur og grýttur og erfitt að komast upp úr. En ég vil líka segja sanngirninnar vegna að mönnum var mikill vandi á höndum. Það varð hér gríðarlegt áfall og menn urðu að taka ákvarðanir og einhverja stefnu varð að taka eins og oft er við slíkar aðstæður, og það er því í sjálfu sér ódýrt að gagnrýna það eftir á. Ég held að það gagnist okkur best að horfast í augu við þá stöðu sem við erum í og vinna samkvæmt því því að leiðin til baka, þegar menn eru vonandi komnir vel yfir miðja ána, er ekki endilega gæfuleg. Er ekki skárra að reyna að klóra sig upp á bakkann hinum megin?

Endurreisn bankakerfisins hefur reynst miklum mun flóknara og tafsamara verkefni en menn ætluðu. Það er veruleiki, það er staðreynd og ekkert er dregið undan í þeim efnum. Það skiptir ekki öllu máli hvort menn vitna þar í sænskan sérfræðing eða hvort það er einfaldlega sá veruleiki sem við okkur blasir og allir geta sótt sér upplýsingar um með því að ræða við þá sem á vettvangi eru. Varðandi ríkisfjármálin og þá glímu vil ég segja, og þar er ég sammála formanni Sjálfstæðisflokksins, við verðum að hefjast handa strax. Það alversta sem við gætum gert væri að geyma það, væri að fresta því að takast á við vandann. Það er líka siðferðilega og pólitískt óverjandi að gera það vegna þess að afleiðingar þessa yrðu einvörðungu að vandinn yrði enn meiri og erfiðari úrlausnar síðar, og þá værum við vissulega að senda reikninginn á komandi kynslóðir.

Ef við sem héldum veisluna, ef við sem klúðruðum, ætlum að koma okkur undan því að taka byrðarnar á herðar okkar þá er nú ekki hátt risið á því verð ég að segja. Aðlögunarverkefnið í ríkisfjármálunum liggur nokkurn veginn fyrir. Það er að verða staðreynd að það stefnir í a.m.k. 20 milljarða viðbótarhalla á ríkissjóði að óbreyttu á þessu ári. Með öðrum orðum: Ef við ætlum að ná aftur landi nálægt því sem lagt var upp með um áramótin þurfum við aðgerðir í formi tekjuöflunar og sparnaðar á þessu ári og það sem eftir lifir þess af stærðargráðunni 20 milljarðar kr.

Það er líka ljóst að ef við ætlum að ná þessum halla niður í 0 og eiga afgang á fjórum næstu árum þar á eftir verður að stíga mjög stórt skref á næsta ári. Segjum að stærðargráða þess séu 45–55 milljarðar kr. og árin þar á eftir kannski 10–20 milljarðar í viðbót. Glöggir reikningsmenn sjá að þetta eru ekki 170 milljarðar, það er rétt. Þar kemur það okkur vonandi til að með bata á nýjan leik í hagkerfinu og einhverjum hagvexti á síðari hluta tímans þá brúast bilið eins og forsætisráðherra kom inn á áðan.

En hugleiðum aðeins hver staðan verður í lok þessa tímabils ef við gerum ekkert. Og þó við tökum bara 150 milljarða halla á ríkissjóði og segjum: Já, við bara rekum hann þannig næstu fjögur ár. Hvað þýðir það? Það þýðir að uppsafnaður viðbótarhalli, miðað við þá áætlun sem núna liggur fyrir, yrði hátt í 400 milljarðar kr., yrði næstum tekjur ríkissjóðs á heilu ári og vaxtakostnaðurinn uppsafnaður á tímanum í nágrenni við 30 milljarða. Er það ásættanlegt? Getur það gengið? Svarið er nei. Þá væri komin upp í lok þessa tímabils staða sem eiginlega engin leið væri að sjá til lands með. Það er þannig. Það er því úrslitaslagur sem við stöndum frammi fyrir núna og á næsta ári að ná þessu niður þannig að vaxtakostnaðurinn og uppsafnaður halli hlaðist ekki upp.

Það verður erfitt og það er allt í lagi að segja það, hv. þm. Bjarni Benediktsson. Það er bara best að horfast í augu við það að svoleiðis er það. En munurinn er sá að ef við tökumst á við þetta núna og ef þetta ár og það næsta verða okkur drjúg í því að ná til lands í þessum efnum þá fer strax að horfa skár á árunum þar á eftir. En prófi menn að framreikna næstu 10–25 ár ef við gerum ekkert næstu fjögur árin og sjái útkomuna á því, hún er ekki féleg. Valið stendur um það að takast á við þetta núna og skapa betri skilyrði innan fárra ára til að tryggja á nýjan leik sæmileg lífskjör eða að sætta íslenska þjóð við verulega verri skilyrði til langs tíma. (Gripið fram í.) Þannig er það. Já. Það stendur til að gera það, hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson. Þá mun reyna á Sjálfstæðisflokkinn. Þolir Sjálfstæðisflokkurinn skattahækkanir eða er það bannorð áfram? Ætlar hann að ná þessu öllu saman með einum blóðugum niðurskurðinum? Það mun reyna á það innan skamms, hv. þingmaður, og ég mun hlusta grannt og fylgjast með töflunum þegar Sjálfstæðisflokkurinn greiðir atkvæði.

Mikilvægustu verkefnin núna, og þar hef ég númer eitt það sem formaður Sjálfstæðisflokksins nefndi ekki, eru samkomulag og samstaða í samfélaginu um þær aðgerðir á sviði kjaramála, á sviði fjármála ríkis og sveitarfélaga og í sambandi við rekstur velferðarþjónustunnar sem verður að skapa því að öðruvísi munum við ekki komast í gegnum þetta. Ríki og sveitarfélög, aðilar vinnumarkaðarins, heildarsamtök og fleiri aðilar, verða að ná höndum saman um þessa hluti. Þar geta menn ekki gert sér vonir um einhverja stöðugleikasátt og verið stikkfrí. Það getur enginn skorast undan því að leggja sitt af mörkum í þeim efnum, ekkert svið samfélagsins, engin starfsstétt.

Í öðru lagi eru ráðstafanirnar í ríkisfjármálum brýnar, aðkallandi, og þar verður að hefjast handa strax á þessu vori og það verður gert og þá reynir á, bæði samstöðuna hér innan þings og úti í þjóðfélaginu. Næst sú samstaða og sú stemmning og sá kjarkur sem til þarf? Eða næst hún ekki?

Í þriðja lagi endurreisn fjármálakerfisins. Ekki bara þess verkefnis vegna heldur vegna þess að bankanna og fjármálastofnana bíður síðan gríðarlega afdrifarík glíma við úrlausn skuldavanda fyrirtækja og heimila. Þeir verða að vera í stakk búnir til þess að ráðast í það verkefni. Að sjálfsögðu þarf síðan að ná þeim samningum sem hér hafa verið nefndir um gjaldeyrislán, um lyktir Icesave-deilunnar og endurskoðun samstarfsins við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Allt þetta þarf að vinnast samsíðis og er ærinn handleggur hvert og eitt fyrir sig þó að það kæmi ekki allt saman á einum tímapunkti eins og er veruleikinn. (Forseti hringir.) Menn mega auðvitað skammast hér alveg eins og þeir vilja yfir því að þetta hafi gengið seint og því miður er það þannig að sumt af því hefur gert það og það eru vonbrigði. (Forseti hringir.) En menn skulu þá hugsa við hvers konar aðstæður menn hafa glímt hér í okkar fáliðaða stjórnkerfi, reynslulausir með öllu að takast á við hamfarir af því (Forseti hringir.) tagi sem yfir okkur hafa gengið. (Gripið fram í.)