137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[16:18]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég hélt að við værum hér saman komin til þess að fá nýjar upplýsingar um stöðu efnahagsmála en ég held að við hefðum allt eins getað verið heima á netinu og flett upp á heimasíðu Seðlabankans undir liðnum „gamlar fréttir“ eins og að hlusta á það sem hæstv. forsætisráðherra hafði fram að færa. Hér kemur ekkert nýtt fram um stöðuna, ekki nokkur skapaður hlutur. Þetta er allt búið að birtast í fjölmiðlum og vera í umræðu vikum og mánuðum saman þannig að maður veltir því fyrir sér við þessar aðstæður sem stjórnin viðurkennir þó að séu alveg gríðarlega alvarlegar: Hvers vegna eru ekki fyrir hendi nánari upplýsingar um stöðuna og hvers vegna hefur stjórnin enga lausn á vandanum? Það tengist því kannski að upplýsingarnar vantar. Það er enn þá sama umræðan. Það er umræðan um að ástandið sé svo erfitt og að hitt og þetta hafi reyndar tekið lengri tíma en ráð var fyrir gert en það hafi jú komið á daginn að staðan hafi verið miklu flóknari en menn gerðu sér grein fyrir í upphafi.

Það voru allir búnir að gera sér grein fyrir því fyrir löngu síðan hversu alvarleg staðan væri og hversu flókið og erfitt væri við þetta allt saman að eiga. Að koma hér enn og aftur og segja að staðan hafi verið svo erfið að þetta muni taka einhvern tíma til viðbótar hefur afskaplega lítið upp á sig, ég tala nú ekki um þegar vantar algjörlega allar lausnir. Enn og aftur birtist það sérkennilega hugarfar ríkisstjórnarinnar að hún virðist raunverulega telja að hún sé búin að leggja til lausnir sem dugi.

Er ríkisstjórnin búin að kynna hagsmunasamtökum eða heimilunum þessa niðurstöðu, búin að útskýra fyrir þeim að þetta sé líklega allt saman misskilningur hjá þeim að staða heimilanna sé slík að þær lausnir sem ríkisstjórnin hefur boðið upp á nægi ekki? Hefur henni kannski ekki tekist nógu vel að ná til fjölmiðla, eins og hér var til umræðu, til að útskýra að ríkisstjórnin hafi í raun brugðist við ástandinu? Eða getur verið að ríkisstjórnin geri sér ekki grein fyrir því sem nánast allir aðrir í samfélaginu eru búnir að gera sér grein fyrir? Það eru engar lausnir, það er ekki búið að bjóða upp á neinar lausnir sem geta tekið á þeim vanda sem ríkisstjórnin viðurkennir þó annað veifið að sé til staðar.

Hversu mikill er þessi vandi? Í fyrstu skýrslu Olivers Wymans frá því í janúar — sú skýrsla hefur reyndar ekki verið birt enn þá og hvað þá uppfærða útgáfan — segir að núverandi staða Íslands í efnahagsmálum sé alvarlegri en nokkur krísa sem þjóð hefur staðið frammi fyrir frá því í kreppunni miklu — nokkur þjóð nokkurn tíma. Það þarf því ekki fleiri ræður frá ríkisstjórninni um að staðan sé alvarleg, það gera sér allir grein fyrir því. Við erum að bíða eftir upplýsingum um hvaða lausnir þessi ríkisstjórn hefur upp á að bjóða og þær birtast ekki.

Jú, menn finna upp ýmsa skemmtilega auglýsingafrasa eins og „velferðarbrú“. Svo kynnir maður sér hvað þessi velferðarbrú er, allt saman frestunaraðgerðir, aðgerðir til að fresta vandanum þangað til að eftir nokkur ár þegar ástandið verður orðið svo miklu betra er hægt að borga upp öll vandræðin. Raunar talar forsætisráðherra nú í samræmi við þessa stefnu þegar hún segir að gert sé ráð fyrir því að eftir nokkur ár verði hagvöxtur svo og svo mikill. Ekki er útskýrt hvers vegna það gerist, hvers vegna hagvöxtur verður miklu meiri eftir ár en núna. Það eru engar líkur til þess að nokkur hagvöxtur verði ef ekki er gripið inn í vegna þess að hér er farin af stað keðjuverkun sem leiðir til enn aukins atvinnuleysis. Og aukið atvinnuleysi dregur áfram úr neyslu í samfélaginu, fleiri fyrirtæki fara í þrot, skatttekjur minnka og enn fleiri verða atvinnulausir. Hvernig á þetta á endanum að leiða til aukins hagvaxtar?

Verði ekki gripið inn í með róttækum aðgerðum sem snúa þessari þróun við, koma efnahagslífinu í gang, verður ekki aukinn hagvöxtur hér eftir eitt ár eða tvö ár eða þrjú ár. Þá höldum við bara áfram á þessari leið og veruleg hætta er á því að stór hluti þjóðarinnar sjái ekki annan kost en að flytja úr landi. Við höfum reyndar nefnt að atvinnuleysi hefði aðeins dregist saman í maí, hins vegar hefur það ekki dregist saman nærri því jafnhratt og það gerir yfirleitt á þessum árstíma og hvergi nærri nóg til þess að mæta þeim mikla fjölda fólks sem kemur út á atvinnumarkaðinn þegar skólunum lýkur.

Hvað með verðbólguna? Jú, ríkisstjórnin nefnir að verðbólgan sé að minnka og af hverju er það? Það er hætt að blæða vegna þess að blóðið er allt búið. Það er allt að þorna upp í hagkerfi Íslands þannig að það á enginn peninga lengur til þess að halda uppi nokkurri verðbólgu. Það sem þó hefur verið að þróast í rétta átt gerir það vegna þess að það getur ekki orðið verra.

Hér hefur mikið verið fjallað um mikilvægi þess að endurreisa fjármálakerfið. Það hefur þessi ríkisstjórn talað um frá upphafi. Hæstv. forsætisráðherra ræddi það í viðtali við Morgunblaðið 18. apríl, minnir mig, og sagði þá að nú sæi fyrir endann á endurreisn fjármálakerfisins, þeirri vinnu væri að ljúka og að búið að fá til þess ágæta menn eins og títtnefndan Mats Josefsson. Hefur eitthvað gerst í þeim efnum, er staðan eitthvað önnur núna? Nú er talað um júlí. Ætli það verði ekki þannig í júlí að okkur verði kynnt sú niðurstaða að þetta hafi reynst ívið flóknara en menn höfðu gert sér grein fyrir og muni taka aðeins lengri tíma?

Er ekki vandinn bara sá að ríkisstjórnin þorir ekki að taka af skarið varðandi nokkurn skapaðan hlut, þorir ekki í þær róttæku aðgerðir sem þarf að fara í? Enda er rétt að hafa í huga hvers vegna Mats Josefsson sá ekki lengur ástæðu til þess að vinna með þessari ríkisstjórn og vildi helst komast heim til sín? Ástæðan var sú að hann taldi vanta áætlanir um það hvernig taka ætti á vandanum. Látum vera með aðgerðirnar sjálfar en Mats Josefsson benti á að þessi ríkisstjórn hefði ekki komið áætlanirnar sem þyrfti. Ríkisstjórnin sem telur sig sérhæfa sig í áætlanagerð var ekki einu sinni komin með áætlanir um hvernig endurreisa ætti bankakerfið, hvað þá að farin væri af stað nauðsynleg vinna við að framkvæma það. Mats Josefsson var því nánast búinn að hrökklast úr landi þegar tókst að halda í hann og eins gott því að ef þessi maður, sem er norrænn maður, sænskur meira að segja, hefur ekki skilning á þessari norrænu velferðarpælingu eða norrænni samræðustjórnmálataktík ríkisstjórnarinnar, hver ætti þá að hafa það? Við skulum vona að ríkisstjórninni takist að halda í Mats og að hann geti aðstoðað hana því að ekki veitir af.

Endurreisn fjármálakerfisins miðar mjög lítið áfram en þó er rétt að taka fram að eitt af því sem forsætisráðherra sagði um þessa mikilvægu endurreisn fjármálakerfisins, sem við getum öll verið sammála um að sé nauðsynleg til þess að hér fái þrifist atvinnulíf, er alveg hárrétt: Við þurfum að vinna af meiri krafti en nokkru sinni að endurreisn fjármálakerfisins, það get ég tekið undir. Ég held að þessi ríkisstjórn þurfi að vinna af meiri krafti en nokkru sinni að öllum þeim málum sem henni hafa verið falin því að við getum ekki haldið áfram á þessari braut, haldið hér fleiri fundi og heyrt sama upplesturinn enn eina ferðina um hvað ástandið sé nú erfitt og að vinnan hafi tekið ívið lengri tíma en gert var ráð fyrir á síðasta fundi. Nú þurfum við að fá að heyra lausnirnar.