137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

efnahagshorfur, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[17:15]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Við þurfum að hefjast handa strax, sagði hæstv. fjármálaráðherra í umræðunni áðan, og það mætti ætla að þar hefði talað ráðherra sem nýlega væri sestur í ríkisstjórn. Staðreyndin er þó sú að ríkisstjórn sem hér situr er orðin 100 daga og það er ákall frá almenningi í landinu að við sjáum róttækar aðgerðir í efnahagsmálum. Að öllu óbreyttu stefnir í að 28.500 heimili verði komin í greiðsluþrot undir árslok. Ef við tökum mið af vísitölufjölskyldunni mun það snerta rúmlega 100.000 Íslendinga. Það þarf að grípa til aðgerða. Við framsóknarmenn sáum það í febrúarmánuði að til slíkra aðgerða þurfti að grípa og lögðum fram tillögu til þingsályktunar í 18 liðum þar sem við báðum ríkisstjórnina að koma í lið með okkur til að koma til móts við skuldug heimili og fyrirtæki í landinu því að ef það yrði ekki gert yrði staðan mögulega svo slæm að við gætum ekki stöðvað mjög skelfilega þróun hér á landi.

Við hljótum að líta til þess, frú forseti, hvað gerðist m.a. hjá frændum okkar Færeyingum í upphafi 10. áratugarins þegar hátt í þriðji hver einstaklingur á aldrinum 25–45 ára fór úr landi. Á Íslandi eru 90.000 einstaklingar á þessu árabili og eiga 90.000 afkomendur. Þetta er sá fjöldi fólks sem mun fyrst setja niður í ferðatöskurnar og leita sér að nýjum atvinnutækifærum verði þau ekki til staðar hér á landi.

Sá sem hér stendur er hluti af skuldugustu kynslóð Íslandssögunnar og okkur á vettvangi Alþingis ber skylda til þess að skapa væntingar hjá þessari kynslóð því að það er jú hún sem mun fyrst og síðast koma að því að greiða þennan stærsta víxil alls lýðveldistímans sem blasir við okkur. Hvað þurfum við að gera til að snúa úr vörn í sókn? Við þurfum að skapa trúverðugleika. Við þurfum að vera með trúverðugleika í ríkisfjármálum og ég spyr hæstv. forsætisráðherra hvort það standi virkilega ekki til hjá þessari ríkisstjórn að leggja fram fjáraukalagafrumvarp á sumarþinginu í ljósi þess að það blasir við okkur öllum að forsendur fjárlaga standast ekki.

Til að mynda var gert ráð fyrir því að innflutningur á bílum drægist saman um 15% vegna fjárlaga ársins 2009. Hver er staðreyndin? Innflutningur á bílum hefur dregist saman um 90% á þessu ári. Það eru 40% tollar á innflutningi á bílum fyrir utan það að 24,5% virðisaukaskattur leggst á við hverja sölu. Það er alveg ljóst að tekjuhlið fjárlaga er gjörsamlega brostin. Við þurfum líka að spyrja okkur hvernig standi á því að stýrivextir sem þessi ríkisstjórn boðaði að yrðu 2–3% við árslok skuli núna, þegar við erum komin fram á mitt ár, vera 13%. Hvaða atvinnulíf og hvaða heimili stendur til lengdar undir því að greiða þessa himinháu vexti? Kannski aðallega sú kynslóð sem er á aldrinum 25–45 ára.

Til hvers er ætlast af okkur núna á sumarþingi? Á laugardaginn komu saman á Austurvelli 800 manns og þar ákölluðu raddir fólksins þessa ríkisstjórn um að hún réðist í einhverjar raunverulegar aðgerðir til að koma í veg fyrir að alvarlegt kerfishrun blasi við okkur öllum.

Okkur til upprifjunar, höfum við ekki upplifað það að raddir fólksins hafi áður komið saman á Austurvelli og beðið um aðgerðir? Jú. Ég segi hér að ætli ríkisstjórnin að fljóta sofandi að feigðarósi með algjöru aðgerðaleysi vegna skuldugustu kynslóðar Íslandssögunnar, sem er unga fólkið í dag, og algjöru aðgerðaleysi gagnvart íslensku atvinnulífi er því miður ekki von á góðu í samfélaginu.

Ríkisstjórnin hefur rétt út hönd, beðið okkur í stjórnarandstöðunni að fara með í þessa vegferð og spurt hvað við getum gert til að breyta þeirri stöðu sem blasir við. Ég vil þá byrja á því að biðja hæstv. ríkisstjórn að horfa til þess sem aðrir en menn úr þeirra eigin flokkum leggja til því að við þurfum að standa saman. Því miður er þó fátt sem þessi ríkisstjórn hefur sýnt á fyrstu dögum þessa þings um að hún ætli að iðka einhver samræðustjórnmál á vettvangi Alþingis.