137. löggjafarþing — 5. fundur,  25. maí 2009.

hlutafélög með gegnsætt eignarhald og bann við lánveitingum og krosseignarhaldi.

5. mál
[18:25]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að það er nýtt landslag í þinginu og vaxandi vilji til þess að styrkja þingið gagnvart framkvæmdarvaldinu. Eins og ég nefndi eru dæmi um það frá þinginu frá því í febrúar og fram á vor þar sem það tókst ágætlega að nefndirnar tækju mál, ynnu það sjálfar og legðu inn í þingið þar sem þau voru afgreidd og samþykkt.

Vegna orða minna áðan um boðvaldið vil ég nefna að ég þekki engin dæmi þess að starfsmenn ráðuneyta hafi neitað þingmönnum um upplýsingar um störf sín eða reynslu. Það er allt annað að vinna með þingnefndum að samningu frumvarpa en þess eru líka dæmi frá því í vetur, frumvarpið um greiðsluaðlögun fasteignaveðlána var samið að tilhlutan hv. allsherjarnefndar og að mestu unnið á vegum réttarfarsnefndar og ráðuneytisins.

Sú þingsályktunartillaga sem hér um ræðir er tvíþætt í raun. Annars vegar er fjallað um nauðsyn þess að eignarhald í félögum af þessu tagi sé gegnsætt og hins vegar er talað um bann við lánveitingum og krosseignarhaldi. Hvort tveggja er í mínum huga mjög mikilvægt og spurningin er hvort þetta eigi með réttu heima í sérstöku nýju félagsformi eða hvort affarasælla væri að styrkja ákvæði um sama efni í gildandi lögum. Ég held að við þyrftum að feta okkur rólega inn á braut bandarísku leiðarinnar, að þingnefndir taki sig til og semji lagafrumvörp.