137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:29]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Einar K. Guðfinnsson þekkir manna best hefur gengið á ýmsu við úthlutun á byggðakvótanum og síður en svo að honum hafi verið úthlutað fyrir fram. Eftir því sem ég veit best var einungis búið að úthluta rúmlega helmingnum af byggðakvótanum núna á miðjum vetri.

Engu að síður er gert ráð fyrir því að miðað við fyrri yfirlýsingar eða fyrri ákvörðun sjávarútvegsráðherra, um að taka allan byggðakvótann í þessa opnunaraðgerð, verði einungis tekinn rúmlega helmingurinn og honum verði þá skipt með líkum hætti og á grundvelli svipaðra reglna og áður hefur verið gert.

Ég vil minna á að til viðbótar þeim hluta byggðakvótans sem núna er tekinn í þessar tilraunaveiðar eða þetta tilraunaverkefni eru einnig tekin til viðbótar 2.500 tonn sem er þá bætt í og tekið af sérstakri heimild ráðherra í þeim efnum þannig að þarna er verið að auka í þann fisk sem má veiða á þessum svæðum. Ég tel að sú tilraun sem þarna hefur verið lagt af stað með sé mjög mikilvæg, hún er viss opnun á þessu kerfi, og í ljósi þess hvernig til tekst verður framhaldið metið á næsta fiskveiðiári.