137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[15:33]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég bið hv. þingmann að sýna þessu máli biðlund og fagna því reyndar að það skuli vera komið með opnun af þessum toga í kerfinu.

Ég vil minna á að á síðastliðnu fiskveiðiári var hv. þingmaður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og að ég best veit var heildarbyggðakvótinn þá skertur um 500 tonn, á þeim forsendum einmitt að draga ætti úr vægi byggðakvótans í þessu skyni. Það er ekki verið að gera hér.

Hér eru tekin 2.500 tonn sem eru þá lögð áfram inn til veiða á þessu ári. Það er alveg rétt. Þau skiptast á þessi svæði eins og ég greindi frá en engu að síður er það þó viðbót. Það að verið sé að svipta þessi byggðarlög byggðakvótanum með þessum hætti þá er líka verið að opna möguleika á að aðrir geti veitt þann fisk sem syndir meðfram ströndinni og berist þá inn til vinnslu í þessum byggðarlögum.

Ég hvet hv. þingmann til þess að horfa á hinar góðu og jákvæðu hliðar sem eru tvímælalaust á þessu máli, verið er að opna gluggann til fiskveiða með þeim hætti sem hér er lagt til.