137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[16:42]
Horfa

Róbert Marshall (Sf):

Frú forseti. Ég lýsi yfir sérstakri ánægju minni með það frumvarp sem hæstv. sjávarútvegsráðherra leggur fram í dag og með vinnu ráðuneytisins sem hefur verið snöfurmannleg og hröð. Ljóst er að nú eru aðrir tímar uppi í sjávarútvegsráðuneytinu en voru þegar það var í vörslu Sjálfstæðisflokksins í tíð þarsíðustu ríkisstjórnar. Nú er kominn vilji til þess innan ríkisstjórnar Íslands að gera breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og þetta er fyrsti vísirinn að þeim breytingum.

Veigamestu breytingarnar í þessu lagafrumvarpi lúta að skipan frístundaveiða sem er vaxandi atvinnugrein á Íslandi, og því ber að fagna, og skipan frjálsra handfæraveiða á tímabilinu 1. júní til 31. ágúst 2009. Þetta er gert í tilraunaskyni til eins árs. Á grunni þeirrar reynslu og lærdóms sem draga má af þessum fyrirhuguðu strandveiðum verður reynslan metin og þessu ber að fagna. Það er reyndar sannfæring þess sem hér stendur að framtíð íslensks sjávarútvegs muni að mestu leyti byggjast á dagsgömlum fiski. Ég er sannfærður um að útgerðarmaðurinn og fisksalinn sem talaði á undan mér, hv. þm. Ásbjörn Óttarsson, er sammála mér í þeim efnum. Ég vísa t.d. til fyrirtækis á borð við Frostfisk í Þorlákshöfn sem einbeitir sér sérstaklega að verkun og sölu á dagsgömlum eða eins og hálfs dags gömlum fiski og kemur honum í verslanir til Bretlands á mjög skömmum tíma og býður þar upp á úrvalsvöru fyrir hátt verð þannig að hér er stigið skref sem ber að fagna.

Ég geri líka athugasemdir við málflutning þeirra sem hafa komið upp í ræðustól og vikið sérstaklega að hinni svokölluðu fyrningarleið í sjávarútvegi og farið mikinn um þá óvissu sem sú leið muni hafa í för með sér og þau óþægindi sem henni fylgja fyrir útgerðarmenn og byggðirnar í landinu. Í núverandi lögum um stjórn fiskveiða hefur verið innbyggð gífurleg óvissa fyrir allt fólk sem býr hringinn í kringum landið í byggðum sem byggja allt sitt á sjávarútvegi. Það er ekki hægt að afgreiða hugmyndir um breytingar með þeim hætti að þeim fylgi svo mikil óvissa að best sé að gera ekki neitt. Slík íhaldssemi á þessum tímum kemur ekki til greina og slík íhaldssemi í ljósi stöðu íslensks fjármálakerfis og þess veruleika sem við blasir eftir veturinn hefur leitt í ljós að hún á ekki við. Hún er beinlínis varasöm.

Í opinberu umræðunni ber mikið á hræðsluáróðri sem ættaður er af skrifstofum Landssambands íslenskra útvegsmanna og fer Morgunblaðið mikinn í umfjöllun sinni. Ég verð að segja fyrir mitt leyti sem fyrrverandi blaðamaður að ég hef áhyggjur af framgöngu Morgunblaðsins í þessu máli. Þrátt fyrir að ég hafi fagnað því sérstaklega að útgefandi blaðsins lýsti því yfir á dögunum að hann hefði síðasta orðið um efni blaðsins færir slík yfirlýsing ábyrgð yfir á herðar útgefandanum vilji hann selja það öllum landsmönnum og öllum þeim sem aðhyllast skoðanir, vinstri jafnt sem hægri, breytingar eða ekki breytingar, að hann hafi í gildi hefðir vestrænnar blaðamennsku um sanngirni og hlutleysi í fréttaumfjöllun. Hann getur einkum beint áhrifum sínum á leiðarasíðum blaðsins sem eru sérstaklega helgaðar skoðunum. Bréf og yfirlýsingar frá útgefendum eru mjög algengar. Útgefandi Washington Post hafði ávallt síðasta orðið um umfjöllun blaðsins í Watergate-hneykslinu svokallaða. Ef Morgunblaðið ætlar að haga sér í fréttaflutningi sínum eins og það gerði um helgina og heldur áfram að gera í dag fer að verða umhugsunarefni fyrir þá sem aðhyllast breytingar í þessu kerfi hvort nokkur ástæða sé til að kaupa blaðið. Það er einfaldlega svoleiðis.

Í Morgunblaðinu í dag er grein eftir fyrrverandi alþingismann Kristin H. Gunnarsson þar sem hann telur upp nokkur dæmi þar sem veiðiheimildir í einstökum byggðarlögum voru einmitt fyrndar burt að fullu í einu vetfangi. Í grein Kristins segir, með leyfi forseta:

„Á eftir kvótanum fóru störfin. Og á eftir störfunum fór fólkið. Þetta gerir það að verkum að enginn friður verður um óbreytta löggjöf um framsalið. Það er nóg komið af því að fyrna sjávarplássin hvert af öðru. Meðan fiskimiðin eru á sínum stað er áfram þörf fyrir nálæg sjávarpláss.“

Ég tek líka undir þau orð sem birtust í leiðara Fréttablaðsins í gær undir yfirskriftinni „Harmar hlutinn sinn“, með leyfi forseta. Þar segir:

„Mikill jarmur er nú í útgerðarmönnum um land allt og eru fylgispakar sveitarstjórnir á útgerðarstöðum kallaðar til í kórinn. Tilefnið er fyrirhugaðar breytingar á lögum um kvóta og svokölluð fyrningarleið. Hafa útgerðarmenn samræmt nafngift sína um fyrningarleið sem þeir kalla „galna“ en ríflegur þingmeirihluti á löggjafarþinginu var kosinn í lýðræðislegum kosningum meðal annars út á fyrirheit um að taka til endurskoðunar lög um fiskveiðistjórn. Sú stefna hefur lengi verið undirliggjandi í stjórnmálaumræðu hér á landi og er studd meirihlutaskoðun í viðamiklum skoðanakönnunum mörg undangengin ár, ekki einni heldur mörgum. Hefur ekkert mál á síðari hluta lýðveldistímans verið svo umdeilt og lengi lengi hafa stuðningsmenn kvótakerfisins verið í litlum minni hluta í fullum stuðningi við það. Stjórnmálamenn hafa fátt lagt til málanna um lausn á þessu ágreiningsefni. Þar til nú.

Vitaskuld eru allir þeir sem njóta kvóta nú andsnúnir öllum breytingum á kerfinu. Og innan Landssamtaka útgerðarmanna virðast allir barnir til skilyrðislausrar hlýðni við einn málstað í þessu máli þótt útgerðin sé í miklum vanda, ekki bara vegna verðs á kvóta til leigu og kaups, heldur líka vegna fjárfestinga í óskyldum greinum. Raunar ætti útgerðin að fagna endurskoðun á kerfinu, ekki bara þeir sem eru á hvínandi kúpunni, heldur líka hinir sem standa vel að vígi vegna skynsemi í rekstri sínum undanfarin ár. Meiri hluti þingsins hefur enda marglýst samráðsvilja sínum í þessu viðkvæma deilumáli, því lítill má við margnum: meiri hluti þjóðarinnar vill breytingar á kerfinu, vill að fiskur í sjó sé þjóðareign, en ekki bókfærð eign til allrar framtíðar í höndum örfárra einstaklinga.

Útgerðarmenn verða því að skipta um kúrs: hætta þvaðri sínu um 101-liðið og kaffidrykkju þess, hætta málþófi sem byggist á hálfsannleika og hefja merki sitt með málefnalegri og sanngjarnri umræðu í stað þess að skaka gunnfánum, láta af því að LÍÚga að gjaldþrota bú sé þjóðnýting, smátt fyrningarhlutfall á kvóta sé eignaupptaka; annað eins hefur útgerð búið við í óstöðugum afla milli ára, úreldingu og afskrift tækja, verðsveiflum og óstýrilátu gengi. Að ekki sé talað um aflabrest og aflatjón. Fyrningarleið er þó fyrirséð og hlutur kann að rata aftur til fyrirtækja sem eru vel rekin.

Í hundrað ár hefur íslenskt samfélag verið í greipum útgerðarinnar: launafólki voru skömmtuð kjör eftir því hvernig bækur þeirra stóðu. Bankar risu og hnigu eftir gengi útgerðarinnar, þorp og bæir áttu sitt undir kenjum karla á skrifstofum. Margt á útgerðin inni hjá þjóðinni eftir látlausan stuðning frá upphafi mótoraldarinnar, rétt eins og þjóðin á allt sitt undir sjósókn. Það er því mikils um vert að allir komi saman að hreinskiptinni umræðu um það þjóðþrifamál að endurskipuleggja íslenskan sjávarútveg.“

Það er full ástæða til að taka undir þessi vel skrifuðu orð leiðarahöfundar Fréttablaðsins sem lýtur ritstjórn fyrrverandi formanns Sjálfstæðisflokksins. Það er virkilegur vilji innan stjórnarmeirihlutans til að vinna þetta mál í sátt við stjórnarandstöðu og Landssamband íslenskra útvegsmanna. Sérstaklega hefur verið óskað eftir hugmyndum þeirra um það hvernig vinda megi ofan af þessu kerfi sem svo mikil ósátt ríkir um og hefur ríkt um í svo langan tíma. Engar hugmyndir hafa komið fram. Jú, menn féllust á að skipa nefnd til að skoða áhrif kvótakerfisins á byggðir landsins. Hugsanlega var fallist á að það yrði gert á einhverjum tilteknum tíma og það kann vel að vera að fallast megi á þau rök hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar að ekki hafi unnist tími til að gera það. Kannski væri málið statt á öðrum stað en það er statt núna í hinni opinberu umræðu ef hv. þm. Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hefði borið gæfu til þess að fara fyrr í skoðun á kerfinu og breytingar á því en raun bar vitni. En staðan er einfaldlega sú að við kerfið eins og það er nú verður ekki unað. Því verður að breyta. Það mun aldrei skapast sátt um það eins og það er núna. Fyrningarleiðin er þó fyrirséð leið sem menn geta brugðist við og lagað sig að. En frumvarpinu sem hér er lagt fram í dag, og ég hrósa sérstaklega sjávarútvegsráðherra fyrir snöfurmannleg vinnubrögð í því, fagna ég og styð heils hugar.