137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

stjórn fiskveiða.

34. mál
[17:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hefur dálítið verið talað í þessari umræðu eins og þetta sé í fyrsta skipti sem gerð hefur verið tilraun til þess að ná þeim markmiðum annars vegar að reyna að styrkja byggðirnar með því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við og hins vegar að reyna að auka nýliðun.

Ég fullyrði það og tala þar af mikilli reynslu að flestallar atrennur sem við höfum gert að breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu hafa einmitt haft það markmiði. Til dæmis höfðu allar þær miklu breytingar sem við gerðum í kringum smábátakerfið á sínum tíma í áranna rás þann yfirlýsta tilgang að reyna að styrkja veikustu byggðirnar.

Það var auðvitað mjög umdeild aðgerð á sínum tíma þegar ákveðið var að færa til með pólitísku handafli fiskveiðirétt frá stærri skipum til hinna minni. En það var hins vegar gert að yfirlögðu ráði vegna þess að menn trúðu því að það gæti verið liður í því að efla hinar minni og veikari sjávarbyggðir.

Sama var að segja um nýliðunina. Með þeim aðgerðum var líka verið að reyna að auka nýliðunina í sjávarútveginum. Og þegar við skoðum þetta t.d. yfir undanfarin tíu ár er enginn vafi á því að orðið hefur talsverð nýliðun í íslenskum sjávarútvegi. Það eru mjög margir nýir aðilar sem komið hafa inn í þessa grein. Það er þó alveg rétt sem sagt er núna að með því að fiskveiðirétturinn hefur hækkað í verði er það erfiðara. En engu að síður er það algjörlega óumdeilt að heilmikil nýliðun varð í sjávarútveginum.

Það sem ég óttast í þessum hugmyndum sem verið er að kasta fram, því að þetta eru eiginlega frekar hugmyndir en nokkuð annað, er að nýliðunin gæti orðið einhver vegna þess að menn sjá sér þarna leik á borði að komast með tiltölulega ódýrum hætti til þess að veiða allt að þrjá mánuði á ári. En síðan mun það verða til þess, alveg eins og við sjáum þegar vísbendingar um, að fiskveiðirétturinn færist til bátsins í stað þess að vera kvóti eða dagurinn eins og var hér áður fyrr. Þess vegna mun það hafa þær afleiðingar þegar til lengri tíma er litið að verð á bátum verður hærra og aðgangurinn inn í auðlindina verður þar af leiðandi dýrari. Það er held ég algjörlega óumdeilt.

Ég sagði hér í fyrri ræðu minni: Þetta er hlutur sem við skulum alveg skoða. Það held ég að hafi verið rauði þráðurinn í því sem hefur komið fram frá okkur sem höfum verið að gagnrýna þetta frumvarp. Við höfum sagt: Við skulum skoða þetta mál. En er ekki skynsamlegra að gera það þannig að menn setjist niður og skoði það áður en gera ekki eins og hér er bókstaflega verið að leggja til, að renna blint í sjóinn? Það sem komið hefur fram hjá öllum þeim sem talað hafa fyrir þessu frumvarpi er að menn hafa sagt: Það er auðvitað ýmislegt sem betur mætti fara og þetta þarf að skoða en við skulum meta reynsluna eftir árið.

Er nú ekki viturlegra að eyða óvissunni sem verið hefur í kringum þennan byggðakvóta, úthluta honum, gefa sér síðan tíma til þess að fara ofan í málin? Reyna að átta sig á því hvort hægt er að koma einhvers konar strandveiðifyrirkomulagi á, nýta árið í það og hafa þá raunverulega fullbúið frumvarp í staðinn fyrir að vera með einhverjar veiðar í tilraunaglasi eins og hér er í rauninni verið að leggja til.

Ég vil líka í þessu sambandi vekja athygli á einum þætti: Hver er eftirlitsþátturinn? Ég nefndi áðan að með frumvarpinu væri verið að auka flækjustigið í sjávarútveginum. Mér sýnist af þessu að verið sé að ganga út frá því sem enginn veit í raun og veru að það verði 300 bátar sem muni nota sér þetta kerfi. Það hefur enginn nokkra einustu hugmynd um það. Það er bara svona einhver ágiskun út í loftið. Og eftirlitið við hvern bát eru 17.500 kr. sem segir að verið er að tala um að eftirlitskostnaðurinn geti verið 5–6 millj. kr. sem eru tvö ársverk hjá Fiskistofu.

Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig atvinnustefna en menn verða líka að átta sig á því að við erum að búa til kerfi sem kostar eftirlit og eftir því sem það verður viðurhlutameira gerir frumvarpið ráð fyrir að eftirlitið verði meira og dýrara.

Þetta eru efnisleg atriði sem við eigum auðvitað að hlusta á og skoða og þess vegna er ekki verið að bregða fæti fyrir neina hugmynd. Það er bara verið að segja: Við skulum vinna þetta með öðrum hætti.

Ég ætla bara að taka eitt dæmi í lokin af því ég hef nú mjög stuttan tíma sem segir kannski hvað eru margir fletir á þessu. Hér hafa margir sagt: Það er ósanngjarnt að vera bara með tólf tíma regluna vegna þess að hún mismunar sjávarplássunum. Þeir sem liggja næst miðunum hafa þá forskot. Þeir sem eru fjær miðunum hafa ekki þetta forskot.

En er það ekki það sem menn hafa verið að gagnrýna kvótakerfið fyrir? Það er að þetta forskot, að menn njóti staðarkosta sinna, hafi verið tekið burtu með kvótakerfinu. Og væri það ekki þar með afturhvarf að hafa tólf tíma mörk til þess að gefa fólki í litlu byggðunum tækifæri til að njóta staðarkosta sinna? En það hefur líka þau áhrif, sem bent hefur verið á, að þær byggðir sem ekki liggja jafn vel við miðunum hafa þar með ekki jafngóða möguleika.

Ég vek athygli á þessu hér til að undirstrika það og gera mönnum ljóst að það munu koma upp ýmis flækjustig sem þeir sjá kannski ekki fyrir. Þess vegna tel ég að það væri skynsamlegri nálgun af hæstv. ráðherra að fresta nú þessu frumvarpi og gefa út byggðakvótann. Ég spyr líka í lokin: Hvenær hyggst hæstv. sjávarútvegsráðherra (Forseti hringir.) gefa út þann byggðakvóta, þau 2.000 tonn, sem (Forseti hringir.) hann gerir ráð fyrir að gefa út á þessu fiskveiðiári?