137. löggjafarþing — 6. fundur,  26. maí 2009.

eiturefni og hættuleg efni.

3. mál
[17:56]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um eiturefni og hættuleg efni, nr. 52/1998, en frumvarpið tengist aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og er áður lagt fram en náði ekki fram að ganga á síðasta þingi.

Evrópusambandið samþykkti í maí 2006 reglugerð (EB), nr. 842/2006, um tilteknar flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir. Markmið reglugerðarinnar er að minnka losun flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda sem Kyoto-bókunin við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar nær yfir og vernda þannig umhverfið. Flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir hafa háan hlýnunarstuðul og hafa margföld áhrif á umhverfið til upphitunar lofthjúpsins miðað við koltvísýring (CO2). Frumvarp það sem ég mæli fyrir hér er til innleiðingar á þessari reglugerð EB.

Er með frumvarpinu og reglugerðum sem tengjast áðurnefndri reglugerð leitast við að takmarka leka þessara gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið. Mikilvægt er að innleiða gerðina sem fyrst þar sem hún varðar m.a. starfsréttindi þeirra sem nú starfa við kælitækni og möguleika atvinnugreinarinnar á að fá verkefni sem tengjast kælimiðlum á EES-svæðinu.

Með frumvarpinu eru skilgreindar ýmsar kröfur varðandi meðhöndlun flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda. Hér má nefna að gerðar eru miklar kröfur til þess hvernig staðið er að geymslu slíkra efna sem og til lekaleitar. Verða kröfur til alls verklags við að draga úr losun þessara lofttegunda út í andrúmsloftið hertar.

Með frumvarpinu eru einnig gerðar kröfur um hvernig staðið skuli að endurnýtingu flúoreraðra gróðurhúsalofttegunda. Skulu starfsmenn sem endurnýta efni af föstum búnaði hafa til þess réttindi og vera vottaðir af faggiltri skoðunarstofu.

Eitt af helstu nýmælum frumvarpsins er að skilgreind er lágmarksþekking þeirra sem vinna með flúoreraðar gróðurhúsalofttegundar. Með þessu verður því lögfest skylda til starfsmenntunar fyrir þá sem vinna með þessar lofttegundir. Verður hið nýja nám annars vegar hluti af núverandi vélstjórnarnámi en einnig mun nýtt löggilt nám í kælivélavirkjun hefjast í framhaldsskólum haustið 2009 sem mun taka mið af þessum nýju námskröfum.

Annað nýmæli er að gerð er krafa um vottun fyrir starfsmenn og þá rekstrar- og þjónustuaðila sem mega meðhöndla þessar lofttegundir. Er hér um að ræða skyldu starfsmanna sem vinna með flúoreraðar gróðurhúsalofttegundir til að sækja um vottun hjá faggiltri skoðunarstofu að loknu námi. Rekstraraðilar eða þjónustuaðilar fá hins vegar vottun ef þeir uppfylla tiltekin skilyrði reglugerða, t.d. um að hafa ákveðinn búnað til endurheimtar gróðurhúsalofttegunda. Vottun sem þessi mun verða framkvæmd af faggiltum skoðunarstofum.

Virðulegur forseti. Ég hef hér rakið meginefni frumvarpsins. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfisnefndar.