137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Atvinnuleysistryggingasjóður.

27. mál
[13:59]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. fyrirspyrjandi segir að atvinnuleysi er mikið böl og mjög brýnt að snúa sem fyrst við því ástandi sem við búum við á vinnumarkaðnum.

Á vegum Vinnumálastofnunar og annarra aðila í stjórnkerfinu eru alls kyns verkefni í gangi. Það má nefna nýsköpunarverkefni sem heyra undir iðnaðarráðuneytið. Það eru alls kyns verkefni í gangi sem í allt hafa skapað um 600 störf. Það eru fjölmargar aðgerðir í gangi að öðru leyti og af þeim 16.700 sem nú eru á atvinnuleysisskrá eru um 4.700 á hlutabótum eða eru að sinna verkefnum með öðrum hætti. Það má því segja að 4.700 af 16.700 séu virkir á vinnumarkaði með einum eða öðrum hætti. Það er mjög mikilvægt. En þá tölu þarf auðvitað að hækka og það hratt.

Að því er varðar stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs sérstaklega þá áætlar ráðuneytið að eigið fé sjóðsins hafi í árslok 2008 verið 15,6 milljarðar. Fjárlög þessa árs gera ráð fyrir að tekjur Atvinnuleysistryggingasjóðs af atvinnuleysistryggingagjaldi verði 5,1 milljarður. Því er áætlað að eigið fé Atvinnuleysistryggingasjóðs og markaðar tekjur þessa árs verði tæpur 21 milljarður kr.

Þegar tekið er mið af greiðslu bóta það sem af er þessu ári og spám um það sem fram undan er gerir ráðuneytið ráð fyrir því að þetta fé verði uppurið um mánaðamótin október/nóvember nk. og síðustu tvo mánuði ársins komi til greiðslna úr ríkissjóði til að standa skil á atvinnuleysisbótum. Það er hins vegar mjög mikilvægt að undirstrika að ríkissjóður ber fulla ábyrgð á því að atvinnuleysisbætur séu greiddar í landinu. Þó svo að það fé sem til þess er markað með þessum hætti verði uppurið mun ríkissjóður að sjálfsögðu standa undir því að greiða atvinnuleysisbætur.

Við þær aðstæður sem við búum við skiptir öllu máli að telja kjark í fyrirtæki til þess að ráða fólk. Okkur hættir til þess að mála myndina of dökkum litum eins og staðan er núna. Við lækkandi vaxtastig, þegar vaxtalækkunarferli er að hefjast, er eðlilegt að fyrirtæki horfi til þess hvort mögulegt sé að auka við sig í umsvifum og sérstaklega ef þau sjá fram á að geta selt afurðir eða þjónustu.

Það er mjög mikilvægt að við höldum þeim skilaboðum skýrt fram að fyrirtækin horfi til allra þátta núna, búi sig undir að bæta við sig fólki sem fyrst þannig að ekki komi til þess að of margir verði atvinnulausir of lengi. Það er auðvitað hættulegast ef langtímaatvinnuleysi verður landlægt. Við vitum af reynslu Finna og Færeyinga að þá gerist annað tveggja að við búum við langvarandi atvinnuleysi, þ.e. við getum misst heila kynslóð út af vinnumarkaðnum sem kannski kemur aldrei aftur inn á vinnumarkaðinn, eða missum þessa kynslóð varanlega úr landi. Hvorugt er góður kostur.

Við verðum að beita öllu afli okkar og virkum vinnumarkaðsaðgerðum, koma fólkinu hratt aftur á vinnumarkaðinn og sérstaklega þeim sem lengst hafa verið atvinnulausir á hverjum tíma. Við verðum að tala kjark í fyrirtækin og undirstrika mikilvægi þess að þau nýti allt það afl sem þau hafa, nýti þau tækifæri sem þau mögulega hafa á þessum tímum til þess að horfa fram á við og leggja grunn að nýrri sókn, nýrri verðmætasköpun og ráða til sín fólk.

Margháttuð úrræði eru í boði. Margháttuð aðstoð er í boði af hálfu Vinnumálastofnunar sem á að greiða fyrir þessu. Það er mikilvægt að fyrirtækin stígi fyrsta skrefið. Við munum gera allt sem mögulegt er til að greiða fyrir því að þau geti ráðið til sín fólk og lagt grunninn að nýrri sókn.