137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

Atvinnuleysistryggingasjóður.

27. mál
[14:03]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. 2. þm. Norðaust., Birkir Jón Jónsson, er spurull maður í dag og er það vel. Margs þarf að spyrja á þessum tímum. Ég tek undir að það er ekki of sterkt til orða tekið að segja hvílík vá það er að búa við svo hátt atvinnuleysisstig sem Íslendingar búa við nú um stundir, það er ekki hægt að fara með nein ýkjuorð í þeim efnum. Þetta er einfaldlega áfall sem samfélagið hefur orðið fyrir og við þurfum að bregðast við því með öllu mögulegu móti.

Ég vil í því efni spyrja hvort gerð hafi verið úttekt á því hvort Atvinnuleysistryggingasjóður sé í einhverjum mæli og ég tala nú ekki um í miklum mæli misnotaður af fólki, jafnt útlendingum sem Íslendingum. Ég hef talað við fjölda verktaka á síðustu dögum og vikum sem segja að það sé nánast sérstök listgrein á Íslandi að misnota sjóðinn, að þiggja af honum fé og vinna jafnframt úti á akrinum. Ef svo er er það mjög slæmt.