137. löggjafarþing — 7. fundur,  27. maí 2009.

séreignarlífeyrissparnaður.

28. mál
[14:14]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Birkir Jón Jónsson) (F):

Frú forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. fjármálaráðherra. Á síðasta þingi breyttum við á Alþingi lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda þar sem við heimiluðum almenningi í landinu, þ.e. þeim sem hafa verið að leggja fyrir í viðbótarlífeyri, að taka út sérstakan lífeyrissparnað. Var gert ráð fyrir að það yrði um 1 milljón á 12 mánaða tímabili. Fyrirspurn mín er einfaldlega þessi: Hversu margir hafa nýtt sér útgreiðslu á séreignarlífeyrissparnaði sínum samkvæmt sérstakri heimild frá því fyrr á árinu? Hvað má áætla að tekjur ríkissjóðs aukist með hliðsjón af því?

Í efnahags- og skattanefnd var á sínum tíma rætt um að þessir fjármunir ættu að fara til húsnæðiseigenda í landinu í formi aukinna vaxtabóta. Ég velti því fyrir mér hvort það standist, þ.e. það sem ríkið er að fá út úr þessu, í ljósi þess að fólk þarf að greiða tekjuskatt af þessari útgreiðslu, hvort þær greiðslur sem til viðbótar eiga að koma skuldugum heimilum í formi greiðslu vaxtabóta standist.

Ég vonast til þess að þeir fjármunir sem fólk hefur getað náð í, í formi þessa séreignarlífeyrissparnaðar, hafi verið til góðs og hjálpað mörgum heimilum. Það var tilgangurinn með þeirri lagabreytingu sem við settum fram að hjálpa skuldugum heimilum. En eins og ég segi enn og aftur er það fyrir forvitnissakir sem ég spyr hæstv. ráðherra að því hver reyndin hefur verið af þessari löggjöf sem við settum fyrir einungis örfáum mánuðum.