137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[10:01]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Þetta er sögulegur dagur að ýmsu leyti, sögulegur vegna þess að hér er verið að mæla fyrir tillögu til þingsályktunar þar sem þess er farið á leit að Alþingi samþykki að ríkisstjórnin gangi til samninga um aðild Íslands að Evrópusambandinu og leggi síðan niðurstöðuna í formi aðildarsamnings í dóm þjóðarinnar.

Þessi dagur er líka sögulegur að öðru leyti. Hér hefur í upphafi þessa þingfundar verið lögð fram tillaga undir forustu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, tillaga sem lögð er fram af Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki þar sem í reynd er verið að leggja til að sama leið sé farin. Þar er einungis verið að leggja til að málaumbúnaðurinn verði svolítið öðruvísi og það verði gert síðar á þessu sumri. Ég fagna þessu vegna þess að þetta sýnir mér að það er hægt á þessu þingi að ná samstöðu í gegnum samráð um mjög mikilvæg mál. Þetta skiptir máli. Allir flokkar ættu þess vegna að fagna því, frú forseti, að í greinargerð með þeirri tillögu sem ég er að mæla fyrir kemur einnig fram að ríkisstjórnin hyggist leggja fram frumvarp um framkvæmd þeirra mála sem eru þess eðlis að þeim ber að ráða til lykta með þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hygg að með framlagningu þeirrar tillögu sem ríkisstjórnin stendur fyrir og tillögu þeirra tveggja flokka sem hafa lagt fram aðra tillögu á þessum morgni liggi það alveg ljóst fyrir á hinu háa Alþingi að umsókn um aðild að Evrópusambandinu er svo stórt mál og varðar stefnu Íslands um svo langa framtíð að þjóðin verður sjálf beint og milliliðalaust að taka sína afstöðu. Það er lýðræðislegasta aðferðin og það getur þjóðin ekki gert nema allt sé uppi á borðinu og við fáum ekki allt upp á borðið nema gengið sé til samninga og niðurstaða fáist í þeim hagsmunamálum sem mestu varðar. Það má því segja að með þessari tillögu sé þingið að búa málið í hendur þjóðarinnar.

Í greinargerðinni sem fylgir þessari tillögu eru raktir þeir grundvallarhagsmunir sem Íslendingar þurfa að sækja og verja og þeir verða grunnur þeirra markmiða sem verða sameiginlega mótuð áður en Íslendingar ganga til samninga. Ég hygg að það hafi komið fram hjá öllum að þar skiptir langmestu varðstaða og forræði yfir auðlindum til lands og sjávar. Í greinargerðinni er þetta rakið. Þar er sagt skýrum orðum að tryggja verði forræði þjóðarinnar yfir fiskveiðiauðlindinni, yfir auðlindum í vatni og orku og sömuleiðis er lögð skýr áhersla á að það þurfi að tryggja íslenskan landbúnað á grundvelli fæðu- og matvælaöryggis. Því er slegið föstu af hálfu ríkisstjórnarinnar að unnið verði að því að skapa íslenskum fyrirtækjum og atvinnulífi vaxtarhvetjandi og sem jákvæðast umhverfi. En það er sömuleiðis sagt afdráttarlaust að það verði að standa vörð um réttindi launafólks, um vinnurétt og tryggja lýðræðislegan rétt til að stýra almannaþjónustu á félagslegum forsendum.

Ég vek líka eftirtekt hv. þingmanna á því að þar er tekið fram að samhliða viðræðum um hugsanlega aðild eigi að kanna hvort unnt sé að ná fram samstarfi í gjaldmiðilsmálum til að styðja við gengi krónunnar. Þetta, frú forseti, eru þeir grundvallarhagsmunir sem við þurfum að standa fast á í þessu máli og þeir eru í samræmi við það sem allir stjórnmálaflokkar hafa reifað í stefnumótun sinni varðandi nánari tengsl við Evrópu. Rauði þráðurinn í málflutningi allra flokka, sem allir hafa á þessu ári fjallað um málið, er varðstaða um auðlindir fari svo að gengið verði til viðræðna um aðild. Það er mér fagnaðarefni að um þetta er alger samstaða milli flokka. Menn geta svo velt fyrir sér hvort það sé tímabært að sækja um aðild núna. Mér virðist að sú skoðun sé að ná meira fylgi en áður og þá vísa ég til þeirrar þingsályktunartillögu sem kynnt var af frú forseta að lögð hefði verið fram af tveimur flokkum sem standa utan ríkisstjórnar.

Ég tel að það sé tímabært af mörgum ástæðum að láta einmitt núna reyna á umsókn. Í fyrsta lagi má færa mjög sterk rök fyrir því að þjóðin vilji fá að segja sitt álit og stjórnmálaflokkarnir, hvaða afstöðu sem þeir hafa til ESB, virðast vera á þeirri skoðun að hún eigi að fá það, samanber þá staðreynd að nú liggja fyrir þingsályktunartillögur sem fluttar eru með fulltingi fjögurra stjórnmálaflokka einmitt til að gefa þjóðinni færi á að tjá þennan vilja sinn.

Í öðru lagi hefur samfélagið tekið þátt í djúpstæðri umræðu um kosti og galla aðildar og upptöku evrunnar. Það má segja að lokasprettur nýliðinna kosninga hafi að töluverðu leyti snúist um það. Háskólasamfélagið hefur rætt þetta í þaula. ASÍ hefur tekið þetta mál fast að brjósti sínu. Ég hygg að segja megi að öll aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins hafi mótað mjög ítarlega stefnu um þetta. Við vitum það líka að tvær nefndir, skipaðar einvalaliði stjórnmálaflokka og atvinnulífs, hafa á síðustu árum og missirum fjallað um þetta mál og dregið saman óhemjumagn gagna og þokað umræðunni mjög áfram. Því má segja að Íslendingar hafi sem samfélag tekið mjög öflugan og mikinn þátt í þessari umræðu.

Í þriðja lagi hafa allir íslensku stjórnmálaflokkarnir lokið ítarlegri umræðu um málið í sínum stofnunum. Hver og einn einasti þeirra hefur tekið tengsl okkar og Evrópu til umfjöllunar á landsfundum sínum og mótað ítarlega stefnu um það hverjir grundvallarhagsmunir Íslendinga eigi að vera. Ég get því ekki annað en dregið þá ályktun að íslensku stjórnmálaflokkarnir séu ákaflega vel nestaðir í þessa umræðu.

En þegar ég segi að þetta sé tímabært einmitt núna vil ég bæta því við í fjórða lagi að nákvæmlega núna stendur íslenska þjóðin á krossgötum. Við höfum saman gengið í gegnum mestu erfiðleika sem dunið hafa yfir íslenska þjóð og við erum byrjuð að byggja upp hið nýja Ísland. Einmitt þá tel ég tímabært og nauðsynlegt að þjóðin sjálf taki ákvörðun um það hvert beri að stefna.

Ég held að við sem erum í þessum sal, þó að við kunnum að vera ósammála um Evrópusambandið, getum verið sammála um að umræðan hefur leitt mjög skýrt fram andstæð sjónarmið. Við þekkjum öll sjónarmið þeirra sem styðja aðild og þeirra sem eru á móti. Hvor tveggja sjónarmiðin hafa lögmætt gildi og eiga rétt á sér í umræðunni. Andstæðingar aðildar telja að í aðild felist óviðunandi afsal á fullveldi. Þeir óttast að gangi Ísland í Evrópusambandið verði ómögulegt að losna þaðan aftur og þeir telja að það sé ekki hægt fyrir Ísland að ganga í sambandið nema fá einhverjar varanlegar undanþágur frá regluverki sem ómögulegt sé að fá samkvæmt reglum sambandsins. Andstæðingarnir álíta sömuleiðis að Íslendingar verði að gefa eftir forræði yfir auðlindum, ekki síst í hafinu, og því er haldið fram að fiskimiðin muni komast í hendur útlendinga til frambúðar. Ég held að við getum verið sammála um það sem höfum tekið þátt í þessari umræðu að þetta eru sterkustu rökin sem tengjast umræðunni. Þetta eru þau rök sem umræðan hverfist um.

Ég nefni vitaskuld líka málefni landbúnaðar. Því er haldið fram að hann mundi eiga erfitt uppdráttar innan Evrópusambandsins, efnahagslegum grundvelli greinarinnar yrði stefnt í hættu og Íslendingar yrðu öðrum þjóðum háðir. Í tengslum við þetta hafa menn rakið það, ekki síst hv. þingmenn Framsóknarflokksins, að ef við gengjum inn kynnu varnir gegn smitsjúkdómum að bresta þannig að fæðuöryggi þjóðarinnar yrði ótryggt. Þetta eru helstu rökin sem eru gegn aðild. Allir vita hvar ég stend í þessu máli. Ég hef aldrei dulið mína afstöðu. Ég hef verið eindreginn og sannfærður Evrópusinni eins og svo margir félagar mínir í Samfylkingunni, sumir í Sjálfstæðisflokknum líka, þannig að það kemur engum á óvart að ég er ekki sammála þeim röksemdum sem ég var að telja fram gegn Evrópusambandinu. Ég tel hins vegar að það sé málefnalega rétt af mér að undirstrika þær rækilega vegna þess að þær eiga lögmætt erindi í umræðunni. Ég tel hins vegar að aðild feli ekki í sér afsal á auðlindinni og þegar um sjávarútveg og landbúnað er að tefla hefur sambandið gefið skýr fordæmi í tengslum við mikilvæga hagsmuni nýrra aðildarríkja sem sýna það svart á hvítu að hægt er að semja um sérlausnir á ýmsum mikilvægum úrlausnarefnum og umræðurnar um breytingar á sameiginlegu fiskveiðistefnunni í nýrri grænbók renna stoðum undir það. Við höfum í gegnum fréttir fylgst með því allra síðustu daga og við höfum séð það á fundi sjávarútvegsráðherra Evrópusambandsins sem voru að funda fyrir tveimur þremur dögum að þar er beinlínis tekið undir sjónarmið Íslendinga um að færa hið miðstýrða vald varðandi stjórn fiskveiða frá Brussel út til aðildarlandanna og í þeim efnum eigum við mikilvæga bandamenn. Þetta er mál sem hefur verið í þróun síðustu ár og við sjáum núna að er að renna í ákveðna fyllingu og það skiptir okkur verulegu máli.

Hvað landbúnaðinn varðar tel ég, miðað við þær breytingar sem líklegt er að verði á umhverfi landbúnaðarins í tengslum við þá samninga sem fyrirhugaðir eru á vegum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar á næstu árum, að íslenskum landbúnaði kunni að vera betur borgið á næstu árum innan ESB en utan. Ég þori að fullyrða það hér en það mun þingnefndin sem fær þetta til rannsóknar kynna sér. Og ég vil eigi að síður segja að ég tel t.d. að þeim hefðbundnu greinum landbúnaðar sem okkur hefur verið svo umhugað um eins og sauðfjárrækt og mjólkuriðnaði verði ekki verr borgið innan ESB en utan og sauðfjárræktinni raunar betur.

Í sjávarútvegi, sem auðvitað skiptir verulega miklu máli fyrir okkur og eru grundvallarhagsmunir, sýnir reynslan að Evrópusambandið hefur alltaf verið reiðubúið til að finna lausnir sem snerta grundvallarhagsmuni nýrra aðildarríkja. Sjávarútvegurinn eru grundvallarhagsmunir fyrir okkur og þetta eru auðvitað rök fyrir því að við eigum frekar að láta reyna á samning en standa álengdar hjá og telja að við munum ekki fá eitthvað sem við höfum ekki látið á reyna.

Ég vil hins vegar segja það, frú forseti, að meðal sterkustu raka fyrir aðild er vitaskuld sá efnahagslegi ávinningur sem ég sé að í henni felst, bæði til skemmri og lengri tíma. Ég vil segja það alveg skýrt að aðild er engin töfralausn, hún er engin allsherjarlausn sem losar okkur við öll þau vandamál sem við höfum eins og með því að smella fingri. Ég tel hins vegar að hægt sé að færa verulega sterk rök að því að aðild muni renna styrkari stoðum undir efnahagslífið og hún stuðli að því sem við þurfum svo ríkulega á að halda, auknu trausti á íslenskt atvinnu- og efnahagslíf. Og ég tel líka að í þeirri óvissu sem ríkir núna um það hvert við, íslenska þjóðin, íslenska þingið vill stefna mundi umsókn draga verulega úr þeirri óvissu og ég vísa til þess líka að í stefnuræðu sinni um daginn færði hæstv. forsætisráðherra gild rök fyrir því að umsókn mundi að öllum líkindum mjög skjótlega hafa styrkjandi áhrif á gengið.

Hvað er það sem hv. þingheimur hefur verið að ræða um í þessum ræðustól frá því að þing kom saman í vor? Eitt af því er sú nauðsyn sem íslenskum fyrirtækjum og íslenskum heimilum er á því að fá stöðugan gjaldmiðil og á þeirri nauðsyn þeirra að losna við verðtrygginguna. Þetta er leið til þess. Ég dyl ykkur þess ekki heldur að fyrir mér sem fyrrverandi atvinnuráðherra eru það sterk rök sem ég fann á eigin hljóðhimnum næstum því vikulega meðan ég var í forustu í iðnaðarráðuneytinu að aðild og upptaka evrunnar mun greiða erlendri fjárfestingu leið inn í samfélagið á sama tíma og það er óhjákvæmilegt að innlendar fjárfestingar munu minnka vegna þess að heimili og fyrirtæki munu vera að berjast við það að borga skuldir sínar. Það er skoðun mín að aðild að Evrópusambandinu mundi verulega hvetja til erlendra fjárfestinga hér á landi og það er skoðun mín og míns flokks, Samfylkingarinnar, að við þurfum á erlendri fjárfestingu að halda til að vinna bug á atvinnuleysinu. Það hlýtur að skipta okkur máli. Og ég spyr hv. þingmenn: Hver getur annað en horft á þau rök að miðað við vaxtamuninn sem er að lágmarki milli okkar og evrunnar gæti upptaka hennar lækkað vaxtabyrði íslenskra fyrirtækja um 130 milljarða á ári? Aðild og upptaka evrunnar gæti lækkað vaxtabyrði, vaxtagreiðslur íslenskra heimila um 60 milljarða á ári. (Gripið fram í: Eftir 10 ár?) Gæti lækkað sömuleiðis greiðslubyrði vegna vaxtagreiðslna ríkisins um 30–40 milljarða á ári. Þetta er tvöfalt meira en það sem þingheimur mun glíma við á næstu dögum til að skera niður í ríkisfjármálum. (Gripið fram í.) Hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson kallar hér fram í og hugsanlega hefur hann aðra skoðun en ég og ég er viss um að margir í þessum sal hafa aðra skoðun en ég. Skoðanir mínar eru ekki heilagar og reynslan sýnir líka að þær eru heldur ekki alltaf réttar.

Ég held hins vegar að við getum ekki skorið úr því hvort ég eða hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kunnum að hafa rétt fyrir okkur með vangaveltum úr stóli Alþingis. Eina leiðin til að skera úr þessu er sú að láta á það reyna hvað Íslendingum í krafti sinnar sérstöðu stendur til boða, hver ávinningurinn er og hver fórnarkostnaðurinn verður í samanburði við hann. Það er sú leið sem við skuldum íslensku þjóðinni. Ef íslenska þjóðin kemst síðan að þeirri niðurstöðu að samningur sé henni óhagkvæmur þegar allir hagsmunir eru metnir, þegar öll lóð eru á vogarskálum vegin, þá mun íslenska þjóðin einfaldlega hafna samningnum í atkvæðagreiðslu. En það er réttur hennar að fá að standa frammi fyrir þessum möguleikum, fá að taka afstöðu til þeirra og segja já eða nei. Ég tel að það sé hlutverk okkar löggjafans og framkvæmdarvaldsins í sameiningu að búa málið í hendur þjóðinni svo hún geti sjálf tekið upplýsta ákvörðun. Og það er einungis hægt að leggja málin í dóm hennar með því að ganga til samninga við Evrópusambandið, semja um hvert einasta mál af íslensku harðfylgi og leggja svo niðurstöðuna fyrir í þjóðaratkvæði. En ég segi það alveg hiklaust sem umhverfisráðherra að í því máli er ekkert gefið fyrir fram — sem utanríkisráðherra. (Gripið fram í: Þú ert ekki enn þá orðinn umhverfisráðherra.) Ég var það. Ég vil einungis segja það sem utanríkisráðherra að það er ekkert gefið fyrir fram í þessu. Niðurstaðan verður einungis metin á grundvelli samningsniðurstaðna og það er þess vegna sem leiðtogar þjóða sem hafa sótt um hafa sett fram sterka fyrirvara heima fyrir alveg eins og þáverandi móðir Noregs, forsætisráðherrann Gro Harlem Brundtland, gerði í frægri ræðu og alveg eins og gert er í greinargerð með þeirri tillögu sem við erum að ræða.

Það má svo velta því fyrir sér hvort sú leið sem hér er lögð til sé ásættanleg fyrir þá stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi. Ég tel að ef yfirlýsingar leiðtoga flokkanna eru skoðaðar sé svo. Ég tel að Borgarahreyfingin, sem er nýjasta aflið hérna, hafi lýst því skýrt yfir að hún sé reiðubúin til að styðja þessa aðferð svo fremi sem ákveðnum lýðræðislegum skilyrðum sé fullnægt. Ég hef lýst því yfir að ég mun gera allt mitt til þess að uppfylla þau skilyrði vegna þess að ég er þeim sammála.

Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi sínu mjög merka tillögu í kjölfar þess að tillögu á því þingi um tvöfalda atkvæðagreiðslu var hafnað og þar sagði flokkurinn að hann vildi gjarnan að sótt yrði um aðild á grundvelli tiltekinna skilyrða og niðurstaðan borin undir þjóðina. Aðferðafræðin er sú sama og í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir af minni hálfu. (Gripið fram í: Nei, nei, nei.) Það er enginn grundvallarmunur t.d. á þeim viðhorfum sem sett eru þar fram sem skilyrði og því sem er að finna í þeirri tillögu sem hérna er. Og Framsóknarflokknum aðeins til hugarhægðar vil ég segja það líka að ég hef hvergi lesið betri texta um það hvernig semja beri við Evrópusambandið en einmitt í þeim texta sem fyrrverandi formaður flokksins, Jón Sigurðsson, skrifaði á Pressuna í síðustu viku. Og ég segi það hér alveg skýrt að ég get skrifað undir svo að segja hvern þeirra fyrirvara sem koma fram í ályktun Framsóknarflokksins.

Hvað Sjálfstæðisflokkinn varðar liggur fyrir mjög skýr afstaða formanns hans og formanns þingflokksins til einmitt þeirrar leiðar sem lagt er til að hér verði farin. Í grein sem þeir skrifuðu saman í Fréttablaðið fyrir nokkru segja þeir skýrum orðum að jafnvel þótt það yrði niðurstaða Sjálfstæðisflokksins að Ísland ætti að standa utan ESB væri það, með leyfi forseta, engu að síður mjög í samræmi við sterka lýðræðishefð í Sjálfstæðisflokknum að láta málið ganga til þjóðarinnar í kjölfar viðræðna þar sem ýtrustu hagsmuna hefur verið gætt. (Forseti hringir.) Ég tel, frú forseti, að það ætti því að vera hægt á þessu þingi að ná góðri samstöðu um þær leiðir sem flokkarnir telja saman að séu bestar í þessu máli.