137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmenn valda mér miklum vonbrigðum vegna þess að nú er verið að greiða atkvæði um eitthvað. Alþingi Íslendinga er að fara að greiða atkvæði um mjög stórt mál sem er að sækja um að aðild að Evrópusambandinu, efnahagsbandalagi margra ríkja, og Borgarahreyfingin ætlar ekki að fela þjóðinni að taka þá ákvörðun að sækja um. Borgarahreyfingin ætlar að láta fjórflokkinn á Alþingi taka þá ákvörðun fyrir sig en ekki þjóðina.

Mér finnst það bara alls ekki í samræmi. Það er ekkert samræmi í því þegar menn segja að þjóðin eigi að taka ákvörðun í mikilvægum málum. Telur þá Borgarahreyfingin að þetta sé ekki mikilvægt mál sem við fjöllum hér um í dag? Það er stórmál og ég skil ekki af hverju Borgarahreyfingin getur fallist á að Alþingi feli ríkisstjórninni, þ.e. hæstv. utanríkisráðherra, sem samkvæmt stjórnarskrá fer með málið, einum manni að semja um aðild og láta þjóðina bara bíða og svo tekur hún einhverja endanlega niðurstöðu. Mér finnst að Borgarahreyfingin hafi brugðist vonum mínum og væntingum.