137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:45]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég deili ekki þeirri skoðun hv. þingmanns sem mér fannst hann vera að ýja að, að vandi okkar felist í tengslum okkar við Evrópu. Ég get hins vegar alveg tekið undir með honum um að það hjálpaði okkur ekki í aðdraganda hrunsins að við höfðum takmarkaða aðild að Evrópu. Með öðrum orðum, EES-samningurinn, sú veikburða tenging við Evrópu sem við höfðum, ýtti undir hrunið og gerði það verra. Einn stærsti áhrifaþátturinn þar var okkar veikburða gjaldmiðill sem veitti okkur ekki stoð gegn efnahagssveiflum, öfugt við það sem við héldum, heldur þvert á móti ýkti hann þær og gerði okkur sérstaklega viðkvæm í aðdraganda hrunsins.

Ég held að lærdómurinn sem við eigum að draga af þessu sé að til þess að leggja grunn fyrir efnahagslegan stöðugleika til lengri tíma litið og fyrir fjölþættan atvinnurekstur sem getur skapað þjóðarbúinu viðvarandi, jafnan og stöðugan hagvöxt, þurfum við aðild að Evrópusambandinu. Hún er nauðsynleg forsenda (Forseti hringir.) efnahagslegs stöðugleika í þessu litla hagkerfi.