137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[12:59]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég er fylgjandi því að sækjum um aðild að Evrópusambandinu — og gott að ég er kominn með leyfi hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra til að hafa þá skoðun — með þeim fyrirvara þó að ég er ekkert endilega fylgjandi aðild að Evrópusambandinu. Til þess þarf ég að sjá samninginn og ég tel mikilvægt að þjóðin fái núna tækifæri til þess að skera úr um það.

Ég tel líka mikilvægt að við gerum þetta rétt og það er inntak tillögu til þingsályktunar frá stjórnarandstöðunni. Skil ég hæstv. félagsmálaráðherra rétt þannig að hann telji ekki ástæðu til þess að skilgreina samningsmarkmiðin eins vandlega og við getum fyrst og skilgreina ferli málsins fyrst áður en við ákveðum að senda inn aðildarumsókn? Þetta er ekki alveg skýrt í hans máli.

Í annan stað vil ég spyrja hæstv. félagsmálaráðherra, vegna þess að hann sagði að það væru ekki forsendur til að koma á efnahagslegum stöðugleika á Íslandi núna og setti það í samhengi við þetta mál. Samkvæmt öllum gögnum bendir allt til að aðildarviðræður geti hafist eftir svona eitt til tvö ár og að aðildarviðræðum verði kannski lokið eftir (Forseti hringir.) fimm til tólf ár samkvæmt upplýsingum í bókinni Inni eða úti eftir Auðun Arnórsson. Telur hann í ljósi þessara upplýsinga að efnahagslegur stöðugleiki komist þá (Forseti hringir.) ekki á á Íslandi fyrr en eftir (Gripið fram í.) fimm til tólf ár eða eitthvað meira jafnvel?