137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna þessum sáttatón hjá hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni. Það verður samt að segjast eins og er að það er holur hljómur í því þegar ríkisstjórnarflokkarnir tala um sátt og sáttagjörð þegar þeir eru í rauninni búnir að afgreiða málið formlega séð. Það er bara einfaldlega verið að segja við okkur: „Við erum í vandræðum, kæra stjórnarandstaða. Eruð þið ekki til í að hjálpa okkur í gegnum þingið með málið?“

Þannig standa málin. Þetta er staðreynd. Ég get alveg talað um holan hljóm og farið út í stjórnarskrármálið þegar menn eftir á reyndu að bjarga því sem bjargað varð. Það er ekki raunverulegur vilji til þess að vinna hér þverpólitískt eða þvert á alla flokka í mikilvægum málum.

Á þeim skamma tíma sem ríkisstjórnin hefur setið — í 120 daga eða hvað það er? Reyndar er það nægur tími til að vinna úr þeim verkefnum sem liggja fyrir — þá liggja ekki nema þannig dæmi fyrir sem sýna okkur að ekki er raunverulegur vilji til þess að ná samkomulagi um mikilvæg mál. Ég er búin að nefna dæmi um það.

Ég spyr líka: Af hverju komum við þá ekki fyrr að borðinu? Af hverju erum við bara að lesa um það í blöðum alltaf hvernig hin og þessi tillaga frá ríkisstjórninni muni líta út og hvernig niðurstaðan eigi að vera? Af hverju komum við ekki fyrr að borðinu, aðrir þingflokkar á þingi en stjórnarinnar?

Ég spyr líka fyrst að hv. formaður utanríkismálanefndar mun fara hérna upp á annað andsvar við mig á eftir væntanlega: Ef honum er svona heilög þessi sáttagjörð — ég vonast til þess. Ég hef ekki reynt hann að öðru — þá spyr ég líka hvort ekki sé bara fínt að þingið noti þann tíma sem það þarf til þess að fara yfir málið eða er júnímánuður heilagur tími fyrir hv. þingmann, formann utanríkismálanefndar til að klára málið? Eru svipuhöggin frá ríkisstjórninni slík að hann verði að klára málið í júnímánuði eða hefur hann frelsi til þess að haga vinnu utanríkismálanefndar eins og honum hentar?