137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:48]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Bara svo enginn gleymi því vek ég athygli á að hér var fjármálaráðherra að mæla fyrir umsókn inn í Evrópusambandið, svo því sé til haga haldið. Ríkisstjórnin er að biðja okkur um umboð fyrir umsókn um aðild að Evrópusambandinu og það segir kannski eitthvað um ástandið í ríkisstjórninni að þegar maður hlustar á þessa ræðu er ekki alveg hægt að greina það.

Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra nokkurra spurninga. Í fyrsta lagi um sinnaskiptin: Af hverju skipti VG svo hastarlega um skoðun eftir þær yfirlýsingar sem voru gefnar rétt fyrir kosningar? Í öðru lagi: Mun ríkisstjórnin lifa ef þessi tillaga verður ekki samþykkt? Og í þriðja lagi: Af því að hér er talað mikið um að þingið eigi að taka ákvörðun um þessa hluti, kemur til greina af hálfu hæstv. fjármálaráðherra að samþykkja þá tillögu sem hér er lögð fram af Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki?