137. löggjafarþing — 8. fundur,  28. maí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:00]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla ekki að andmæla því. Auðvitað er Ísland í nánu samstarfi við Evrópuþjóðir hvort heldur er í gegnum EES-samninginn eða aðra þá samninga sem tengja þessar þjóðir saman eða tengja Ísland við ríki heims um alla jarðarkringluna. Ég er hins vegar ósammála hv. þingmanni Ragnheiði Elínu Árnadóttur um þessi miklu áhrif sem við gætum haft á EES-samninginn. Ég tel að fimmtán ára starf okkar innan þess samnings sýni svo ekki verði um villst að ekki einungis höfum við ekki nýtt þær leiðir sem þar eiga að vera í boði, höfum ekki haft áhuga á því, heldur hafa þær heldur ekkert alltaf verið í boði. Það er mjög mikilvægt að hv. þingmenn geri sér grein fyrir því að EES-samningurinn er embættismannasamningur. Hann er ekki pólitískur samningur í raun. Hann er embættismannasamningur þar sem sérfræðingar koma saman. (VigH: Hann er samþykktur á Alþingi.) Ég er að tala um hvernig samningnum er haldið við og hvernig starfað sé eftir honum.

Þar geta jú sérfræðingar komið inn með faglegar athugasemdir á frumstigi eins og hefur verið bent hér á og er auðvitað alveg rétt. En það er stundum gert, stundum ekki. En það breytir því ekki að hinar pólitísku ákvarðanir sem á endanum eru teknar um þær gerðir sem ráðherraráð Evrópusambandsins eða framkvæmdastjórnin leggur til við ráðherraráðið að verði færðar í lög eru pólitískar og þær hafa ekkert með það að gera hvort einhverjir embættismenn frá Íslandi hafi komið inn á fund við upphaf ferlisins í Brussel. Þetta eru á endanum pólitískar ákvarðanir.