137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[14:01]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Lægsti mögulegi samnefnari, já, það var niðurstaða nefndarinnar. Við þekkjum öll afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli og í máli hæstv. iðnaðarráðherra birtist líklega sá reginmisskilningur sem er grundvöllurinn að tillögu stjórnarinnar. Hann er sá að samráð þurfi bara að eiga sér stað innan Samfylkingarinnar og meðal helstu bandamanna Samfylkingar í Alþýðusambandinu og víðar og þegar það samráð hafi átt sér stað og kominn samhljómur þar hafi samráðið verið klárað.

Samráð verður að ná víðar en til Samfylkingarinnar og helstu bandamanna hennar. Samráð verður að ná til annarra flokka … (Gripið fram í.) Já, já, við getum kastað hér fram ýmsum nöfnum. Þið getið líka eflaust nefnt einhverja þekkta vini ykkar í Evrópu eins og ykkur er svo gjarnt, en samráð verður að ná til fleiri en nánasta hópsins og nánustu vina. Samráð verður að ná til alls Alþingis og um það snýst þetta mál, að Alþingi hafi samráð. Og ég vonast til þess að Samfylkingin muni, þrátt fyrir að hafa fengið 30% fylgi í þessum kosningum — og ég óska ykkur til hamingju með það — ekki ofmetnast svo að hægt sé að gleyma hinum 70% alveg. Samráð verður að ná víðar en til þessara 30% — eða það voru 30%, ég veit ekki hvert fylgið er núna, við skulum sjá til með það. Samráðið verður að ná til sem flestra, öðruvísi er þetta ekki raunverulegt samráð. Við höfum líka séð afleiðingar þess þegar Samfylkingin fer ein af stað. Ég ætla að nefna hérna eitt orð, Icesave, þar sem Samfylkingin var tilbúin til þess að fórna nánast hverju sem er. Nefndu upphæðina, sögðu þeir, bara til þess að setja ekki hugsanlegar aðildarviðræður við Evrópusambandið í uppnám. Ég held því að það veiti ekki af samráði við fleira fólk og að einhver haldi í höndina á Samfylkingunni þegar kemur að hugsanlegum aðildarviðræðum við Evrópusambandið.