137. löggjafarþing — 12. fundur,  29. maí 2009.

undirbúningur mögulegrar umsóknar um aðild að Evrópusambandinu.

54. mál
[15:45]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða var uppfull af makalausum dylgjum og óvild og engu öðru. Hún var á mörkum þess að vera svaraverð. Ég ætla samt að svara hv. þingmanni á þeim stutta tíma sem hér er uppi.

Að sjálfsögðu er enginn að lofa neinu. Ég vísaði í tölur sem hæstv. utanríkisráðherra nefndi í ræðu sinni í gær hvað það gæti fært íslenskum heimilum ef. En óttaþrungnir stjórnmálamenn, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal, hafa haldið þjóðinni frá því árum saman að leiða þetta stærsta hagsmunamál sitt til lykta með þeim undarlega og óttaþrungna áróðri um hvað ef, hvernig verður sambandið eftir 100 ár og hvernig var það fyrir 20 árum? Og hafa þannig haldið þjóðinni frá því og fært henni þá blekkingu í fangið sem hin veika EES-stoð reyndist vera. Það er þingmaðurinn sem er með trúboð og hræðsluáróður, við erum einungis að benda á hugsanlega kosti og hugsanlega galla. Hér erum við fyrst og fremst að ræða um málsmeðferð í málinu.