137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla aðeins að blanda mér í þá umræðu sem hér hefur farið fram um efnahagsmálin og vaxtamálin. Ég vil fyrst segja að mér finnst sá málflutningur sem hér er hafður uppi af hálfu þingmanna stjórnarandstöðuflokkanna um aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar ómaklegur og ég held að þessir hv. þingmenn hljóti að tala gegn betri sannfæringu. (Gripið fram í.)

Það er talað um aðgerðaleysiskostnað. Kostnaðurinn sem samfélagið stendur frammi fyrir í dag er kostnaðurinn af efnahagshruninu, af frjálshyggjunni sem hrundi og af efnahagsráðgjöfinni sem fram fór í aðdraganda þess alls. (Gripið fram í.) Það er sá kostnaður sem við erum að glíma við og erum að takast á við. [Háreysti í þingsal.] Ríkisstjórnin hefur upplýst — Hæstv. forseti.

(Forseti (ÁRJ): Viljið þið gefa ræðumanni hljóð.)

Ríkisstjórnin hefur kynnt að hér komi áætlun um aðgerðir í efnahagsmálum og það hefur verið upplýst í þingnefndum sem hv. þingmenn eiga sæti í og vita um ef þeir mæta á nefndarfundi. (Háreysti í þingsal.) Í fjárlaganefnd hefur farið fram kynning á því sem ríkisstjórnin hefur í bígerð í þessu efni. Það er ómaklegt að segja að ekkert sé verið að gera. Það er unnið hörðum höndum að því að takast á við þá erfiðleika sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir.

Varðandi vaxtaákvörðunina sem kom í morgun segi ég fyrir mína parta að hún veldur mér miklum vonbrigðum. (Gripið fram í: Nú?) Að sjálfsögðu gerir hún það. (Gripið fram í.) Ég hafði vænst þess að hún yrði mun meiri, ekki síst í ljósi yfirlýsinga sem Seðlabankinn gaf sjálfur síðast þegar hann ákvað vexti. Þess vegna eru það mikil vonbrigði að þessi vaxtalækkun sé ekki meiri.

Ég er þeirrar skoðunar, og við hljótum öll að vera sammála um það, að brýnasta verkefnið fyrir fyrirtækin og heimilin í landinu sé að ná niður vöxtunum. (Gripið fram í: Af hverju …?) Það er það sem við þurfum að gera. Ég er líka þeirrar skoðunar og vil koma því á framfæri hér að ríkisstjórnin þurfi að ræða sérstaklega (Forseti hringir.) ákvörðun Seðlabankans um stýrivaxtalækkun. Hún er ekki nægilega mikil og ríkisstjórnin á að taka það til umfjöllunar (Forseti hringir.) á sínum vettvangi. (Gripið fram í: Og búið að reka seðlabankastjórann, Davíð Oddsson.)