137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

afskriftir af höfuðstóli lána íslenskra heimila og rekstrarfyrirtækja.

49. mál
[15:44]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. ráðherra, hvað er rétt verð fyrir þessar eignir? Er rétt verð ekki bara það sem hægt væri að fá fyrir þær? Eins og ástandið er núna fengist mjög lágt verð fyrir þessi lánasöfn eins og önnur lánasöfn banka. Ef enginn annar en íslenska ríkið væri tilbúinn að borga meira en t.d. 25% fyrir þessi íslensku fasteignalánasöfn, er þá eðlilegt að íslenska ríkið hlaupi undir bagga með kröfuhöfunum og greiði meira fyrir það? Eða er eðlilegt að ríkið borgi bara það sem gæti fengist ef lánasöfnin yrðu boðin upp, og ef tilfellið er þá, og nú ítreka ég spurninguna frá því áðan, að hægt væri að fá þetta á 25% væri þá engu að síður eðlilegt að reyna áfram að rukka alla lántakendur um 100%?