137. löggjafarþing — 14. fundur,  4. júní 2009.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[17:38]
Horfa

Flm. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í umræðunni og góðar undirtektir og jákvæðar við málinu. Ég hlakka til umfjöllunar um það í efnahags- og skattanefnd og er full ástæða til að hafa þar undir víðara svið ef mönnum þykir efni til. Fyrr á tíð voru sjóðunum sett að mörgu leyti kannski þrengri mörk en við eiga nú vegna þess að sumir þeirra voru bundnir við lítil samfélög þar sem menn höfðu á löggjafarþinginu áhyggjur af því að menn yrðu beittir þrýstingi til að fara í óarðbærar fjárfestingar og þess vegna voru settar girðingar þar um. En nú hafa sjóðir sameinast og ná yfir stór landsvæði og hafa slíkan fjölda félaga að þau sjónarmið eiga miklu síður við en áður var og getur verið ástæða til að rýmka um takmarkanir eins og þá sem hér um ræðir.

Hvað varðar spurningar frá hv. þm. Birki Jóni Jónssyni þá er það vissulega rétt að hér væri sannarlega átt við þjónustuíbúðir fyrir aldraða eins og annað íbúðarhúsnæði en það yrði að víkka málið ef það ætti að ná til þjónustustofnana á borð við hjúkrunarheimili. Ég held að það verði að vera áhersluatriði ef þeim væri beitt að einhverju leyti í slíkum samfélagslegum verkefnum að það yrði engu að síður að vera á þeim forsendum að sjóðirnir hefðu og væru með tryggðar tekjur sem skiluðu þeim bæði fjárfestingunni aftur og hóflegri arðsemi til lengri tíma litið eins og eðlilegt er um fjárfestingar af þessu tagi. Það er gæfa okkar í því mikla efnahagshruni sem hefur orðið hér á landi að hafa fyrir margt löngu tekið ákvörðun um uppbyggingu þessara sjóða og hafa staðið oftast nær býsna þéttan vörð um það að þeir eigi að ávaxta sig og ávaxta sig vel vegna þess að núna þegar áfallið hefur riðið yfir þá búum við að þeim. Ég hygg að við séum sammála um það, ég og hv. þingmaður, að þannig verðum við að halda á málum áfram að þær eignir sem við leyfum sjóðunum að ráðast í fjárfestingar í skili þeim arði þó að þær geti jafnframt verið úrlausn á samfélagslegum verkefnum.

Hvað varðar aðkomu lífeyrissjóðanna að svokölluðum einkaframkvæmdum, t.d. í vegamálum eða öðru slíku, til að auka þrótt í atvinnu- og efnahagslífi á næstu mánuðum og missirum þegar við þurfum á því að halda sem aldrei fyrr, þá held ég að það sé afar jákvætt og raunar afar mikilvægt ef um það gæti tekist sátt og samstaða að fara í slík verkefni.

Hvað varðar hugmyndir um gengismarkað í Seðlabankanum þá vil ég ekki tjá mig sérstaklega um útfærsluna en ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og hef lýst því opinberlega að einmitt núna sé sannarlega tækifæri fyrir sjóðina sem hér starfa og munu starfa um alla framtíð og munu standa fyrir lífeyrisgreiðslum í samfélaginu, að sjaldan hafi verið betra tækifæri fyrir þá og aðstæður til að flytja heim eignir í útlöndum en einmitt við þá stöðu gengisins sem nú er, því miður, og við vonum auðvitað að sem allra fyrst takist að ná niður vöxtum en hér eru jafnframt gríðarlega háir vextir. Og af tvennu er skárri kostur að sá mikli fjármagnskostnaður renni til lífeyrissjóðanna vegna þess að þeir hafi flutt fjármagn heim þegar gengisskráning var hagstæð heldur en að þeir renni til erlendra kröfuhafa. Almennt séð tek ég jákvætt í þau atriði sem hv. þingmaður spurði um og hlakka til umfjöllunar í hv. efnahags- og skattanefnd um þetta mál eins og önnur á yfirstandandi þingi.