137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Frú forseti. Eitthvað kannast þingheimur við þau vinnubrögð að málin komi á dagskrá þegar þau eru afgreidd. Það er nákvæmlega þetta sem þingmenn stjórnarandstöðunnar eru að benda á, að við viljum fá málið á dagskrá í dag. Hér er sendinefnd sem er bundin trúnaði, hún hefur hitt þingflokkana, og það er verið að kynna hina „glæsilegu“ lausn sem hæstv. fjármálaráðherra kynnti í fjölmiðlum fyrr í vor, að það væri glæsileg lausn í sjónmáli.

Það er óþolandi hvernig komið hefur verið fram við Alþingi nú á vorþinginu. Hér átti að vera gagnsæi og annað en gögnum er haldið frá þinginu. Hæstv. utanríkisráðherra fer til annarra landa til að semja um eitthvað sem hvorki þing né þjóð er búin að segja álit sitt á eða samþykkja neitt um. Þetta eru forkastanleg vinnubrögð. Þetta mál verður að komast á dagskrá þingsins í dag.