137. löggjafarþing — 15. fundur,  5. júní 2009.

staðan í Icesave-deilunni.

[13:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Við erum vitni að mjög sérkennilegum hlutum. Hér í vikunni er búið að gefa svo vægt sé til orða tekið mjög misvísandi yfirlýsingar varðandi Icesave. Kynnt voru í trúnaði málsatriði í þingflokkum og nefndum. Í hádegisfréttum heyrum við hins vegar forustumenn ríkisstjórnarinnar segja að þeir hafi náð einhverjum stórkostlegum árangri, einhverjum stórkostlegum sigri.

Hvar eru þessir sigurvegarar núna, virðulegi forseti? Hérna? Nei, þeir eru að baða sig í sviðsljósinu og reyna að telja fólki trú um að þeir hafi náð einhverjum árangri. Á sama tíma segja þeir þingmönnum að þeir eigi að halda trúnað um það litla sem þeim var sagt frá. Þetta eru engin vinnubrögð, virðulegi forseti, og það er fyrir neðan virðingu þingsins að forustumenn ríkisstjórnarinnar hagi sér með þessum hætti.

Ég tek undir það sem þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins sagði áðan og það er eðlileg krafa: Frestum fundi (Forseti hringir.) og fáum þessa meintu sigurvegara á svæðið (Forseti hringir.) til að ræða þessi mál.